Íran landið,
Flag of Iran


ÍRAN
 
LANDIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Hin þurra, gróðurlitla og þríhyrnda slétta nær yfir mestan hluta landsins.  Hun er í 900-1500 m hæð yfir sjó.  Háreist Elburz-fjöllin teygjast frá austri til vesturs meðfram landamærunum í norðri.  Hæsti tindur þeirra í Íran er hin snævi þakta eldkeila Qolleh-ye Damavand (5604m).

Zargos-fjöllin, sem liggja frá norðvestri til suðausturs meðfram vesturlandamærunum og eru mun breiðari en Elburz-fjöllin.  Zagros-fjöll skilja á milli mjórrar strandsléttu Kaspíahafs og Persaflóa og grýttrar eyðimarka Mið-Írans.  Nokkrir samhliða fjallgarðar liggja milli Írak í vestri og sléttunnar í Íran í austri.  Mikil jarðskjálftavirkni er í öllu landinu.

Mestur hluti landsins er ofan 460 m.y.s.  Fjallendin eru mjög hrjúf, erfið aðkomu og strjálbýl hirðingjasvæði.  Um landið falla þrjár meginmóður og aðeins ein þeirra, Karun í vesturhlutanum, er skipgeng.  Straumharðar árnar til fjalla eru upplagðar til raforkuvinnslu.  Stöðuvatnið Urmia, salt og grunnt, norðaustast í landinu, er hið stærsta.

Eyðimerkur þekja u.þ.b. þriðjung landsins.  Þetta svæði er þakið sandi og grjóti (dasht) og hvassbrýndum saltmassa (kavir).  Saltsvæðin eru að mestu óbyggðar og ókannaðar auðnir.

Skógar þekja í kringum 11% landsins, aðallega á Kaspíasvæðinu, þar sem talsvert vex af eik, hlyn, beyki, valhnetu og eski.  Dreifðar vinjar, sem njóta vökvunar grunnvatnslinda, eru aðallega við rætur fjallgarðanna.  Þar vaxa helzt tamarindtré, aspir, döðlupálmar, mytrusviður, oleanderrunnar, akasíutré og mórberjatré auk vínviðar.  Uppi til fjalla eru birnir og þar er líka sauðfé, geitur, gasellur, villisvín, hlébarðar og refir.

Á sléttunum ríkir meginlandsloftslag með köldum vetrum og heitum sumrum.  Vetrarúrkoman, regn og snjór nemur að meðaltali 380 mm á ári í vesturhlutanum og 130 mm í austurhlutanum.  Við Kaspíahafið, þéttbýlasta svæði landsins, er ársúrkoman að meðaltali 2000 mm.  Hún minnkar í áttina að Persaflóa, þar sem hún er innan við 130 mm á ári.  Til fjalla snjóar oft mikið á veturna og þaðan kemur mestur hluti vatnsins, sem er notað til áveitna á vorin og sumrin.  Hitasveiflurnar á sléttunum eru milli –7°C á veturna og 38°C á sumrin.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM