| 
           
        Pulau Waigeo er stærst eyja Raja Ampat-eyjaklasans í
        Dampier-sundi í Irian Jaya-héraði í Indónesíu. 
        Hún er 64 km norðvestan Doberai-skagans og handan sundsins frá
        Irian Jaya (Vestur-Nýju-Gíneu).  Flatarmál
        hennar er 3100 km², lengdin frá austri til vesturs er 110 km og
        breiddin 48 km.  Eyjan er næstum
        klofin af firði og strandlengjan er klettótt og víðast brött. 
        Miðhlutinn er fjöllóttur og nær 1000 m hæð yfir sjó. 
        Þar er þykkur regnskógur með harðviði og straumhörðum ám. 
        Nokkrir hlutar eyjarinnar eru þaktir mannhæðarháu grasi, skógarlundum
        og furu.  Meðal
        fuglategunda eyjarinnar er hinn móskulegi paradísarfugl. 
        Þarna eru líka pokarottur, snákar, skjaldbökur, hegrar og
        risavaxnar mónitoreðlur.  Loftslagið
        er heitt og rakt við ströndina en svalara inni á eyjunni. 
        Landbúnaður er lítið stundaður og mest er ræktað af sagó. 
        Nokkur nautgriparækt er stunduð og djúpsjávarveiðar eru
        mikilvægar.  Útflutningurinn
        byggist á hertum fiski og skeljum skjaldbakna. 
        Eyjan er strjálbýl og íbúarnir (papúar) tala ástrónesíska
        tungu.  Aðalbæirnir eru
        Saonek á syðsta odda vesturhlutans og Wakre suðurodda austurhlutans. 
        Samgöngur eru á sjó við nærliggjandi eyjar (Batanta, Kofiau
        og Salawati) og Nýju-Gíneu um höfnina Sorong á norðvesturhorni
        Irian Jaya.  |