Bogotá Kólumbía,
Flag of Colombia


BOGOTÁ
KÓLUMBÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Bogotá DC (Distrito Capital) er höfuðborg Kólumbíu.  Hún er í landinu miðju í frjósamri lægð á hásléttunni í 2640 m hæð yfir sjó í Cordillera Oriental í norðanverðum Andesfjöllum.  Borgin er á hallandi sléttu milli fjallanna Gadalupe og Monserrate, þar sem tróna tvær áberandi kirkjur.  Borgarskipulagið byggist á ferhyrningsplani með fjölda torga (Plaza Bolívar), þar sem standa aðalbyggingar og kirkjur borgarinnar.  Víða standa nútímaháhýsi við hlið húsa frá nýlendutímanum.

Evrópskt landnám í Bogotá hófst 1538, þegar Gonzalo Jiménez de Quesada sigraði Bacatá, aðalaðsetur Chibcha-indíána.  Landnemabyggðin var kölluð Santa Fé de Bacatá.  Fyrri hluti nafnsins er dregin af fæðingarstað Quesada á Spáni og síðari hlutinn úr máli indíána en hann afbakaðist fljótlega í Bogotá.  Framtíð bæjarins réðist af þróun varakonungsdæmisins Nýja Granada en hann varð höfuðborg þess og varð brátt aðalmiðstöð nýlendustjórnar Spánverja í Suður-Ameríku.  Íbúar Bogotá gerðu árangursríka uppreisn gegn spænskum yfirráðum 1810-11 en urðu að berjast við konungssinna til 1819, þegar Símon Bolívar náði borginni á sitt vald.  Þegar sjálfstæði var fengið, var borgin gerð að höfuðborg ríkjasambandsins Gran Kólumbíu 1821.  Í þessu ríkjasambandi voru Venesúela, Ekvador, Panama og Kólumbía.  Sambandið var leyst upp 1830 en Bogotá varð áfram höfuðborg Nýju-Kólumbíu, sem varð síðar að Lýðveldinu Kólumbíu. 

Blóðug, pólitísk átök og landfræðileg einangrun drógu úr vexti og viðgangi Bogotá 19. öldinni.  Í apríl 1948 voru unnar miklar skemmdir á henni í uppþotum og bylgja ofbeldis (bogotazo) reið yfir héraðið.  Ólga kraumaði undir niðri í borginni fram til 1958, þegar flokkar frjálslyndra og íhaldsmanna náðu samkomulagi.

Bogotá er miðstöð framleiðslu hjólbarða, efnavöru og lyfja í landinu en einkum er hún verzlunarborg.  Kauphöllin var opnuð 1928 og aðalbankastarfsemi landsins fer fram í borginni.  Borgin er líka aðalmiðstöð samgangna í lofti og aðalaðsetur Avianca (Aerovías Nacionales de Colombia), fyrsta flugfélags Suður-Ameríku.  Hún er líka veigamikil miðstöð járnbrautanna og er tengd strönd Karíbahafsins og Kyrrahafsins (Puerto Berrío).  Þjóðvegirnir Pan-American og Símon Bolivar skerast við borgina og tengja Bogotá við allar aðalborgir landsins.

Meðal menntastofnana borgarinnar er Xavier Ponifical-háskólinn (1622) og Santo Tomás-háskólinn (1580).  Grasafræðistofnunin, tónlistarhöllin, Þjóðminjasafnið, Stjörnuskoðunarstöðin, Náttúrugripasafnið, nokkur listasöfn, Gullsafnið (stærsta safn forsögulegra gullgripa í heimi) Þjóðarbókhlaðan og Kólumbusarleikhúsið eru meðal margra menningarstofnana.

Fjöldi skrúð- og skemmtigarða prýðir borgina og úthverfi hennar.  Meðal vinsælla ferðamannastaða eru hinir 157 m háu Teguedama-fossar u.þ.b. 32 km sunnan borgar og tog- og sporbrautirnar, sem flytja fólk upp 333 m háar hlíðar Monserrate-fjalls til kirkjunnar og helgistaðarins uppi á toppi.  Áætlaður íbúafjöldi 1994 var tæplega 5,2 milljónir.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM