Karíbahaf Trinidad Port of Spain,
Flag of Trinidad and Tobago

Booking.com


PORT of SPAIN
TRINIDAD og TOBAGO

.

.

Utanríkisrnt.

Red HousePort-of-Spain er við Pariaflóa á norðvesturhluta Trinidad.  Íbúafjöldinn er 300.000.  Hún er höfuðborg eyríkisins Trinidad og Tobago.  Hún teygir sig meðfram ströndinni og er umkringd hæðóttu landslagi en sunnan þess er mýrlendi árósa Caroni.  Íbúarnir eru deigla margra tuga þjóðerna.

Skoðunarverðir staðir
Bezt er að skoða borgina fótgangandi.  Aðalverzlunarhverfið er skammt austan hafnarsvæðisins við Woodford Square en við austurhlið þess liggur Frederick Street í norður og suðuráttir. Þar er að finna verzlanir og basari.

*Rauða húsið er núverandi þinghús landsins. Það er við vestanvert torgið og er nýuppgert.  Árið 1906 var það endurbyggt eftir bruna í sínum upprunalega endurreisnarstíl.  Bak við það er aðalstöð lögreglunnar.  Það hús var reist árið 1877 en brann 1881 og var endurreist 1884 í gotneskumstíl.  Norðvestan við þinghúsið er dómhúsið í viktoríönskum stíl.

*Kirkja heilagrar þrenningar (anglikönsk) er við sunnanvert torgið.  Hún var byggð á árunum 1816-1826 í nýgotneskum stíl.  Altarið og tréskurður í kórnum er athyglisverður.

Drottningargata (Queen Street) er verzlunargata á bak við kirkjuna.  Við austurenda hennar er aðalmoska Trinidad, Jama Masjid, með grönnum turnum (minarettum).

Sjálfstæðistorgið (Independence Square) er langt og mjótt torg sunnan kirkjunnar og austantil á því er *rómversk-katólska dómkirkjan (Immaculata Conception) í nýgotneskum stíl.  Hún var reist á árunum milli 1815 og 1832.  Sitt hvorum megin við aðalinnganginn eru sérkennilegir þriggja hæða turnar.

San Andres-virkið var byggt til varnar höfninni árið 1785.  Nú eru þar ýmsar opinberar stofnanir, þ.á.m. umferðarlögreglan.  Virkið komst á spjöld sögunnar, þegar spænski stjörnufræðingurinn Don Cosma Damián de Churruca reiknaði það út fyrsta lengdarbaug Vesturheims árið 1792.

Þjóðminjasafnið og listasafnið eru nyrzt við Frederick Street.  Í þjóðminjasafninu er að finna muni, sem skýra sögu landsins og höfuðborgarinnar.  Þar eru líka verk eftir innfædda listamenn og verðlaunabúningar frá kjötkveðjuhátíðum.  Utan dyra er akkeri, sem sagt er að Kólumbus  hafi týnt fyrir ströndum Trinidad.

Queen's Park Savannah er stór garður við enda Frederick Street með fjölda íþróttamannvirkja og veðhlaupabraut.  Fyrrum var þar sykurplantekra, sem eigendur gáfu borginni í þessum tilgangi.  Við norðurjaðar garðsins er grasagarður borgarinnar, þar sem er að finna fjölskrúðugan gróður Trinidad og við hliðina á honum er lítill dýragarður.

Stollmeyer Castle
er garður, sem er umkringdur byggingum af alls konar byggingarstílum.  Við Maraval Road er Stollmeyer-kastalinn í stíl Rínarkastala.  Við hliðina á honum er White Hall í márískum stíl og þar býr forsætisráðherra landsins.

*George-virkið stendur norðvestan borgarinnar.  Það var byggt árið 1804 uppi á 500 m háu fjalli.  Þaðan er geysigott útsýni og í góðu skyggni er hægt að sjá fjallgarða í Venezuela.  Virkið    var notað til merkjasendinga þangað til símskeyti komu til sögunnar.

Umhverfi Port-of-Spain
St. Joseph er bær 12 km austan Port-of-Spain.  Þangað liggur aðalvegurinn til austurs og þar er falleg moska, Jinnah Masjid.  Uppi á nálægu fjalli gnæfir Mount Benedict-klaustrið, þaðan, sem er gott útsýni.

Diego Martin-dalurinn og  *Bláa lónið.  Norðvestan Port-of-Spain er hinn fagri Diego Martin-dalur og innst í honum er Bláa lónið, sem í fellur fallegur foss.  Þar er upplagt að baða sig og gott er að vera í góðum skóbúnaði til að komast að því.

Maraval-dalur og Santa Cruz-dalur.  Fallegt er að aka um þessa tvo dali, sem eru norðan höfuð-borgarinnar.  Þá er ekið um Saddle Road norður úr borginni og um Eastern Main Road til baka.

Norðurstrandarvegur, Northern Range og *Maracas-strönd.  Lengri en mjög skemmtileg ferð liggur meðfram norðutströndinni og gegnum Norðurfjallagarðinn til Maracasstrandarinnar, sem er hin fegursta á eyjunni.

Las Cuevas Bay og Blanchisseuse.  Bugðóttur strandvegurinn býður upp á fjölmarga, fallega útsýnisstaði og liggur víða allhátt yfir sjávarmáli að Las Cuevas Bay og lengra að Blanchisseuse við samnefnda vík (baðströnd).

*Asa Wright Nature Centre, Spring Hill Centre.  Þangað er haldið eftir Arima Blanchisseusevegi inn í land.  Þetta er fyrrum plantekra í Norðurfjöllum og núna fuglaverndarsvæði.  Einkum er áhugavert að kynnast varpstöðum Guacharofuglanna í hellinum Dunston Cave.  Bezt er að hafa góð regnföt, góða skó og skordýraáburð við hendina, ef ferðast er þangað á regn tímanum.

Piarcoflugvöllur.  Vegurinn liggur áfram til Arima, þar sem komið er á Eastern Mainveginn, sem þarf að aka til vesturs.  Við Arouca er Piarcoflugvöllurinn og við Tunapuna byrjar þéttbýli Port-of-Spain.

Hringferð um Trinidad (280 km).

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM