Kólumbía menning,
Flag of Colombia


KÓLUMBÍA
MENNING

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Menningin byggist verulega á landfræðilegum þáttum, sérstaklega á einangruðum svæðum.  Áður en Evrópumenn komu til skjalanna á 16. öld var menning íbúanna á tiltölulega háu stigi.  Þeir byggðu aðallega úr timbri og bjuggu á hitabeltissvæðum með miðlungs og mikilli úrkomu, þannig að fáar minjar hafa fundizt um forsögu þeirra.  Allir ættbálkar bjuggu við einhvers konar félagslegt kerfi.  Algengt var að höfðingjar réðu þessum samfélögum og veldi þeirra afmarkaðist aðallega af landslaginu.  Sumir ættbálkar, Chibcha, Quimbaya, Tairona, Sinú og Calima, höfðu þróað málmvinnslu (gull), höggmyndalist og leirkeragerð.  San Agustín-menningin, aðallega við Magdalena-ána, kemur skýrt fram í risavöxnum sandsteinsristum, sem hafa valdið fornleifafræðingum miklum heilabrotum.  Karabískir ættbálkar voru herskárri og átu mannakjöt við hátíðleg tækifæri.  Ættbálkar inni landi áttu ríka sagnamenningu og trúarbrögð, sem voru undirstaða siðfræði þeirra, reglur um eignarrétt og glæpaforvarnir.

Allt fram á miðjan sjöunda áratug 20. aldar var sú skoðun ríkjandi, að frumbyggjarnir hefðu ekki skilið eftir sig nein stór mannvirki, líkt og aztekar, mæjar og inkar gerðu.  Fornleifauppgröftur, sem hófst 1976 við Tairona í Santa Marta-fjöllum, leiddi í ljós 600 hektara borg frá því um 900 og olli byltingu í rannsóknum á forsögu Kólumbíu.

Indíánar í Andesfjöllum, einkum Chibcha, höfðu fasta búsetu og stunduðu landbúnað.  Þeir voru nægilega skipulagðir til að verja hendur sínar, þegar spænsku innrásarmennirnir komu.  Þegar þessi átök voru til lykta leidd, urðu þeir fyrstir til að blandast hvíta manninum og útkoman var mestizo.  Fæð indíánanna í landinu og stjál búseta þeirra við komu Spánverja leiddi til skjótrar eyðingar menningar þeirra og þeir, sem eftir lifðu tóku upp menningu herraþjóðarinnar að mestu leyti.  Útbreiddasta tunga indíánanna, chibcha, var að mestu horfin á 18. öld.

Bogotá hefur verið menningarmiðstöð landsins allt frá nýlendutímanum og flestar menningarstofnanir landsins eru á höfuðborgarsvæðinu.  Aðrar menningarborgir eru Cali, Medellín, Manizales, Tunja og Cartagena.

Listir.  Hlúð er að listastarfi í tónlistahöllum, sýningarsölum og skólum víða í borgum landsins, annaðhvort í tengslum við háskóla eða á einkavegum.  Miðstéttarfólk hefur áhuga á samtímalist og listamenn landsins eru frjóir í hugsun.  Enginn þjóðlistaskóli er rekinn í landinu.  Meðal kunnra listmálara er Fernando Botero, sem hefur náð athygli innan- og utanlands.  Verk hans hafa vakið athygli á fjölda sýninga víða um heim síðan 1990.

Rithöfundurinn Gabriel Garcia Márquez, sem fékk Nóbelsverðlaunin árið 1982, vakti athygli heimsins á bókmenntahefð þjóðarinnar, sem státar af fleiri ljóðskáldum en hermönnum á forsetastóli.  Garcia Márquez er kunnastur fyrir ritverkið „Eitthundrað ára einsemd” (Cién anos de soledad; 1967), sem lýsir ævintýralegum raunveruleika einnar aldar í lífi ímynduðu borgarinnar Macondo, dæmigerðu, kólumbísku samfélagi.  Mörg önnur verka hans eru byggð á atvikum í sögu landsins og menningu en þau eiga sér dýpri rætur, sem ná til allrar Latnesku-Ameríku.

Handverki hrakaði frá nýlendutímanum fram á fyrstu ár lýðveldisins en eftir 1930 vaknaði áhugi fyrir því á ný.  Mesti vöxtur þess kemur fram í vefnaðarlist og framleiðslu leirmuna, einkum í borgunum Rázuira, Espinal og Malambo.  Körfugerð, reiðtygjagerð og útsaumur (passementerie) eru líka vinsælar listgreinar.

Ýmsar hefðir tengdar framkomu og siðum, tónlist, þjóðsögum og matargerð eru í heiðrum hafðar, þar sem þær eiga rætur.  Tónlistin sem tjáningarform á vafalaust dýpstar rætur.  Tónlistartjáning kynblendinganna (mestizo) í Andesfjöllum, á sléttunum og á Atlantsláglendinu hefur mismunandi blæbrigði.  Hún nær yfir bambuco, cumbia og vallenato.  Nokkur tónlistarform hafa varðveitzt frá nýlendutímanum.

Menningarstofnanir.  Sögu og menningu frumbyggja landsins er minnst í nokkrum afbragssöfnum.  Gullsafnið í Bogotá á bezta safn gripa úr gulli í heiminum og Nýlendulistasafnið í borginni státar af umfangsmiklu safni helgihöggmynda og málverka kreóla.  Þjóðminjasafnið sýnir minjar frá forsögulegum tíma til okkar daga og á mörg söfn kólumbískra málverka og höggmynda.  Tuttugasta júlí safnið sýnir skjöl frá sjálfstæðistímanum.

Þjóðarbókhlaðan og Bókasafn Landsbankans eru ekki síður mikilvægar menningarstofnanir.  Í hinu síðarnefnda er geysistórt safn bóka, sýningar- og tónlistahöll og hljómleikaleikhús.  Utan Bogotá eru fleiri stofnanir á svipuðum nótum, s.s. Zea-safnið I Medellín og Hús Don Juan de vargas í Tunja.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM