Kólumbía efnahagslífið II,
Flag of Colombia


KÓLUMBÍA
EFNAHAGSLÍFIÐ II

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Framleiðsla.  Kólumbíumenn hófu framleiðslu ýmiss konar neyzluvöru í kreppunni á fjórða áratugi 20. aldar og héldu því áfram þar til landið var að mestu sjálfu sér nægt á sjötta og sjöunda áratugnum.  Þessi þróun hægði síðan á sér og á níunda og tíunda áratugnum, þannig að framleiðslugeirinn stendur undir fimmtungi vergrar þjóðarframleiðslu eins og snemma á sjöunda áratugnum.

Textíliðnaðurinn er mannfrekur og er veruleg undirstaða þjóðartekna.  Hann annar innanlandsmarkaði og stóru fyrirtækin, sem eru flest í Medellín, flytja líka út dúk og yam (kartöflur).  Matvælaframleiðsla og efnaiðnaður eru veigamiklar atvinnugreinar.  Efnaiðnaðurinn byggist sumpart á framleiðslu fyrir textíliðnaðinn og hefur stöðugt færzt í aukana.  Talsvert er framleiit af lyfjum.  Sameinuðu járn- og stálverksmiðjurnar í Paz de Río í Boyacá-héraði nýta innlent hráefni og anna mestum hluta eftirspurnarinnar innanlands.

Bogotá, Medellín og Cali ásamt karabísku borgunum Barranquilla og Cartagena eru helztu iðnaðarborgir landsins.  Hinar þrjár fyrstnefndu eru inni landi, sem gerir þeim talsvert erfitt fyrir, þegar kemur að framleiðslu úr innfluttum hráefnum og framleiðslu til útflutnings.  Engu að síður hefur aukin eftirspurn á markaðnum innanlands og veruleg erlend fjárfesting staðið undir talsverðum vexti, aðallega eftir síðari heimsstyrjöldina.  Ódýrt rafmagn frá vatnorkuverum hefur gert iðnþróunina auðveldari.


Viðskipti og fjármál.  Bankakerfið byggist á seðlabankanum (Banco de la República) og rúmlega 30 almennum bankastofnunum, sem eru að hluta í eigu útlendinga.  Fjármálaeftirilitið var sett á legg 1963.  Það hefur æðsta vald í lánamálum seðlabankans, sem gefur út gjaldmiðil landsins, annast bankamál ríkisstjórnarinnar og hefur yfirumsjón með annarri bankastarfsemi.  Seðlabankinn varðveitir líka gjaldeyrisforða landsins og er afgreiðslustofnun á ýmsum sviðum.

Milliríkjaviðskipti byggjast aðallega á útflutningi hráefna og innflutning vélbúnaðar og iðnaðarvöru.  BNA eru stærsti viðskiptavinur landsins.  Viðskiptin við ESB og nágrannalöndin eru líka veruleg.

Útflutningurinn byggist aðallega á olíu og olíuvörum, kaffi, efnavöru, textílvöru, afskornum blómum og kolum.  Á áttunda og níunda áratugi 20. aldar voru ólögleg viðskipti með marijúana og kókein oðrin stór tekjulind, stundum meiri en löglegur útflutningur.  Síðla á tíunda áratugnum var ræktun valmúa og heróínframleiðsla orðin veruleg.  Innflutningurinn byggist aðallega á vélbúnaði og flutnignatækjum, efnavöru, hráolíu og olíuvörum, málmvöru, pappír og pappírsvöru.


Samgöngur.  Landslag Kólumbíu veldur margs konar erfiðleikum í samgöngumálum.  Vegakerfið er mikilvægasta samgöngunetið á jörðu niðri (17% m/slitlagi).  Tveir þjóðvegir liggja inn í land frá höfnum við Karíbahafið.  Annar þeirra liggur meðfram Cordillera Oriantal til Bogotá og Santa Marta, hinn liggur um Medellín, Cali og Popayán til landamæra Ekvador.  Hliðarvegur frá hinum fyrrnefnda liggur til Cúcuta og inn í Venesúela.  Enginn vegur liggur til Panama eða Mið-Ameríku vegna erfiðra aðstæðna á Darién-svæðinu, sem er á milli Panama og Kólumbíu og rýfur Panameríska þjóðveginn milli Norður- og Suður-Ameríku.  Vegabætur eru efst á forgangslista ríkisins, því að mestur hluti vöruflutningar fer um vegakerfið.  Víða trufla skriðuföll vegnasamgöngur og gera viðhaldsvinnu við vegakerfið erfiða.  Mikilvæg samgönguleið liggur um Cordillera Central milli Bogotá, Cali og Buenaventura, aðalhafnarborgarinnar við Kyrrahafið.

Flugsamgöngur eru mjög mikilvægar í landinu.  Ríkisrekna flugfélagið Avianca er líklega elzta flugfélag heims.  Þétt samgöngukerfi í lofti tengir allar helztu borgir.  Flestir, sem ferðast í landinu, fljúga milli staða og flugfélögin annast fjórum sinnum meiri fraktflutning en fer um þjóðvegakerfið.  Millilandaflugvellirnir í Bogotá (El Dorado), Medellín, Cali, Cartagena, Barranquilla og á San Andrés-eyju annast mestan hluta millilandsflugsins.  Hinn síðastnefndi annast að mestu flutninga ferðamanna til og frá eyjunni.

Járnbrautirnar eru ekki eins mikilvægar núorðið og fyrrum.  Ríkið á og rekur brautasporin um allt land.  Aðalbrautin er Ferrocaril del Atlántico, sem er 1000 km löng milli Bogotá og hafnarborgarinnar Santa Marta.  Í Puerto Berrío í Magdalenadalnum liggur þverbraut til vesturs um Medellín og suðurs til Cali og hafnarborgarinnar Buenaventura.  Skriðuföll loka oft járnbrautaleiðum. 

Magdalenaáin er ekki lengur jafnmikilvæg samgönguleið og áður, þótt talsverðir flutningar fari um hana enn þá (einkum olía).  Fyrrum fóru ferðamenn á leið til Bogotá með bátum til La Dorada, þar sem ferðinni var haldið áfram á landi.  Sinú-, Atrato- og Metaárnar eru líka skipgengar en flutningur um þær hefur minnkað mikið.  Hugmyndir eru uppi um að tengja strendur Karíba- og Kyrrahafs með skurði milli Atrato- go San Juan-ánna.  Þær hafa ekki enn þá fengið byr vegna nálægðar Panamaskurðarins.  Hafnarborgirnar Cartagena, Barranquilla og Santa Marta við Karíbahaf hafa djúpar hafnir og eru búnar góðum tækjum til lestunar og affermingar.  Stöðugt þarf að dæla upp úr höfninni í Barranquilla vegna stöðugs framburðar Magdalenaárinnar.  Kyrrahafsmegin er aðstaðan í höfninni í Buenaventura eins góð og hugsast getur.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM