Tíbet meira Kína,
Flag of China


TÍBET MEIRA
KÍNA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Ferðamenn, sem vilja heimsækja Tíbet, þurfa að vera heilsuhraustir (eðlilegur blóðþrýstingur, engir öndunarerfiðleikar eða hjartasjúkdómar; þetta á líka við Nepal).  Flestir, ekki sízt þeir, sem koma frá láglendissvæðum, verða varir við súrefnisskortinn í þessari miklu hæð yfir sjó.

Afla þarf sérstakra ferðaleyfa til Tíbet.  Hópferðir eru langalgengastar þangað.  Vegabréfsáritanir fást ekki, nema viðkomandi framvísi jafnframt tryggu læknisvottorði um heilsufar eða gangi undir læknisskoðun á staðnum.

Það er nauðsynlegt að hafa vasaljós við hendina, þegar klaustur og hof eru skoðuð, því að þau eru ekki upplýst að innan.  Innan dyra eru víða frábær veggmálverk og oftast má taka þar myndir gegn vægu gjaldi.  Myndataka úti undir beru lofti er óhindruð, nema þar sem hernaðar- eða mikilvæg samgöngumannvirki eru í nánd.  Það gleður hjarta Tíbeta, þegar gestir taka myndir af þeim og gefa þeim eintak.

Tíbetar eru langflestir fátækir og óheimtufrekir.  Þeir falbjóða gjarnan persónulega- eða helgimuni.  Hafa verður í huga, ef eitthvað er keypt, að landamæraverðir kynnu að leggja hald á hluti, sem þeir telja að ekki megi flytja úr landi.

Lhasa (Borg guðanna; kínv. Lasa; 3650m) er höfuðborg Tíbets.  Flestir hinna 180.000 íbúa eru kínverjar.  Borgin er í Transhimalajadal við Lhasaána (Lasa He; Kyichu), sem rennur til Tsangpo (Efri-Brahmaputra) 50 km suðvestar.  Borgin er trúarmiðstöð viðskipta- og menningarmiðstöð landsins.  Aðalflugvöllurinn er 120 km utan borgar.  Tíbetskur háskóli var stofnaður í Lhasa árið 1985.

Yfir borgina gnæfir **Potala-hofkastalinn, sem var fyrrum vetrarbústaður Dalai Lama.  Hofkastalinn nær yfir 130.000 m².  Hann er allt að 70 m hár með 13 hæðum og  rúmlega 350 m langur.  Hann var byggður á grunni 'Kastala eilífs lífs' (7.öld) á 17. öld úr timbri og steini.  Þangað kemst fólk upp 120 tröppur eða eftir vegi.  Í miðjunni er Rauða höllin með fyrrum vistarverum Dalai Lama (nú safn).  Í Hvítu höllinni, báðum megin hinnar Rauðu eru opinberar skrifstofur og híbýli embættismanna og munka.  Í Potala eru u.þ.b. 1000 herbergi, fjöldi bókasafna, margar kapellur, ölturu, líkneskja og frábærar veggmyndir auk 8 gylltar stúpur, skreyttar eðalsteinum.

Í hjarta hins miðaldalega, gamla bæjarhluta er *Jokhanghofið, helgasta Lamahof Tíbeta..  Það var reist á 7. öld og hýsir fjölda dýrgripa, þ.á.m. styttu hins hvíta Buddha, Shakjamuni, gjöf frá kínversku Tangprinsessunni Wen Cheng frá árinu 541 (líklega endurnýjuð síðar) eftir að hún giftist Sonstan Gampo konungi, og gimsteinaskreytt stytta hins mikla Dshowo.  Margir hópar frómra pílagríma ganga um klausturkastalann dag hvern.

Þegar gamli bæjarhlutinn er skoðaður nánar, finnast mörg íbúðarhús með ferningslöguðum inngörðum.

Við vesturjaðar borgainnar er lítt áberandi sumardvalarstaður Dalai Lama, Norbulingka (Luobulinka = Fjársjóðsgarður) í grænum görðum.  Hann var reistur á 17./18. öld en núverandi hús eru frá sjötta áratug 20. aldar.

Opinberir skipuleggjendur skoðunarferða innifela alltaf heimsóknir í iðnfyrirtæki og landbúnaðarsamfélög.

Lamaklaustrin í grennd við Lhasa eru mjög áhugaverð.

Sera-klaustrið, sem var stofnað árið 1419, er 5 km norðan borgarinnar.  Þar bjuggu eitt sinn rúmlega 6000 munkar og skóli þess naut mikillar virðingar.  Búddalíkneskin og mjúkir litir freskanna eru augnakonfekt (fyrirhuguð endurnýjun).

*Drepang-klaustrið (Drepung, Zhebang; 15.öld), 10 km nv Lhasa var bústaður allt að 10.000 lamamunka.  Það stendur á háum klettarana og er dæmigert, tíbetskt helgisetur.  Sútrasalurinn var endurnýjaður fyrir skömmu og hann prýða geysifallegar freskur.  Í öðrum sölum eru fagrar styttur, m.a. gyllt Buddhalíkneski.  Í bókasafninu er fjöldi gamalla sútrarita, handrita og bóka.  Prentsmiðja klaustursins gaf út verk Dalai Lama.  Klaustrið var valdamiðstöð gulhettumunkanna og helzta virki tíbetsku andspyrnuhreyfingarinnar í uppreisninni árið 1959.  Nú búa og starfa mörg hundruð munkar í klaustrinu.

Ganden-klaustrið (1409; 4000 m.y.s.) er hið stærsta og þekktasta sinnar tegundar í grennd Lhasa.  Það var lagt í rúst í kínversku menningarbyltingunni en enn þá er verið að byggja það upp á ný.

Shigatse (Xigatse, Rikaze; 3800 m.y.s.) er önnur stærsta borg í Tíbet.  Vegalengdin milli hennar og Lhasa er u.þ.b. 300 km.  Í grennd hennar er *Tashilunpo-klaustrið (Zashilunbu; 15.öld).  Það er bústaður gulhettumunk-anna og setur Pantshen Lama (Penachen Rinpoche = Lærdómsgimsteinsins mikla), sem stendur Dalai Lama næstur að virðingu í tíbetskri guðfræði.  Klaustrið var nýlega endurnýjað og á fjölda minja, freskna og styttna.

Gyangtse (Jiangzi) er lítil borg 80 km suðaustan Shigatse (160 km loftlínu sv Lhasa).  Í henni er klausturhverfi, sem var stofnað á 14. öld.  Þar er einstakt *Skríni (Tshörten, Chorten) frá 15. öld.

Ferðir til Tíbet hafa að mestu farið um Kína.  Nú er hægt að komast þangað frá Nepal (og til baka).  Þá verður að fara yfir Himalajafjöllin um skörðin vestan **Mount Everest (Chomolungma á tíbetsku), hæsta fjalls heims (8848m).  Fjallamenn hafa fengið takmarkaðan aðgang að Himalajafjöllum að norðanverðu.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM