Kúba Camagüey Karíbahaf,
Flag of Cuba


CAMAGÜEY
KÚBA

.

.
Booking.com


Utanríkisrnt.

Camagüey er höfuðborg samnefnds héraðs i 50 m hæð yfir sjó.  Flugsamgöngur við Havana.  Áætlunar- og leigubílar frá Havana og öðrum borgum.

Camagüey er stærsta borgin í innri hluta landsins og miðstöð kvikfjár- og sykurræktar á Camagüey-sléttunni.  Síðan 1960 hefur framþróun orðið ör í borginni, einkum vegna þess, hve mikilvægar samgönguleiðir liggja um hana.  Þar eru nokkur ný iðnfyrirtæki, stór sláturhús, mjólkurbú, sykurverksmiðjur og stórt járnbrautarverkstæði.

Gamli bæjarhlutinn er óreglulegur með fallegum, íberískum húsum en nýi bæjarhlutinn einkennist af framförum á viðskiptalegum og félagslegum sviðum.  Í Camagüey er mikið framboð af alls konar menningarviðburðum.  Borgin var stofnuð undir nafninu Santa María de Puerto Principe 2. febrúar 1515 í grennd við núverandi byggð, Nuevitas, á norðurströndinni.  Henni var valinn staður á bökkum Caonao-árinnar, þar sem indíánar bjuggu líka, þar eð aðstæður til landbúnaðar þóttu ekki efnilegar.  Eftir að indíánarnir gerðu uppreisn gegn Spánverjum árið 1528 var byggðin flutt lengra inn í land.  Síðan varð hún aðalmiðstöð kvikfjár- og sykurræktar á svæðinu.

Fyrsta þrælauppreisnin var gerð 1516. Fljótlega eftir það hófst sjálfstæðisbaráttan gegn Spánverjum.  Þrælar voru rúmlega þriðjungur íbúanna um miðja átjándu öldina.  Sjóræningjar réðust oft á borgina.  Ein hetjanna í sjálfstæðisbaráttunni, Ignacio Agramonte, fæddist í Camagüey.

*Plaza de los Trabajadores er líflegur miðpunktur borgarinnar.  Við það standa Guerrero leikhúsið og La Merced-kirkjan (1880; athyglisverð að innan).

Casa Natal de Ignacio Agramonte.  Við vesturenda aðalgötunnar, Calle Ignacio Agramonte, stendur fæðingarhús sjálfstæðishetjunnar Ignacio.  Þetta er frábært sýnishorn af byggingarlist spænska nýlendutímans.  Í safninu er hægtað skoða alls konar skjöl frá tímum sjálfstæðisbaráttunnar. 

Soledadkirkjan (1775) er skrautleg bygging í barokstíl, einhver sú fegursta á Kúbu.  Andspænis henni er Casa de la Cultura (menningarhúsið).

*Principalleikhúsið (19.öld) er við torgið norðvestanvert.  Það er skrautleg bygging, sem er vel við haldið að utan.  Þungar ljósakrónurnar í göngum þess eru athyglisverðar, þar sem þær speglast í stórum speglum.

Ignacio Agramontesafnið er í gömlum spænskum herskála (19.öld) í grennd við brautarstöðina.  Þar eru náttúrusögulegar minjar, forngripir og skjöl til sýnis.  Einnig er þar safn kúbverskra málverka.

Palacio de Justicia.  Calle Cisneros liggur til suðurs frá torginu að dómshöllinni.  Húsið, sem er frá 19.öld, var fyrst skóli.

Casa de la Amistad (hús vináttunnar; menningarmiðstöð) er skáhallt á móti dómshöllinni.

Agramontegarðurinn.  Calle Independencia liggur til suðurs að garðinum, sem er annar mikilvægasti garður borgarinnar.  Umhverfis hann eru falleg nýlenduhús og í honum miðjum er stytta af Agramonte á hestbaki.

Julio A. Mellabókasafnið er við vestanverðan garðinn.  Þar eru haldnar listsýningar af og til. 

Casa de la Trova (19.öld), fallegt hús í spænskum stíl með óvenjulega stórum inngarði, er við hliðina á bókasafninu.  Í garðinum eru oft settar upp alls konar listsýningar.

La Volantaveitingahúsið er lúxusveitingastaður í uppgerðu fyrirmyndarhúsi frá nýlendutímanum  við austanverðan Agramontegarðinn.

Dómkirkjan er mikil bygging við suðausturhorn garðsins.  Hún var fyrst byggð 1530 en hefur oft  verið endurbyggð.

Casa Jesús Suárez Gayol er aðeins austar við Calle República.  Húsið var heimili byltingamannsins, sem var drepinn í Bólivíu með Che Guevara.  Í þessi húsi er nú hægt að skoða skjölum byltinguna á Kúbu.

San Juan de Diostorgið er aðeins sunnar.  Það er umkringt fallegum nýlenduhúsum, m.a. San Juan de Diosspítalanum, sem var fyrrum sjúkrahús og fátækrahæli.

Carmenkirkjan er við vesturjaðar gamla bæjarins (byggð 1825).

Umhverfi Camagüey
Minas
er lítill bær 60 km norðaustan Camagüey.  Þar eru smíðaðar fiðlur í verksmiðju, sem hóf rekstur 1976.  Hana er hægt að fá að skoða, ef pantaður er tími fyrirfram.

Nuevitas er strandbær tæplega 100 km norðaustan Camagüey.  Síðan á sjötta áratugnum hefur hann orðið að mikilvægum iðnaðarbæ (sements- og áburðarverksmiðjur og jarðhitavirkjun).  Í borgarsafninu getur að líta minjar um sögu borgarinnar og héraðsins umhverfis.

*Cayo Sabinal er 20 km langt svæði norðan Nuevitas.  Sandströndin, lónin með fjölbreyttu fuglalífi og ósnortið merskilandið eru meðal vinsælustu orlofsstaða Kúbu.  Nýverið var byggð þar lúxusaðstaða fyrir ferðamenn.

*Playa Santa Lucia er stórkostleg, 17 km löng baðströnd tæplega 100 km norðaustan Camegüey.  Hún liggur í skjóli stórs kóralrifs.  Þar eru nokkur hótel, sem erlendir gestir sækja í auknum mæli.  Köfunarstaðir eru merktir meðfram kóralrifjunum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM