Kúba Matanas Karíbahaf,
Flag of Cuba


MATANZAS
KÚBA

.

.
Booking.com


Utanríkisrnt.

Matanzas er höfuðborg samnefnds héraðs við skjólsælan fjörð á norðurströndinni milli Rio Gumuri og Rio San Juan.  Hún er í 3 m hæð yfir sjó og þar búa u.þ.b. 100.000 manns.  Þangað er bezt að komast með áætlunarbílum eða leigubílum frá Varadero og Havana.
Margar brýr eru í borginni, sem er ein hinna mest hrífandi í landinu.  Náttúruhöfnin og frjósamt landið umhverfis ollu tiltölulega hraðri iðnaðaruppbyggingu.

Skipulag borgarinnar minnir helzt á skákborð og fjöldi nýlenduhúsa ljær henni vinalegan blæ.  Þar eru einnig margar menningarbyggingar fyrir héraðið í heild.  Gott vegasamband á hlut í að gera iðnað á svæðinu arðbæran (m.a. olíuiðnaður).

Nafnið Matanzas er allóvenjulegt.  Það þýðir í rauninni svínasaltkjöt og tengist e.t.v. saltkjötsframleiðslu áður fyrr eða hryllilegri útrýmingarherferð gegn indíánum í upphafi 16. aldar.  Borgin sjálf var stofnuð í lok 17.aldar.  Umhverfis hana var ræktað tóbak og kaffi og síðar einnig sykurreyr, sem varð að mikilvægustu nytjaplöntu héraðsins og gerði borgina að þýðingamikilli sykurútflutningshöfn.  Þrælar gerðu oft uppreisnir en þrátt fyrir þær blómstruðu menning og listir á 19.öld svo mjög að, borgin var kölluð hin kúbverska Aþena um tíma.

Skoðunarverðir staðir
*Libertadtorgið er miðpunktur menningarlífsins í borginni.  Umhverfis hann standa ýmsar byggingar, sem eru athyglisverðar fyrir byggingarstíl.

Casa de Cultura (menningarhúsið), sem hét „Sala White” eða stundum Lyzeum Club fyrir byltinguna, stendur við Calle Byrne.

Gener & Delmontebókasafnið var áður Casino Club en er nú eitt hið elzta sinnar tegundar á Kúbu.  Það var stofnað árið 1835.

Poder Popular, sem nú er stjórnsýsluhús, var áður ráðhús.  Þar eru falleg hlið úr smíðajárni og hurðir úr mahóní, sem fegra þessari skrautlegu byggingu enn meir.  Ekki er úr vegi að heimsækja listasafn þess.

Sögusafnið (Museo de la Historia; í grennd við Poder Popular) hýsir fjölda sögulegra minja, s.s. handrit ýmissa ritöfunda og sérstakt safn dagatala með þjóðlegum skreytingum og málsháttum, sem Cromos gerði fyrir vindlaframleiðendur til að leggja í vindlakassana.

*Apótekssafnið (Museo Farmacia) við Avenida Milanes er mjög athyglisverð eftirlíking af lyfjabúð frá 19.öld.

La Vina er verzlunarhús frá 19.öld við hliðina á apótekssafninu.

Dómkirkjan í Milanesgarðinum var byggð á 17.öld en breytt á 19.öld.  Loft- og veggmyndirnar inni í kirkjunni eru áhrifaríkar.

*Sautoleikhúsið við Vigíatorg er skrautleg bygging.  Þar eru sæti fyrir 750 áhorfendur.  Kunnugir telja það merkustu nýklassísku byggingu Kúbu.

Palacio Junco er gamalt og virðulegt hús við höfnina.  Þar er menningarsafn.
*Castillo de San Severino (17.öld) er norðan miðbæjarins.  Þetta virki var fyrsta byggingin í Matanzasborg.

Montserratkirkjan, sem var byggð eftir frægri, spænskri fyrirmynd, gnæfir yfir borginni uppi á fjalli, þar sem útsýni er gott.

*Cuevas de Bellamar (Bellamar-hellirinn) er 3 km vestan borgarinnar.  Hann fannst fyrir tilviljun á 19.öld.  Verkamaður á óðali þar hjó með haka í gegnum þak hans og var sendur niður til að sækja verkfærið. Margar sögur og sagnir eru tengdar honum.  Hellirinn er 2½ km langur og um hann rennur lækur.  Dropasteinarnir taka á sig hinar furðulegustu myndir og fela í sér svör við ýmsum spurningum um jarð- og landmótunarsögu norðurstrandarinnar.  Þar er einnig að sjá steinrunnar sjávarskeljar og fallega kalkkristalla. 

Ferð frá Varaderoströndinni þangað með viðkomu á Liberdadtorginu og kjöt- og grænmetismarkaðnum tekur alls u.þ.b. 4 klst.

El Abra er stór ferðamannastaður 30 km norðvestan Matanzas.  Hann er einkum ætlaður yngri kynslóðinni.  Uppi af ströndinni eru skjólgóðir, grónir hólar en úti fyrir kóralrif.  Þarna er siglt, kafað, synt, farið í útreiðartúra eða bara legið í leti.  Skemmtanalífið er ekki skilið útundan.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM