Kólumbía landið II,
Flag of Colombia


KÓLUMBÍA,
LANDIÐ II

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Vatnasvið og jarðvegur.  Ár landsins voru og eru mikilvægar samgönguleiðir og réðu miklu um landnám og búsetu.  Vatnasvið Magdalena-árinnar er hið mikilvægasta í þessu efni.  Aðalþverá hennar er Gauca og samanlagt vatnasvið þeirra nær yfir u.þ.b. 260 þúsund ferkílómetra svæði, nærri fjórðung heildarflatarmáls landsins.  Þessi landshluti er hinn efnahagslega mikilvægasti og þar búa u.þ.b. 75% íbúanna.  Magdalega-áin á upptök sín Páramo de Las Papas í Andesfjöllum og streymir um lægðina milli Cordilleras Central og C. Oriental u.þ.b. 1600 km leið til Karíbahafs í grennd við Barranquilla.  Dique-skurðurinn, sem hafizt var handa við á nýlendutímanum, tengir neðri hluta árinnar við hafnarborgina Cartagena.  Cauca-áin á upptök sín í fjöllunum sunnan Popayán.  Vatnsmagn hennar er verulegt og þar sem hún streymir út úr Cauca-dalnum í grennd við Cali, fellur hún um djúp gljúfur um héruðin Caldas og Antioquia áður en hún sameinast kvíslasvæði Magdalena-árinnar á láglendinu.

Magdalega-áin er grunn og kvíslótt efst og um miðbikið.  Hún var aðalsamgönguæð svæðisins frá alda öðli en eyðing skóga og jarðvegs hafa leitt til aukins framburðar og óreglulegra flæðis, þannig að erfiðara er um siglingar á henni.  Cauca-áin hefur aldrei verið eins mikilvæg samgönguæð vegna flúða.  Meðal annarra þveráa Magdalena-árinnar eru Sogamoso, Cesar, San Jorge, Saldana, Lebfija og Carare.  Sinú- og Atrato-árnar falla bein til Karíbahafs.

Hinum miklu, eystri vatnaskilum er skipt í tvennt:  Amasón og Orinoco.  Þessar tvær meginmóður skila vatninu til Atlantshafs.  Arauca, Meta, Vichada, Inírida og Guayjare eru meðal meginþveráa Orinoco.  Aðalþverár Amasónfljótsins eru Vaupés, Caquetá og Putumayo.  Árnar Kyrrahafsmegin eru allar fremur stuttar og straumharðar og eiga upptök sín í Cordillera Occidental.  Vatnsmagn þeirra er mikið vegna mikillar úrkomu í fjöllunum.  Aðalárnar, sem falla til Kyrrahafsins eru Baucó, San Juan, Daqua, Naya, San Juan de Micay, Patía og Mira, sem kemur upp í Ekvador.

Jarðvegstegundir eru fjölbreyttar og fara eftir loftslagi, landslagi og jarðfræði hvers svæðis.  Þær tegundir, sem bezt henta nútíma landbúnaði eru árframburður og uppþornuð stöðuvötn.  Utan þessara svæða er helzt að finna eldfjallajarðveg, einkum í kaffiræktarhéruðunum í Cordillera Central en þar verður að gæta þess vel, að jarðvegseyðing hefjist ekki.  Quidío-hérað, vestan Bogotá, er rómað fyrir frjósaman jarðveg.


Loftslagið.  Vegna nálægðarinnar við miðbaug ríkir víðast hitabeltisloftslag eða jafnhitaloftslag.  Hitabreytingar eru litlar árið um kring.  Einu sveiflurnar í veðurfari koma fram í ársúrkomunni.  Breytinga loftslags verður einungis vart eftir hæð yfir sjó og mismunar gætir vissulega í norðurhlutanum milli Karíba- og Kyrrahafssvæðanna.  Búseta fólksins er mun bundnari hæð yfir sjó en annars staðar í Latnesku-Ameríku.

Loftslagið í regnskógum Amasónsvæðisins, norðurhlutanum Kyrrahafsmegin og um miðbik Magdalena-dalsins einkennist af úrkomu, sem fer yfir 2500 mm á ári og hitastigi, sem fer ekki niður fyrir 23°C.  Í suðurhlutanum, Kyrrahafsmegin, á Karíbaströndinni og sums staðar inni í landi (Quindío-hérað og umhverfi Villavicencio) gætir hitabeltismonsúnsins og þar eru fleiri en einn þurrkamánuður.  Engu að síður þrífst þar regnskógur með tilheyrandi gróðursamfélögum.

Á steppunum skiptast á regn- og þurrkatímabil eins og á láglendinu við Atlantshafið.  Þurrkatíminn er frá nóvember til Apríl og regntíminn frá maí til október með þurrum hléum.  Svipað loftslag ríkir á Llanos-svæðinu og í hluta Efri-Magdalenudalsins.  Meðalársúrkoman á þessum svæðum er á milli 1000 og 1800 mm og meðalárshitinn er 23°C.

Þurrara steppuloftslag ríkir á Karíbaströndinni frá Morrosquillo-flóa til La Guajira-skagans í norðaustri.  Þar eru venjulega tvö stutt regntímabil (apríl og október-nóvember) en sjaldnast mælist úrkomar meiri en 760 mm á ári.  Meðalárshitinn er rúmlega 27°C og hans gætir lengst á hverjum degi, þar sem loftraki er lágur.  Svipað loftslag ríkir líka í regnskugga djúpra gljúfra vatnsfalla eins og Patía, Cauca, Chicamocha og Zulía og á nokkrum svæðum í efri hluta Magdalenudals.  Nyrzt, í La Guajira-héraði, ríkir næstum eyðimerkurloftslag.

Í fjallendi fer hitastigið eftir hæð yfir sjó.  Meðalárshitinn lækkar um 0,6°C fyrir hverja 100 m.  Landsmenn skipta fjalllendinu gjarnan í svæði eftir hitafari:  Tierra Caliente (upp í 900m), tierra templada eða tierra del café (900-2000m) og tierra fría (2000-3000m).  Lungi landsmanna býr í fjallgörðunum inni í landi, í tierra templada og tierra fría.  Úrkoman er hæfileg í tierra templada og hitastigið 18°C og 24°C.  Bogotá er í tierra fría (2640m).  Þar rignir að meðaltali 223 daga á ári en meðalúrkoman er ekki nema 1000 mm.  Meðalárshitinn þar er 14°C.  Hæst uppi í fjöllum (páramos; 3000-4600m) er meðalhitinn innan við 10°C og veðurfarið einkennist af þoku, alskýjuðu veðri, vindi og smáúrkomu eða úða.  Enn ofar er eilífur snjór og ís.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM