Mayotte Frakkland,
France Flag


MAYOTTE
FRAKKLAND


.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

MAYOTTE (Mahoré) er syðst eyja Kómoroseyjaklasans í Mósambíksundi í Indlandshafi, 310 km norðvestan Madagaskar.  Hún er franskt yfirráðasvæði (Collectivité Territoriale De Mayotte).  Pamandzi er smáeyja 2½ km austan Mayotte og þangað liggur 2 km langur vegur að klettóttum skaga, Dzaoudzi, þar sem höfuðborgin og aðalhöfn eyjarinnar er.  Heildarfrlatarmá Mayotte er 373 km² og áætlaður íbúafjöldi var í kringum 86 þúsund árið 1991.

Fjallaskaginn, sem liggur frá norðri til suðurs er eldfjallakeðja (500-600m).  Kóralrifin umhverfis eyjuna mynda skjólgóða siglingaleið.  Þarna ríkir heitt og rakt úthafsloftslag og meðalárshiti er 24°C í ágúst og 27°C í desember.  Meðalársúrkoman er 5000 mm.  Hitabeltisflóran er þétt og grózkumikil.

Íbúarnir
eru flestir afkomendur malagasa.  Þeir eru múslimar og mikilla franskra áhrifa gætir í landinu.  Rómversk-katólskir eru allmargir.  Franska er opinber tunga landsmanna en flestir tala kómorísku, sem er skyld svahili.  Nokkur þorp standa með ströndum fram, þar sem töluð er malagasísk mállýzka.  Náttúruleg fjölgun er talsverð, þannig að Íbúafjöldinn vex hratt.  Rúmlega helmingur íbúanna er undir 15 ára aldri.  Aðalborgirnar eru Dzaoudzi og Mamoudzou, sem er stærst og raunveruleg höfuðborg landsins.

Efnahagur landsmanna byggist aðallega á landbúnaði á mið- og norðaustanverðri eyjunni.  Þar er ræktað talsvert af vanillubaunum ylang-ylang, kókoshnetum og kaffi.  Kassava, bananar, maís og hrísgrjón eru ræktuð til eigin þarfa.  Aðalútflutningsafurðirnar eru ylang-ylang-safi, vanilla, kaffi og kókoshnetukjarnar.  Hrísgrjón, sykur, hveiti, fatnaður, byggingarefni, málmar, sement og farartæki eru flutt inn.  Helzta viðskiptaland Mayotte eru Frakkland og eyjarskeggjar byggja stóran hluta afkomu sinnar á franskri fjárhagsaðstoð.  Vegakerfið tengir aðalborgirnar og flugvöllur fyrir samgöngur milli eyja er á smáeyjunni Pamandzi, suðvestan Dzaoudzi.

Stjórnsýsla og félagsmál.  Mayotte hefur haft sérstöðu undir frönskum yfirráðum síðan 1976.  Fulltrúi eyjarskeggja situr á franska þinginu og skipaður landstjóri stjórnar eyjunni með aðstoð 17 manna aðalráðs.  Réttarkerfið er sniðið eftir hinu franska.  Nokkur lítil sjúkrahús og heilsugæzlustöðvar eru á Mayotte.  Helztu heilbrigðisvandamálin eru malaría, smitsjúkdómar og berklar.  Menntakerfið nær til hefðbundinna skóla múslima, þar sem kóraninn er krufinn til mergjar, og almennra, franskra skóla. 

Sagan.  Á 15. öld lögðu arabar eyjuna undir sig og snéru íbúunum, sem voru líklega afkomendur bantúmanna og malæ-indónesa, til islamskrar trúar.  Á 16. öld komu Portúgalar og Frakkar til eyjarinnar.  Í lok 18. aldar lögðu sakalaya-menn af malagasíkyni frá Madagaskar eyjuna undir sig og settust þar að.  Frakkar fengu yfirráð yfir Mayotte 1843 auk annarra Kómoroseyja og Madagaskar.  Frakkar hafa stjórnað Mayotte sem aðskildu stjórnsýslusvæði frá Kómoroseyjum síðan 1975, þegar íbúar þriggja nyrztu eyjanna lýstu yfir sjálfstæði.  Íbúar Mayotte kusu að halda tengslunum við Frakka.  Árið 1976 lýstu Frakkar yfir sérstöðu eyjarinnar í franska stjórnkerfinu og íbúarnir kröfðust þess að eyjan yrði viðurkennd sem franskt hérað, sem franska stjórnin hafnaði.  Í desember 1979 ákvað franska þingið að framlengja sérstöðu eyjarinnar í fimm ár og að þeim tíma liðnum skyldi kanna hug íbúanna.  Sameinuðu þjóðirnar samþykkti ályktun um yfirráðarétt Kómoroseyja yfir Mayotte árið 1984.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM