Regina Saskatchewan Kanada,
Flag of Canada


REGINA
KANADA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Regina er höfuð- og stærsta borg fylkisins Saskatchewan í Kanada við Wascanaána í miðsuðurhlutanum.  Þarna var fyrst byggð veiðimanna, sem hét Pile O’Bones vegna hauga af beinum eftir verkun vísunda.  Landkönnuðurinn og höfuðsmaðurinn John Palliser kom á þessar slóðir 1857 og kallaði staðinn Wascana (indíánanafnið Oskana).  Þegar járnbrautin að Kyrrahafinu var lögð um svæðið 1882, fékk staðurinn nafnið Regina eftir Viktoríu drottningu.

Bærinn var stjórnsýslumiðstöð Norðvesturhéraðanna frá 1882 til 1905, þegar hann var gerður að höfuðstað nýstofnaðs héraðs, Saskatchewan.  Louis Riel, leiðtogi Métis uppreisnarmanna, var dæmdur fyrir landráð og hengdur í fangelsisgarði riddaralögreglunnar í Regina 1885.  Riddaralögreglan átti þar höfuðstöðvar 1882-1920 og æfingarskálar og kapella eru nú safn um sögu hennar.  Eftir síðari heimsstyrjöldina stækkaði Regina hratt og varð að mikilvægri samgöngu-, framleiðslu- og dreifingarmiðstöð á stóru landbúnaðarsvæði.

Helztu járnbrautaleiðir, vegasambönd og stór flugvöllur þjóna borginni.  Náttúruauðæfi í nágrenninu, s.s. olía, náttúrulegt gas og pottöskuhreinsun og framleiðsla matvæla eru aðalundirstaða hagsældar.  Saskatchewan Wheat Pool er eitthvert stærsta samvinnufyrirtæki um hveitiverzlun í heiminum.  Í og við borgina eru líka stálverksmiðjur, framleiðsla tækja og tóla til landbúnaðar, samgöngutæki, málning og byggingarvörur.

Miðpunktur borgarinnar er Wascanamiðstöðin, sem er eins og almenningsgarður í kringum manngert vatn úr Wascanaánni.  Þar eru margar mikilvægar oprinberar byggingar, s.s. þinghúsið, náttúrugripasafnið, Norman MacKensie listasafnið, heimili Diefenbaker (forsætisráðhera;  flutt frá Borden 1967) og Reginaháskóli, sem var hluti Saskatchewan háskóla til 1974, þegar hann varð sjálfstæður.  Aðrir háskólar, tengdir honum, eru Campion (1918), Guðfræðiskóli Kanada (1941) og fylkisskóli indíána (1976).  Nokkur verndarsvæði indíána eru í nágrenni borgarinnar (Piapot o.fl.).  Last Mountain Lake resort er 30 km norðavestan hennar.  Íbúafjöldinn 1991 var 179.178 og á Stór-Regina svæðinu 191.692.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM