Michelangelo Ítalía,
Flag of Italy


MICHELANGELO
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Ítalinn Michelangelo di Lodovico Buonarroti Simoni, mesti listamaður síns tíma, endurrreisnarmyndhöggvari, listmálari, arkitekt og ljóðskáld, hafði óviðjafnanleg áhrif á þróun vestrænna lista.  Hann fæddist í Caprese í Flórensríki 6. marz 1475 og dó í Vatíkaninu 18. febrúar 1564.  Hann var unglingur, þegar hin volduga Medicifjölskylda í Flórens tók hann undir sinn verndarvæng.  Medicifjölskyldan hefur verið nefnd guðfaðir endurreisnarinnar.

Fjöldi verka hans, málverk, höggmyndir og byggingar eru meðal hinna kunnustu í heimi.  Líklega eru freskurnar í hvelfingu Sistínsku kapellunnar (Vatikanið) kunnastar, þótt listamaðurinn hafi fyrst og fremst litið á sig sem myndhöggvara.  Á hans dögum var algengt, að listamenn stunduðu margar listgreinar, sem byggðust á hönnun eða teikningum.  Hann vann mikið úr marmara og notaði aðra listræna hæfileika aðeins á nokkrum æviskeiðum.  Sistínsku freskurnar njóta líklega þessarar miklu adáunar vegna hins mikla áhuga 20. aldar manna á málverkum og að þær voru meða fárra verka listamannsins, sem hann lauk að fullu.

Frægð hans á meðan hann var á lífi leiddi til þess, að ferillskrá hans var nákvæmari en annarra samtíma og fyrri listamanna.  Hann var fyrsti listamaðurinn, sem naut þess heiðurs, að tvær ævisögur hans var gefnar út á meðan hann var á lífi.  Hin fyrri var lokakafli í bókaflokki um ævir listamanna (1550) eftir listmálarann og arkitektinn Giorgio Vasari.  Aðrir kaflar bókarinnar fjölluðu um látna listamenn en kaflinn um Michelangelo fjallar um hann sem dæmið um hinn fullkomna listamann, öllum öðrum fremri.  Þrátt fyrir allt þetta lof, var Michelangelo ekki ánægður og fékk aðstoðarmann sinn, Ascanio Condivi, til að rita stutt ævirit um sig (1553).  Það var líklega byggt á óskum sjálfs listamannsins um ímynd sína.  Að Michelangelo látnum gaf Vasari út nýja útgáfu (1568), þar sem fullyrðingar hinnar ævisögunnar voru véfengdar.  Engu að síður hafa margir fræðimenn fremur aðhyllzt hina líflegu útgáfu Condivis.  Fjöldi endurprentana hennar skýtur stoðum undir vinsældir hennar meðal alþýðu.  Frægð Michelangelos leiddi einnig til varðveizlu fjölda minjagripa, s.s. hundraða sendibréfa, uppkasta og ljóða, margfalt fleiri en nokkurra annarra samtímalistamanna.  Þessi bók er uppspretta upplýsinga um listamanninn en einnig í henni eru einnig mótsagnir, sem eru einungis studdar rökum Michelangelos sjálfs.

Fyrri hluti ævinnar og verk.  Fjölskylda Michelangelos hafði stundað smávægileg bankaviðskipti í marga ættliði en föður hans tókst ekki að halda í horfinu.  Hann stundaði íhlaupastörf fyrir hið opinbera og var umboðsmaður litlu borgarinnar Caprese, þegar Michelangelo fæddist.  Nokkrum mánuðum síðar snéri fjölskyldan aftur heim til Flórens.  Listamannsstarfið var ekki í miklum metum og Michelangelo fékk ekki að hefja nám fyrr en hann var orðinn 13 ára og hafði tekizt að fá samþykki föður sins.  Hann gerði þriggja ára lærlingssamning við mest metna listmálara borgarinnar, Domenico Ghirlandajo, en fór frá honum (skv. Gondivi) eftir eitt ár, þar sem hann þóttist ekki geta lært meira hjá honum.  Nokkrar teikningar, eftirmyndir af verkum Ghirlandajo og eldri meistara (Giotto og Masaccio) eru til frá þessum tíma.  Lærlingar gerðu gjarnan svona eftirmyndir en fáar hafa varðveitzt

Augljósir hæfileikar Michelangelos vöktu athygli ráðamanns borgarinnar, Lorenzo de’ Medici hins mikla, sem tók hann undir verndarvæng sinn.  Lorenzo safnaði í kringum sig skáldum og gáfumönnum og Michelangelo lenti í þeirra hópi.  Á þennan hátt hafði hann aðgang að listaverkasafni Mediciættarinnar, þar sem var mikið af fornum, rómverskum styttum og brotum úr þeim.  Lorenzo var ekki eins mikill verndari samtímalista og sögur fara af.  Hann notaði slík verk til skreytingar í húsi sínu og í pólitískum tilgangi.  Bronsmyndhöggvarinn Bertoldo, vinur Lorenzo og umsjónarmaður listasafnsins, var næst því að vera leiðbeinandi Michelangelos á sviði höggmyndalistarinnar en nemandinn fór lítt að ráðum hans.  Eitt fyrsta marmaraverk hans er afbrigði af fornrómverskri líkkistu og Bertoldo gerði eina svipaða úr bronsi.  Hún er kölluð Orrusta kentáranna (um 1492) og segir meira um framtíðarstefnu listamannsins en Madonnan á tröppunum (um 1491), sem er fíngerð lágmynd að þeirra tíma hætti, í líkingu við verk flórenska myndhöggvarans Desiderio da Settignano.

Flórens þessa tíma var miðstöð lista.  Þaðan komu beztu málarar og myndhöggvarar Evrópu og samkeppnin milli þeirra var hvetjandi.  Ríkidæmi var minna en áður, þannig að þeir fengu minni umbun fyrir verk sín.  Leonardo da Vinci og kennari hans, Verrocchio, fluttust brott í leit betri tækifæra í öðrum borgum.  Mediciættin missti völdin árið 1494 og áður en pólitískts jafnvægi var komið á á ný, var Michelangelo fluttur brott.

Í Bologna var hann ráðinn til að taka við verki nýlátins myndhöggvara og gera smáskreytingar til að ljúka miklu verki við grafhýsi og skríni hl. Dóminíks (1494-95).  Marmarastytturnar þrjár eru frumgerðir og mikilfenglegar.  Hann vék frá skrautlegum hreyfanleika forvera síns og styttur hans eru alvarlegar og efnismiklar í anda fornklassíkur og hefða í Flórens allt frá dögum Giotto.  Þessi áherzla á alvöruna kemur einnig fram í vali marmarans sem hráefnis verka hans og einföldun útlits mannslíkamans á meðan samtímamenn hans lögðu alla áherzlu á hvert smáatriði líkamans.  Þótt þetta séu meginlínur í verkum Michelangelos, vék hann stundum frá þeim, ef honum fannst ástæða til.  Slíkt má sjá í fyrstu styttunni, sem varðveittist, Bakkus, sem hann gerði í Róm (1496-97) eftir stutta heimsókn í Flórens.  Bakkus byggist á fornrómverskum styttum en er hreyfanlegri og flóknari í útliti.  Meðvitaður óstöðugleiki verksins gerir það lifandi.  Þessi stytta var gerð sem garðskraut, þannig að hún er sjáanleg frá öllum hliðum.  Það gerir hana einstaka, vegna þess að flest önnur verk Michelangelos sýna aðeins forhlið.

Bakkusstyttan leiddi til þess, að listamaðurinn var ráðinn til að skapa Pietá (1498), sem er nú í Péturskirkjunni í Vatíkaninu.  Nafn styttunnar vísar ekki til þessa sérstaka verks, heldur til guðrækislegrar ímyndar margra verka.  Samkvæmt frásögnum af sorgarástandinu eftir dauða Krists á tvenningin að vekja áhorfandann til umhugsunar um lífsfórn Krists fyrir syndir heimsins og bæna um fyrirgefningu.  Erfiðasti hluti verksins var að framkalla tvær styttur úr einni marmarablokk.  Slík verk voru sjaldgæf á öllum tímum.  Þetta verklag var Michelangelo ekki ofviða, þar sem hann kunni til verka, og tókst að gera mikilfenglega styttu mikilla andstæðna og jók hróður sinn mjög.  Honum var falið að gera styttu af Davíð fyrir dómkirkjuna í Flórens.  Svona stórt verk var einstakt í borginni og Michelangelo notaði til þess risastóra marmarablokk, sem hafði staðið ónotuð í 40 ár.  Útlit styttunnar fellur að fornklassískum formúlum, þótt listamaðurinn móti ekki smáatriði líkamans.  Þessi stytta er notuð sem fordæmi um fullkomnun endurreisnarstílsins.

Samtímis gerð styttunnar af Davíð (1501-04) vann listamaðurinn að fjölda guðsmóðurstyttna fyrir ýmsa einkaaðila.  Meðal þeirra er lítil stytta, tvær hringlaga lágmyndir, sem eru líkar málverkum mismunandi dýptar.  Styttan af guðsmóður með barnið er stór og óhagganleg en málverkið af hinni heilögu fjölskyldu og lágmyndin af guðsmóður, barninu og hl. Jóhannesi sem barni eru fullar af lífi.  Þar tákna handleggir og fætur hreyfinguna í gegnum tímann.  Þar er táknræn tilvísun til örlaga Krists, sem er svo algengt að sjá í svipuðum verkum frá þessum tíma.  Þær koma líka upp um aðdáun listamannsins á Leonardo da Vinci, þótt hann neitaði stöðugt að vera undir áhrifum frá öðrum.  Endurkoma Leonardos til Florens árið 1500 eftir 20 ára fjarveru vakti spennu meðal ungra listamanna þar og síðari tíma fræðimenn hafa verið á einu máli um áhrif hans á Michelangelo, sem tókst að sameina þau sínum eigin stíl. 

Miðbik ævinnar.  Eftir að hafa slegið í gegn með styttunni af Davíð annaðist Michelangelo einkum stórverkefni.  Hann laðaðist að metnaðarfullum verkefnum og þrjózkaðist við að nota aðstoðarmenn.  Þessi vinnuaðferð leiddi til þess, að hann lauk fæstum verkefnunum.  Árið 1504 tók hann að sér að mála stóra fresku í ráðhúsi Flórens við hliðina á annarri, sem Leonardo da Vinci hafði byrjað á.  Báðar freskurnar lýstu hernaðarsigrum og eru lýsandi dæmi um hagleik mestu listamanna borgarinnar.  Mynd Leonardos sýnir hesta á stökki en Michelangelo málaði nakta hermenn á leið úr baði í á til að bregðast við tilkynningu um árás.  Þessi verk eru nú einungis til sem frumteikningar.  Árið 1505 hóf listamaðurinn gerð tólf styttna af postulunum fyrir dómkirkjuna í Flórens og tókst aðeins að byrja á styttu Matthíasar.  Lífið í þeirri styttu lýsir e.t.v. bezt áhrifum Leonardos á Michelangelo.  Þessi ókláraða stytta var hin fyrsta slíkra, sem heillaði síðari tíma aðdáendur.  Myndir hans virka þannig á áhorfendur, að þær séu að reyna að brjótast út úr steininum og þessi tilfinning sé tilgangur hálfunninna verkanna.  Svo er líklega ekki, því hefur vafalaust hefur listamaðurinn haft í hyggju að ljúka þessum verkum.  Michelangelo skrifaði sonnettu um það, hve erfitt er fyrir myndhöggvara að skapa fullkomna mynd úr steinblokkum.

Michelangelo rauk upp til handa og fóta, þegar Júlíus II, páfi, kvaddi hann til Rómar, og hann skildi verkefnin í Flórens eftir ókláruð.  Páfinn vildi að hann gerði 40 stórar styttur fyrir grafhýsi, því hann vildi ekki vera minni maður en forverar hans, sem höfðu fengið myndhöggvarann Antonio  Pollaiuolo frá Flórens til verka líkt og hertogarnir í Feneyjum og keistari Hins heilaga rómverska ríkis, Maximilian I.  Júlíus II, páfi, var metnaðarfullur og hugmyndaríkur eins og Michelangelo en vegna byggingar Péturskirkjunnar og herferða sinna varð hann áþreifanlegar var við kostnaðinn við verkið.  Michelangelo trúði því, að Bramante, arkitekt Péturskirkjunnar, hefði lagt að páfa að draga úr fjármögnun grafhvelfingarinnar.  Hann yfirgaf Róm en páfinn beitti yfirvöld í Flórens þrýstingi til að senda hann til baka.  Hann hóf gerð risastórrar marmarastyttu af páfa í hinni nýsigruðu borg Bologna (borgarbúar felldu þessa styttu skömmu eftir að þeir hröktu páfaherinn brott).  Síðan var honum valið ódýrara verkefni við að mála loft Sistínsku kapellunnar (1508-12).

Sistínska kapellan hafði mikið táknrænt gildi fyrir páfaríkið sem helgasti staður Vatikansins og vettvangur mestu hátíðarathafna, s.s. val og kostningu nýrra páfa.  Þar voru mikilfenglegar veggmyndir og Michelangelo var beðinn um að bæta loftmyndunum við.  Postularnir voru aðalviðfangsefni þeirra en fram að þeim tíma sýndu loftmyndir aðeins einstakar persónur, ekki dramatískar sviðsmyndir.  Hlutar þessa verks birtast í 12 stórum mannamyndum eftir Michelangelo, sjö postular og fimm völvur eða kvenspámenn úr klassískum þjóðsögum.  Það var óvenjulegt að sjá kvenmyndir í slíkum verkum.  Listamaðurinn kom þessum persónum fyrir á jöðrum loftsins og fyllti millibilið með myndum af sköpuninni.  Þrjár þeirra sýna sköpun jarðar, þrjár skeið úr ævi Adams og Evu og þrjár fjalla um Nóa.  Neðan spámannanna og spákvennanna eru myndir af 40 kynslóðum forfeðra Krists, sem hefjast með Abraham.  Þessu mikla verki lauk Michelangelo á 4 árum með nokkrum hléum á árunum 1510-11, þegar hann fékk engar greiðslur fyrir vinnu sína.

Strax að þessu verki loknu snéri Michelangelo sér að uppáhaldsverkefninu, grafhýsi Júlíusar II, páfa.  Á árunum 1513-15 gerði hann styttuna af Móses, sem var líklega fyrirmyndin að myndunum af postulunum í Sistínsku kapellunni.  Þessi efnismikla stytta felur í sér mikla orku.  Hann lagði meiri áherzlu á smáatriði en í fyrri styttum, þegar hann hafði lært að kalla þau fram án þess að minnka áhrif massans.   Frá sama tíma eru tvær styttur af föngum eða þrælum í fjötrum, sem voru einnig gerðar fyrir grafhýsið en var ekki komið þar fyrir, þar sem þær voru ekki af réttri stærð miðað við nýjár áætlanir.  Michelangelo geymdi þær til gamals aldurs, þar til hann gaf þær fjölskyldu, sem hafði hjúkrað honum í veikindum, og nú prýða þær Louvre-safnið í París.  Þær eru eftirmyndir af mannamyndunum í hvelfingunni í Sistínsku kapellunni, s.s. nöktu verurnar tvær, sem halda blómsveigum yfir hásætum spámannanna.  Fjölbreytni útlits þeirra og svipbrigði mikilla tilfinninga var nýlunda í höggmyndalist endurreisnartímans.  Í fornöld gerðu Hellenar slíkar styttur og Michelangelo kynntist þeim, þegar Laocoön-stytturnar fundust árið 1506.  Gamli maðurinn og synir hans á unglingsaldri höfðu greinileg áhrif á þessar þrjár styttur Michelangelos og skyldar loftmyndir.  Fyrstu loftmyndirnar frá 1508 sýna þessi áhrif ekki.  Michelangelo beitti þeim ekki fyrr en hann var tilbúinn til þess og hann hafði verið á þessari braut fyrir fund Laocoön-styttnanna eins og sjá má í styttu hl. Mateusar frá 1505.

Fjármagn til framhalds byggingar grafhýsis Júlíusar II, páfa, fékkst ekki að honum látnum árið 1513.  Leó X, páfi, sonur Lorenzo mikla, hafði þekkt Michelangelo frá barnæsku.  Hann fól honum einkum verkefni í Flórens til dýrðar Medicifjölskyldunni fremur en fyrir páfastól.  Borgin var undir stjórn frænda Leós, Cardinal de’ Medici, sem síðar varð Klemens VII páfi (1523-34), og Michelangelo starfaði með á páfaferlinum.  Kardinálinn tók virkan þátt í starfi hans.  Hann lagði fram nákvæmar áætlanir en gaf listamanninum samt nægilegt olnbogarúm.  Michelangelo var kominn inn á svið byggingarlistarinnar.  Hann gerði lítið módel af endurbyggðum bústað Medicifjölskyldunnar og stórt af sóknarkirkjunni San Lorenzo.  Hann lagði mikinn metnað í þessi verk.  Ekkert varð úr byggingu kirkjunnar en lítil kapella var byggð í tenglslum við gömlu kirkjuna fyrir grafhýsi Medicifjölskyldunnar.

Medicikapellan.  Aðalástæðan fyrir byggingu þessarar kapellu var óvænt fráfall tveggja, ungra erfingja, Giuliano og Lorenzo, 15l6 og 1519.  Marmarainnrými kapellunnar var aðalverkefni Michelangelos til 1527, bæði frumlegar veggskreytingar og stytturnar á gröfunum, sem má einnig rekja til loftmynda Sistínsku kapellunnar.  Útkomar varð fullkomnasta verk Michelangelos, sem til er.  Hlutföll og þykkt glugga, múrbrúna og þess háttar gefa í skyn einbeitta endurskoðun klassískra hefða í byggingarlist.

Við hliðina á þessum frábæru skreytingum eru hinar tvær frumlegu grafir með bogalaga toppstykkjum.  Ofan á þeim sitja lágmyndir af manni og konu, sem tákna dag og nótt annars vegar og dögun og rökkur hins vegar, að sögn listamannsins sjálfs.  Slíkar tímalíkingar höfðu aldrei verið notaðar á grafir áður.  Tíminn er hinn endalausi Hringur, sem táknar upphaf og endalok alls.

Stytturnar eru meðal þekktustu verka listamannsins.  Dagur og rökkur eru stórar og hafa fremur rólegt yfirbragð í mikilleik sínum, þótt greina megi innri eld í degi.  Báðar kvenstytturnar eru háar og grannar með smáa fætur, sem talið var til fegurðar meðal samtímamanna.  Að öðru leyti mynda þær andstæður.  Dögun er jómfrúarímynd, sem teygist upp eftir boganum eins og hún sé að brjóta sér leið inn í lífið.  Nóttin er sofandi en ímynd hennar gefur í skyn erfiðar draumfarir.

Á þessu árabili hannaði Michelangelo aðra viðbyggingu við þessa sömu kirkju, bókasafn fyrir bækur, sem Leó páfi ánafnaði því.  Bæði í Flórens og annars staðar voru bókasöfn algeng í klaustrum.  Við hönnun þessa bókasafns varð listamaðurinn að taka tillit til bygginganna á staðnum og það var byggt á grunni eldri bygginga.  Lýtið rými á annarri hæð þess var notað sem anddyri.  Þar er stigi upp í stærri rými bókasafnsins á nýrri þriðju hæðinni.  Stigasalurinn (ricetto) hýsir frægustu og frumlegustu veggskreytingar Michelangelos.

Klemens páfi flúði frá Róm, þegar hún var hertekin og rænd 1527.  Flórensbúar gerðu uppreisn gegn Medicifjölskyldunni og komu aftur á lýðræði.  Skömmu síðar settust herir Medici um borgina og sigruðu hana 1530.  Á meðan á umsátrinu stóð hannaði Michelangelo varnarmannvirki.  Þau lýsa skilningi hans á nútímavörnum, sem þurfti að byggja fljótt úr einföldum efnum og gætu staðist árásir herja og stórskotaliðs.  Fallbyssur voru teknar í notkun um miðja 14. öld og gerðu árásarherjum leikinn léttari.  Fyrrum dugðu háreistir kastalar bezt gegn árásum en lægri og þykkari múrar stóðust betur fallbyssuárásir.  Einnig var auðveldara að gera gagnárásir frá slíkum mannvirkjum og oft hefur verið dáðst að teikningum Michelangelos.

Michelangelo hélt vinnu sinni við grafhýsi Medicifjölskyldunnar áfram, þegar hún komst aftur til valda árið 1530.  Líklega tengdist hollusta hans fremur borginni en valdakerfi hennar.  Tvö aðalverk hans frá þessum tíma eru Apollo eða Davíð og Sigurinn.  Lýðræðisleg stjórn borgarinnar kom styttu Davíðs fyrir á ráðhústorginu og gerðu hana að tákni borgarinnar.  Handleggir hennar brotnuðu af í átökunum við Mediceherinn.  Sigurinn sýnir sigurvegarann troða óvininn, gamlan mann, fótum.  Þessi stytta var líklega ætluð grafhýsi Júlíusar páfa, því teikningar af henni voru meðal skjala, sem tilheyrði því verki.  Ungir myndhöggvarar manneristahópsins notuðu hana gjarna sem fyrirmynd.

Michelangelo fór frá Flórens árið 1534 fyrir fullt og allt, þótt hann hefði alltaf borið þá von í brjósti að koma aftur til að sinna óloknum verkum.  Hann dvaldi í Róm þann tíma, sem hann átti ólifaðan, og skapaði þar mikilfengleg verk, sem voru flest á nýjum nótum.  Mörg bréfa hans til fjölskyldu sinnar í Flórens frá þessum tíma eru varðveitt.  Hann nefndi oft áætlanir um hjónaband frænda sins, sem átti að tryggja framhald fjölskyldunafnsins.  Faðir Michelangelos lézt árið 1531 og uppáhaldsbróðir hans um svipað leyti.  Hann lýsti vaxandi áhyggjum sínum af elli kerlingu og óhjákvæmilegum endalokum.  Áhugi hans á ungum karlmönnum kom einnig fram í sumum bréfanna, einkum hinum efnilega aðalsmanni Tommaso Cavalieri, sem tók síðar þátt í borgarmálum Rómar.  Margir lásu samkynhneigð úr þessum orðum en listamaðurinn mótmælti slíku kröftuglega.  Hvað sem því líður, sýndi hann engin merki þess sem ungur maður.  Síðari tíma athuganir, byggðar á frekari gögnum, gefa fremur til kynna, að hann hafi verið að leita sér sonar, sem væri fyrirmynd annarra manna og vildi taka það hlutverk að sér.

Mörg ljóð Michelangelos frá þessum tíma hafa varðveitzt.  Hann hóf ritun stuttra ljóða að hætti áhugamanna um þetta leyti á frumlegan og áhrifamikinn hátt.  Meðal u.þ.b. 300 fullunninna ljóða eru 75 sonnettur og 95 fullgerð ástarljóð, sem voru svipuð að lengd og sonnetturnar en ekki eins formföst.  Þau gefa til kynna, að listamaðurinn hafi verið þeirrar skoðunar, að ástin leiði menn á hinni erfiðu leið til guðdómsins.

Eftir aldarfjórðungs hlé snéri Michelangelo sér aftur að því að mála freskur árið 1534.  Þá málaði hann Dómsdaginn fyrir hinn nýja páfa, Pál III, á endavegg Sistínsku kapellunnar.  Slík verk höfðu verið vinsælt viðfangsefni í ítölskum kirkjum á miðöldum, allt fram til aldamótanna 1500.  Margir álíta, að þetta viðfangsefni hafi orðið vinsælt á ný vegna gagnsiðbótar þessa páfa.  Handbragð þessa verks er ólíkt fyrri slíkum verkum listamannsins.  Samspil litanna er einfalt, brúnir mannslíkamar með dökkbláan himin í bakgrunni.  Verurnar eru ekki eins kraftmiklar og útlínur þeirra ekki eins nákvæmar, meira í ætt við massa án mittis.  Efst í miðju verksins lyftir Kristur hægri armi yfir þá, sem skulu fá sáluhjálp, en vinstri armur liggur niður með síðunni og fordæmir fólkið þeim megin.  Það má líkja þessu verki við vogarskálar, sem vega menn og meta.  Hinir hólpnu stíga hægt upp á himininn en hinir fordæmdu sökkva.  Neðst á vegnum rísa beinagrindur upp úr grafhýsum sínum líkt og miðaldafyrirmyndunum.  Hægra megin ferjar Karon sálirnar yfir ána Styx.  Þetta er heiðin fyrirmynd, sem Dante gerði ásættanlega fyrir krisnina í Guðdómlega gamanleiknum, sem úmbríski listamaðurinn Signorelli málaði síðan.  Michelangelo dáðist að þessum listamanni vegna hæfileika hans til að framkalla dramatískar tilfinningar með nákvæmni í gerð mannslíkamans.

Síðustu áratugirnir.  Á efri árum fékkst Michelangelo minna við höggmyndir, málverk og ljóðagerð en var iðnari við byggingarlist, sem krafðist minni líkamlegrar vinnu.  Hann var eftirsóttur hönnuður mikilfenglegra minnismerkja í Róm, sem áttu að staðfesta stöðu borgarinnar sem miðju heimsins.  Tvö þessara verka, „Capitol-torgið” og hvelfing Péturskirkjunnar eru enn þá meðal helztu kennileita borgarinnar.  Hann lauk hvorugu verkinu en að honum látnum var þeim lokið í anda hans.  „Capitol-hæðin” var miðpunktur hinnar fornu Rómarborgar og var miðstöð borgarstjórnarinnar á 16. öld.  Borgarstjórnin var lítið annað en nafnið eitt í borg, sem páfarnir réðu, en engu að síður var hæðin virðingarstaður.  Michelangelo endurhannaði gamla borgarmúrinn öðrum megin torgsins og hannaði sams konar byggingar beggja vegna við það.  Forhliðar þeirra voru íburðar- og ábúðarmiklar með samhliða, tveggja hæða risasúlum og mun minni, einnar hæðar súlum báðum megin þeirra.  Þessi samsetning framkallar kraftmikið samræmi, sem skyggir þó ekki á byggingarnar á bak við.  Hann hannaði einnig grunnmynd sporöskjulagaðs torgsins í kringum hina fornu styttu af Markúsi Árelíusi keisara.  Vega legu sinnar á hæðinni er torgið ekki ferhyrningur, heldur breiðara ráðhússmegin og mjórra andspænis því, þar sem torgið er opið.  Þar opnast það sjónum þeirra, sem ganga upp langar tröppur, og lögunin skapar sérstaka tilfinningu fyrir rými þess.

Aðalhlutverk hvelfingar Péturskirkjunnar er að vera áberandi kennileiti úr fjarlægð og staðfesting á mikilvægi borgarinnar.  Víða í heiminum er að finna eftiríkingar af henni, s.s. á þinghúsinu í Washington DC og á þinghúsinu í Havana á Kúbu, sem er raunar eftirlíking þinghússins í Washington DC.  Fyrirmynd hennar er hvelfing dómkirkjunnar í Flórens, sem er 100 árum eldri.  Hvelfing Péturskirkjunnar var reist að Michelangelo látnum og mikið hefur verið deilt um að hve miklu leyti hafi verið farið að hugmyndum listamannsins.  Eftirmaður hans lét gera hana oddmjórri en fram kemur á kunnustu teikningum Michelangelos, sem eru e.t.v. ekki lokateikningar hans, því hann breytti hinum ýmsu teikningum oft áður en hann lagði þær fram.

Michelangelo lagði mesta áherzlu á neðri hluta Péturskirkjunnar.  Hann hafnaði tillögum arkitektanna, sem höfðu starfað við hana næst á undan honum og samþykkti einungis tillögur upprunalega arkitektsins, Bramante.  Hann studdist við fyrri teikningar með jafnarma krossi í staðinn fyrir nýlegri og algengari tillögur um latneska krossformið.  Honum líkaði ekki við síendurteknar smáskreytingar í tillögum síðustu arkitektanna, því þær drógu úr stærðaráhrifum kirkjunnar.  Hann breytti innanhússteikningum Bramantes og sameinaði rýmið meira.  Það er umlukið hálfhringlaga vegghlutum á allar fjórar hliðar innan hvelfingarinnar.  Mesta áherzlu lagði hann á bogavegginn bak við altarið, þar sem hann kom fyrir áhrifamiklu samspili risa- og smásúlna, líkt og á „Capitol-hæðinni”.  Í Péturskirkjunni eru þær ekki burðarvirki en eru felldar að bogadregnum útveggjunum.  Þannig fékkst samspil hæðar og breiddar súlnaraðanna.

Umhverfis gólfflötinn undir hvelfingunni lét Michelangelo reisa súlnagöng.  Súlutopparnir eru tengdir hvelfingunni með bitum og á þeim hvílir ekki sérstakt þak, þannig að þær líkjast nokkuð skástoðum gotneskra hvelfinga.  Engu að síður er þetta klassísk útfærsla, sem skapar jafnvægi milli efri og neðri hluta þessa hluta kirkjunnar.

Michelangelo var aðalarkitekt Péturskirkjunnar til dauðadags en sinnti jafnframt fjölda minni verkefna í Róm.  Hann fullhannaði aðalbyggingu Farnesehallarinnar, bústað Páls III, páfa, og fjölskyldu hans.  Veggur efstu hæðar hennar garðmegin var gerður undir hans umsjá.  Hann beitti nýstárlegri hönnun við borgarhliðið Porta Pia og kirkju flórensku sóknarinnar í Róm, sem var þó aldrei lokið samkvæmt teikningum hans.

Síðustu freskurnar, sem hann málaði, eru í Pálskapellunni í Vatikaninu, þar sem almenningi er sjaldan veittur aðgangur.  Þær eru ólíkar fyrri freskum hans, þar sem þær eru lægra á veggjunum og því auðveldara að virða þær fyrir sér.  Rými dýptar þeirra er meira, þær eru dramatískari og meira í anda samtíma listamannsins en fyrri verk hans.  Meðal listamanna, sem Michelangelo kynntist og virti mikils, voru Titian, sem dvaldi í Róm á árunum 1542-50.  Margir þykjast merkja litaáhrif frá honum í freskum Pálskapellunnar.  Ljóðagerð Michelangelos breyttist síðustu æviárin.  Hann orti aðallega trúarlegar sonnettur, sem hvöttu menn til bæna, en lagði minni áherzlu á orðskipan og hugmyndafræði.

Á þessum síðustu æviárum hóf listamaðurinn gerð tveggja styttna af Kristi látnum fyrir sjálfan sig, sem hann lauk ekki.  Hin fyrri og stærri var ætluð grafhýsi hans og hin síðari, sem sýnir hinn syrgjandi Jósef frá Arimateu eða Nikódemus?, er sjalfsmynd (Michelangelo hafði sett sjálfan sig í spor hins iðrandi syndara áður, s.s. í Dómsdagssyrpunni).  Listamaðurinn var ekki ánægður með árangurinn, braut hluta af styttunni og hætti við verkið.  Æviskeið hans er röð af ófullgerðum verkum og hann var sífellt að breyta þeim, þar til hann gafst oft upp.  Honum var vel ljóst, hve ófullkominn hann var, en samt rann honum oft í skap, þegar verkkaupendur mátu verk hans ekki að verðleikum.

Styttur Michelangelos:  Madonnan á tröppunum (1491?; Buonarrottihöllin í Flórens), Orrusta kentáranna (1492?; sama stað), Heilagur Petróníus og Engill (1494-95; S. Domenico í Bologna), Bakkus (1496-97; Bargello í Flórens), Pietá (1499; Péturskirkjan í Vatikaninu), Davíð (1501-04; Akademían í Flórens), Guðsmóðir með barnið (1501-04; Vorfrúarkirkjan í Brugge), Guðsmóðir með barnið og heilagan Jóhannes sem barn (1503; Konunglega akademían í London),  Guðsmóðir með barnið (1503; Bargello), Heilagur Matteus (1505?; Accademia), Móses (1513-15?; gerð fyrir grafhýsi Júlíus II páfa; S. Pietro í Vincoli í Róm), Uppreisnarþrællinn og Deyjandi þrællinn (1513-16; Louvre í París), Kristur upprisinn (eða Kristur með krossinn á herðunum; 1519-20; Santa Maria Sopra Minerva í Róm), fjórar ókláraðar mannamyndir, kallaðar Þrælar eða Fangar (1520?; Accademia).  Grafhýsi Medicifjölskyldunnar (Dögun, Afturelding, Dagur, Nótt, Giuliano af Medici, Lorenzo af Medici og Guðsmóðir; 1520-34; S. Lorenzo í Flórens), Apollo (eða Davíð; 1530; Bargello), Sigur (1532-34?; Gamla höllin í Flórens), Pietá (Kristur tekinn af krossinum; 1550-55; dómkirkjan í Flórens) Rondanini Pietá (1552-64; Sforzensco-kastalinn í Mílanó).

Teikningar:  Aðalsöfn teikninga Michelangelos er að finna í Brezka safninu, Konunglega safninu í Windsor, Ashmole-safninu í Oxford, Casa Buonarrotti í Flórens og Teylers-safninu í Haarlem í Hollandi.

Byggingarlist.  Kapella Leós X (helguð Cosmas og Damian; forhlið frá 1514; í kastala hl. Angelós í Róm),  Bókasafn Lárentíusar (1523-59; S. Lorenzo í Flórens), Farnesehöllin (1547; múrbrúnir forhliðar og veggur efstu hæðar að inngarði í Róm), hvelfing Péturskirkjunnar (hannaður 1557-61; Vatikanið) og borgarhliðið Porta Pia (1561; í Róm).

Málverk.  Hin heilaga fjölskylda (Doni Tondo; 1503-05?; Uffizi-safnið í Flórens), freskurnar í hvelfingu Sistínsku kapellunnar (1508-12; Vatikanið), Dómsdagur (1534-41; í Sistínsku kapellunni), Trúskipti hl. Páls (1542-45; Pálskapellan í Vatikaninu), Krossfesting hl. Péturs (1542-50; í Pálskapellunni í Vatikaninu).

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM