Antigua Barbuda Karíbahaf meira,
Flag of Antigua and Barbuda

Booking.com


ANTIGUA og BARBUDA
MEIRA

.

.

Utanríkisrnt.

Map of Antigua and Barbuda

Landið.  Strandlengja Antigua er mjög vogskorin og umkringd rifjum og skerjum.  Nokkrar víkur eru nýtilegar sem hafnir, t.d. Enskahöfn og Parham og St. John’s-höfnin er fyrir hafskip.  Heildarfrlatarmál eyjarinnar er 280 km².  Landslagið er að mestu láglent og öldótt en vestast er 405 m hátt eldfjall, Boggy Peak.  Fjall- og skógleysi gerir Antigua ólíka öðrum Hléeyjum.  Þar eru engar ár og fáar lindir, þannig að þurrkar hrjá landsmenn, þótt úrkoman nái 1000 mm á ári.  Meðalhitinn í janúar er 25°C og í ágúst 28°C.  Mestur verður hitinn 32°C á sumrin.

Barbuda hét áður Dulcina.  Hún er 40 km norðan Antigua.  Barbuda er kóraleyja, flatlend og vel skógi vaxin.  Hæst rís eyjan á Lindsay Hill í norðausturhlutanum, 44m.  Eyjan er 161 km² að flatarmáli.  Þar eru engar ár og vötn og úrkoman er þar minni en á Antigua.  Eina þorpið er Codrington við lón á vesturhlutanum.  Loftslagið er svipað og á Antigua.

Redonda er óbyggður klettur, 40 km suðvestan Antigua.  Hún rís snarbrött úr sæ, 305 m há, og er aðeins 1¼ km² að flatarmáli.  Talsverðar birgðir fosfats eru þar í jörðu.


Íbúarnir.  Flestir íbúanna eru af afrískum uppruna og langflestir þeirra búa í St. John’s.  Þeir tala ensku og nálægt 75% þeirra eru mótmælendur, þar af þriðjungur í ensku biskupakirkjunni.  Nokkuð er um móravíutrú (hússítar), meþódista og rómversk-katólska.

Atvinnuhættir.  Landbúnaður var fyrrum aðalburðarstólpi efnahagslífsins en ferðaþjónustan hefur tekið við því hlutverki.  Sykur var aðalútflutningsvaran en nú er framleiðslan lítil.  Barbuda var aldrei undirlögð sykurplantekrum og íbúarnir voru aðallega fiskimenn og sjálfsþurftarbændur.  Mikil fjölgun ferðamanna og uppbygging henni tengd ógnar landskikum smábændanna.  Ávextir og grænmeti (sítrusávextir, mango og eggaldin) eru nú ræktuð á eyjunum.  Iðnaður er lítilvægur og hann felst aðallega í vinnslu landbúnaðarafurða, vefnaði, fatagerð og framleiðslu steinsteypublokka.  Millilandaflugvöllurinn er í grennd við St. John’s.

Landið er þingbundið konungsdæmi, þar sem landstjóri fer með völdin í nafni brezku krúnunnar en þau eru aðeins að nafninu til, því að þarna er ríkisstjórn undir forystu forsætisráðherra og tveggja deilda þing.  Skólaskylda ríkir í landinu.

Sagan.  Kristófer Kólumbus kom til Antigua 1493 og nefndi eyjuna eftir kirkju heilagrar guðsmóður „de la Anigua” í Sevilla á Spáni.  Enskir landnemar settust þar að 1632 og eyjan varð brezk nýlenda.  Frakkar rændu þar og rupluðu árið 1666.  Karíbaindíánar, sem bjuggu á flestum stórum eyjum í Vestur-Indíum, réðust líka á landnemana.  Í fyrstu var ræktað tóbak en síðar á 17. öld varð ræktun sykurreyrs ofan á. 

Barbuda var gerð að nýlendu árið 1678.  Árið 1685 fékk Codrington-fjölskyldan afnot af eyjunni til undaneldis þræla en úr því varð ekki.  Þrælarnir, sem voru fluttir inn, urðu sjálfs sín herrar.

Afnám þrælahaldsins 1834 olli skorti á vinnuafli og jarðskjálfti 1843 og fellibylur 1847 ollu frekari erfiðleikum.  Barbuda varð aftur krúnunýlenda síðla á 19. öld og stjórn eyjarinnar varð smám saman háð Antigua.

Eyjarnar urðu hluti af nýlendunum Breta á Hléeyjum en þær vorus skildar að 1956 og árið 1958 varð Antigua meðlimur í Bandalagi Vestur-Indía.  Þegar þetta bandalag var leyst upp 1962, hélt Antigua uppi viðræðum um önnur bandalög.  Árið 1967 varð Antigua sérstakt samveldisland með eigin stjórn í innanríkismálum en Bretar tóku að sér utanríkismálin og varnir landsins.

Á sjöunda áratugnum var kominn á fót sjálfstæðishreyfing undir forystu forsætisráðherrans George Walter, sem vildi algert sjálfstæði fyrir eyjarnar og andmælti tillögum Breta um sjálfstæði innan eyjabandalags.  Walter tapaði í kosningunum 1976 fyrir Vere Bird, sem var fylgjandi slíku bandalagi.  Árið 1978 lýsti stórn landsins engu að síður yfir að hún óskaði eftir sjálfstæði án bandalagsins.  Barbuda gerði viðræðurnar um sjálfstæðið flóknar, því að eyjarskeggum þar fannst þeir vera eftirbátar í efnahagsmálum og vildu draga sig út úr viðræðunum.  Hinn 1. nóvember 1981 fengu eyjarnar sjálfstæði undir stjórn Vere Bird sem fyrsta forsætisráðherra.  Ríkið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum, Brezka samveldinu og Bandalagi austurkarabískra ríkja.  Bird sigraði með yfirburðum í kosningunum 1984 og 1989.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM