Karíbahaf Tobago,
Flag of Trinidad and Tobago

Booking.com


TOBAGO
TRINIDAD og TOBAGO

.

.

Utanríkisrnt.

Map of Trinidad and Tobago

Tobago er ein Antilleyja (Áveðurseyja).  Flatarmálið er 301 km² og íbúafjöldinn er 40.000.  Höfuð-staðurinn er Scarborough.  Flugsamgöngur um Piarcoflugvöll á Trinidad eða La Guaira í Caracas.  Skemmtiferðaskip koma gjarnan við.

Tobago er minni eyjan í eyríkinu Trinidad og Tobago.  Hún liggur u.þ.b. 35 km na Trinidad.  Um hana liggur frá sv. til na. fjallshryggur, Main Ridge, sem er úr myndbreyttu bergi og gosefnum.  Hæsti hluti hans er 576 m yfir sjó.

Tobago er allfrábrugðin Trinidad.  Ástæðan er einkum sú, að landbrúin milli Trinidad og Tobago rofnaði allmiklu fyrr en tengslin á milli Trinidad og meginlandsins rofnuðu.  Það er miklu meira líf á Trinidad en á hinni 40 km löngu og 12 km breiðu Tobago, sem þó er gróðri þakin og eins mikið nýtt til landbúnaðar og kostur er.  Íbúarnir, sem eru flestir af afrísku bergi brotnir, lifa mest af plantekrubúskap (kókoshnetur, kakó) og fiskveiðum.  Ferðaþjónustan er veigamikil atvinnu-grein, því að til eyjarinnar sækja bæði dvalargestir og fólk í skoðunarferðum frá Port-of-Spain.  Íbúar Tobago telja fulla vissu fyrir því, að Daniel Defoe hafi látið sögu sína um Robison Crusoe gerast á eyjunni sinni, þótt Chilebúar segi með réttu að hinn sanni  skipbrotsmaður hafi dvalið á kyrrahafseyjunni  Juan Fernández.  Daniel Defoe (1660-1731) flutti sögusvið sögunnar um skozka hásetann Alexander Selkirk til Tobago, þar sem honum fannst það henta sér bezt.  Robinsonhellirinn á norðvesturströndinni er skozka hásetanum með öllu óviðkomandi.

Sagan.  Á forkólumbískum tíma var eyjan setin arawökum, sem bjuggu í mörgum þorpum.  Þegar Kólumbus sigldi suður til Trinidad frá Grenada árið 1498, hefði hann að átt að sjá Tobago, en þess er hvergi getið í leiðarbókum hans.  Landnemar, sem komu þangað síðar, skírðu eyjuna Tabago eftir Y-löguðum reykjarpípum frumbyggjanna.  Á 17.öld fluttu hollenzkir landnemar með sér sykurreyrinn, sem færði plantekrueigendunum mikinn auð á 18. öld.

Eftir mörg eigendaskipti og margar árásir sjóræningja komst Tobago endanlega undir yfirráð Breta árið 1803, þótt friðarsamningarnir í Amiens (1802) ánöfnuðu Frökkum eyjuna.  Sykurframleiðslan hrundi eins og annars staðar á Karíbasvæðinu og menn snéru sér að trjárækt.  Árið 1889 voru nýlendurnar Trinidad og Tobago sameinaðar og árið 1962 fengu þær báðar sjálfstæði.

Skoðunarverðir staðir
*Scarborough er höfuðstaðurinn og mikilvægasta höfn eyjarinnar (17.000 íb.)  Yfir hann gnæfir King Georgevirkið (19.öld), þaðan sem er gott útsýni yfir Steinaströnd (Rocky Beach), suðurströndina og alla leið til Trinidad.  Norðvestan bæjarins er Williamvirkið, sem er bústaður forseta Trinidad og Tobago.  Kurland minnismerkið er lengra í norðvestur á góðum útsýnisstað.  Það er til minningar um komu landnema frá Kúrlandi á 17.öld.  Það er gaman að fara alla leið að vesturodda eyjarinnar, Pigeon Point, og Store Bay, þar sem eru beztu baðstrendur eyjarinnar.
**Buccoorifið er 2 km norðan Pigeon Point (Dúfnahöfða).  Það er stórkostlegur staður fyrir kafara og farþega í glerbotnabátum.  Brottfarir báta frá Dúfnahöfða, Buccoohöfða og Store Bay.

*Mount Irvine golfvöllurinn er norðaustan Buccoo.  John Harris gerði þennan heimsfræga völl.

St. George-fjall og Grænuhlíðarfossar.  Ferð meðfram suðausturströndinni til norðurhluta eyjarinnar er sérstaklega áhugavekjandi og fögur.  Farið er eftir strandveginum að St. Georgefjalli, þar sem hliðarvegur liggur inn á eyjuna að fossunum.

King's Bay, Speyside, Charlotteville, Pigeon Peak, Man-O'-War Bay.  Sé ekið um Roxborough og Delaford við King's Bay er komið til Speyside, fallegs lítils fiskimannaþorps.  Handan þess liggur vegurinn inn í land og til fiskimannaþorpsins Charlotteville á norðurströndinni.  Yfir því gnæfir Pigeon Peak (576 m).  Einhver besta náttúruhöfn Karíbahafsins, Man-O'-War Bay, liggur líka í skjóli fjallsins.

*Litla-Tobago liggur skammt undan Speyside, þaðan sem farið er á bátum til eyjarinnar.  Hún er eini staðurinn utan Nýju-Gíneu, þar sem paradísarfuglar lifa villtir.  Sir William Ingram flutti þessa fuglategund með sér þaðan til Litlu-Tobago árið 1909 og sleppti þeim. Á fuglaverndarsvæðinu á eyjunni lifa líka aðrar hitabeltistegundir.  Bezt er að skoða fuglana snemma morguns eða síðla síðdegis. 

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM