Kúba Varadero Karíbahaf,
Flag of Cuba


VARADERO
KÚBA

.

.
Booking.com


Utanríkisrnt.

Varadero er í Matanzashéraði á norðurströndinni í 0-5 m hæð yfir sjó.  Íbúafjöldinn er 20.000.  Þangað koma leiguflugvélar frá Frankfurt/Main, Berlin-Schönefeld, París, Madrid og Íslandi (13. og 19. nóv. 1996, 10. og 16. nóv. 1997 og 7. og 16. nóv. 1998 með Atlanta).  Ferð með rútu frá Havanna tekur 2 klst.  Ferð frá flugvellinum í grennd við Varadero tekur u.þ.b. 30 - 40 mín.

Baðstaðurinn Varadero á Hiacacosskaganum norðan Cárdenas á norðurströndinni er hinn stærsti og vinsælasti á Kúbu.  Tæpast er til sú ferðaáætlun, sem gerir ekki ráð fyrir a.m.k. nokkurra daga dvöl þar.  Endalausar, hvítar strendurnar og kristaltær sjórinn eru gimsteinn kúbversku ferðaþjónustunnar. Erlendir fjárfestar hafa aðallega staðið undir uppbyggingunni og þar hefur verið byggt á allan þann hátt, sem hægt er með steinsteypu.  Á milli hinna nýju glerhalla eru veðraðir kofar, sem ljá bænum gamaldags og tötralegan blæ.  Á daginn rjúfa rútuflautur og tveggja strokka vélahljóð þögnina.  Einnig má heyra vændiskonurnar (jiniteras) hrópa: „Mira!  Mira!” („Sjáðu! sjáðu!”).  Á  kvöldin skarta flestir sínu fínasta pússi og fara út að leita að fjöri. 

Fyrir nokkrum áratugum var Varadero dvalarstaður forrríkra Bandaríkjamanna en eftir byltinguna var aðstaðan opnuð almenningi og er orðinn vinsælasti orlofsstaður landsins.  Þar er fjöldi hótela og veitingahúsa, alls konar íþróttaaðstaða og skemmtistaðir auk áhugaverðra skoðunarferða á sjó og landi.  Gætt hefur verið fyllsta hófs í skipulagningu svæðisins með tilliti til náttúrunnar, til þess að það mæti ekki sömu örlögum og margir aðrir baðstaðir.

Sagan.  Furuvaxinn Hicacosskaginn var byggður indíánum fyrir tíma landafundanna og Spánverjar gáfu honum ekki mikinn gaum.  Þar var stunduð viðarkola- og saltvinnsla um langan aldur.  Fyrst í lok 19.aldar fóru efnaðir íbúar Cárdenas að reisa sumarbústaði þar, því að skaginn var í hæfilegri fjarlægð frá borginni.  Árið 1910 hóf hótel Varadero starfsemi.  Bandarísku iðnjöfrarnir, Du Pont, keyptu gríðarmikið land árið 1930 og byggðu sumardvalarstað.  Fleiri ríkir Bandaríkjamenn komu í kjölfarið, þannig að strandlengjan var í fárra eigu og byggðist ekki óreglulega eins og víða annars staðar.  Seint á sjötta áratugnum vaknaði áhugi hóteleigenda og lóðabraskara í Miami en áætlanir þeirra gengu þvert á hugmyndir byltingarmannanna.  17. marz 1959 tók ríkið allt land og húsnæði meðfram ströndinni eignarnámi og breytti höllum og einbýlishúsum í hótel.  Fontainebleau hótelkeðjan í Miami var byrjuð að byggja, þegar þetta gerðist, og skammt er síðan kúbverska stjórnin lauk við verkið og tók hótelið í notkun.

Varadero varð vinsæll og líflegur baðstaður, þótt engir bandarískir ferðamenn kæmu þangað. Þjóðverjar, Kanadamenn, Frakkar og Ítalar eru þar tíðir gestir auk „Austantjaldsbúa”, sem eru orðnir fátíðari gestir en fyrir hrun Sovétríkjanna.  Íslendingar hafa bætzt í hóp þeirra, sem sækja til þessa yndislega staðar síðan 1996.

*Varaderoströndin er rúmlega 20 km löng, girt furutrjám og ein fegursta baðströnd Karíbasvæðisins.  Margar fagrar byggingar, reistar fyrir byltinguna, prýða staðinn og gefa hugmynd um hóglífið, sem tíðkaðist á meðan bandaríski peningaaðallinn réði lögum og lofum.

**Las Américas, fyrrum óðal Du Pont fjölskyldunnar, tekur öllu fram.  Þar var einkaflugvöllur, 18 holu golfvöllur og einkahöfn fyrir snekkjur.  Í fyrrum bókasafni hallarinnar er nú góður veitingastaður.  Skemmdist í fellibyl 1996 og viðgerðir stóðu yfir það ár.  Óðalið er nú aðalmiðstöð golfvallar svæðisins.

Josone Park.  Skemmtilegt útivistarsvæði og nokkur veitingahús.

Avenida Las Américas er aðalgatan með fjölda hótela, veitingastaða og verzlana.

Fornminjasafnið (Museo Arqueológico) var opnað fyrir nokkrum árum. Þar eru einkum minjar frá dögum frumbyggjanna.

Varaderoleikhúsið við Calle 42/Calle 43 er vinsælt.

Galeria de Exposición á horni Avenida 1 og Calle 46 er stór aðstaða fyrir listsýningar.

Avenida 1.  Við þessa götu eru margir fallegir sumarbústaðir frá lokum 19. aldar.  Flestir þeirra eru úr timbri.

Útileikhúsið (Amfiteatro) á horni Via Blanca og Autopista del Sud býður oft upp á leiksýningar og ballett.  Þar eru líka oft haldnir stjórnmálafundir.

Umhverfi Varadero: Ferðaskrifstofa ríkisins, Cubatur, hefur margs konar skoðunarferðir á boðstólnum, m.a. til Havanna, Matanzas, Bellamar-hellanna og Trinidad.  Þá er líka hægt að fara og skoða sykurekrur á uppskerutímanum og taka þátt í vinnunni og vindlaframleiðsluna.

*Sabana-eyjar (Archipiélago de Sabana), umkrindar kóralrifjum, eru norðaustan Hiacacosskagans.  Vesturhluti þeirra er mjög vinsæll meðal sportsiglara, kafara, og sportveiðimanna.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM