| 
           
        
        Madura
        er indónesísk eyja í Java-Timur-héraði fyrir norðausturströnd
        Java og aðskilin frá Surabaya grunnu og mjóu sundi. 
        Flatarmál eyjarinnar er 5290 km². 
        Yfirborð hennar er hæðótt og rís hæst í 210 m.y.s. vestan
        megin og 430 m.y.s. austan megin.  Loftslag,
        flóra og fána Madura svipar til Austur-Java en jarðvegur er víðast
        þurr og ófrjósamur.  Kapok
        (fræsilki), kókoskjarnar og kókosolía eru mikilvægar framleiðsluvörur
        auk tekks úr skógunum í norðvesturhlutanum. 
        Aðalatvinnuvegirnir eru nautgriparækt og saltvinnsla, sem er ríkisrekin. 
        Nokkur þúsund lítilla fiskibáta (praus) eru gerð út og lítið
        eitt af olíu er dælt úr jörðu. 
           
          
        
        Íbúarnir, sem eru aðallega
        afkomendur innflutts vinnuafls, eru lágvaxnari og kraftalegri en Javabúar. 
        Þeir eru múslimar.  Nautaat
        laðar að sér mikinn fjölda áhorfenda. 
        Höfuðborgin er Pamekasan í miðsuðurhlutanum. 
        Aðrar helztu borgir eru Sumenep í austurhlutanum í grennd við
        grafhýsi Sumenep-prinsanna, Bangkalan á vesturströndinni með gömlu
        soldánshöllinni og áhugaverðri mosku og Sampang, Kamal og Kalianget
        á suðurströndinni.  Vegir
        liggja meðfram norður- og suðurströndum eyjarinnar og yfir hana miðja. 
        Allir vegir, nema Kamal-Pamekasan-brautin, eru lélegir. 
           
          
        Hollendingar komu sér fyrir
        á eyjunni síðla á 17. öld.  Þeir
        skiptu eyjunni í þrjú áhrifasvæði, sem voru sameinuð á ný 1885. 
        Madura varð hluti af sjálfstæðri Indónesíu 1949. 
        Áætlaður íbúafjöldi var tæplega 2,7 miljónir árið 1980.  |