Santiago Síle,
Flag of Chile


SANTIAGO
SÍLE

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Santiago er höfuðborg Síle og höfuðborgarhéraðsins.  Hún er við skurði Mapocho-árinnar og í austri blasa við háir tindar Andesfjalla.  Spænski sigurvegarinn Pedro de Valdivia stofnaði borgina 1541 (Santiago del Nuevo Extremo).  Þarna bjuggu picunche-indíánar, sem urðu undirsátar spænsku innflytjendanna.  Upprunalega borgarstæðið takmarkaðist af tveimur kvíslum Mapocho-árinnar og Huelén-hæðarinnar (Santa Lucía) í austri, sem var notuð sem útsýnisstaður.

Litlar framfarir urðu á valdatíma Spánverja og ferhyrningsskipulagi borgarinnar var haldið áfram fram á fyrri hluta 18. aldar, þegar hún stækkaði til norðurs, suðurs og þó aðallega til vesturs.  Suðurbakki árinnar var ræstur fram og breytt í göngugötu, sem nú heitir Alameda Bernardo O’Higgins.  Litlar skemmdir urðu á borginni í sjálfstæðisstríðinu 1810-18.  Aðalorrustan (Maipú) fór fram utan borgarinnar.  Santiago varð höfuðborg lýðveldisins 1818 og síðan hefur auður landsins streymt til hennar.

Helztu byggingar borgarinnar frá nýlendutímanum eru Landstjórahöllin, Metropolitan dómkirkjan, Myntsláttan, Dómshöllin og kirkjurnar San Francisco, Santo Domingo, Recoleta Franciscana og Mercy.  Cousino-höllin er dæmi um 19. aldar byggingarlist og Listahöllin, Þjóðarbókhlaðan, Sameiningarklúbburinn og nútímaeinbýlishúsin í Vitacura, San Luis og Lo Curro eru frá 20. öld.

Stóriðja landsins er innan marka höfuðborgarsvæðisins.  Mikið er framleitt af matvælum, vefnaði, skóm og fatnaði.  Málmiðnaður og koparvinnsla eru líka mikilvægar atvinnugreinar.  Fjármálahverfi borgarinnar er mjög líflegt, þ.m.t. kauphöllin, bankar og tryggingarfélög.

Santiago er samgöngumiðja járnbrautanna.  Hraðbrautir og þjóðvegir tengja borgina við hafnir San Antonio í vestri og Valparíso í norðvestri.  Í borginni eru neðanjarðarlestir og flugvöllur fyrir millilandaflug er í Pudahuel og innanlandsflug í Los Cerrillos.  Þar að auki eru tveir einkaflugvellir, Lo Castillo og Tobalaba og herflugvöllurinn El Bosque.

Menningarlíf borgarinnar er heimsborgarlegt og áhrif frá Evrópu og Norður-Ameríku eru greinileg.  Afturhvarf til gamalla hefða og lista hefur verið áberandi í tónlist, leiklist, málaralist og bókmenntum.  Margt er að sjá í borginni, þjóðskjalasafnið, fjölda bókasafna og annarra safna.  Meðal menntastofnana eru Síleháskóli (1738), Katólski háskólinn (1888) og Tækniháskóli ríkisins (1947).  Þing landsins á aðsetur í Valparíso, 140 km austan Santiago.

Aðalútivistarstaðir borgarinnar eru garðarnir á Santa Lucía-hæðinni og San Cristóbal-hæðinni, þar sem er dýragarður og tjaldsvæði.  Víða um borgina eru starfandi einka- og opinberir íþróttaklúbbar og leikvangar.  Skíðasvæði eru í Farellones og margar baðstrendur við Kyrrahafið.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1991 á öllu höfuðborgarsvæðinu var rúmlega 5,3 miljónir.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM