Beirut Líbanon,
Flag of Lebanon

  Ferðir Jóhönnu Kristjónsd. um islamska heiminn.  

BEIRUT
LÍBANON

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Beirut (hin forna Beyrtus) er höfuðborg Líbanons við Miðjarðarhafið.  Hún var fræg hafnarborg og miðstöð fjármála og menningar í Miðausturlöndum til 1970.  Síðan hefur borgin orðið fyrir miklum áföllum í borgarastríði og hersetu Sýrlendinga og Ísraelsmanna 1975-91.  Mikið uppbyggingarstarf er unnið í borginni.  Gamla borgin er á skaga út í Miðjarðarhafið og Líbanonfjöll eru í austri.  Fátækrahverfi hafa byggzt í kringum hana, einkum til suðurs, og tengt hana úthverfunum.  Heildarflötur borgarinnar er 42 km² en stundum eru byggðir utan borgarmarkanna taldar með.  Yfirleitt er talað um Austur- og Vestur-Beirut. 

Tvær hæðir skipta henni í þessar einingar.  Kristnir Líbanar eru í meirihluta í Austur-Beirút (Ashrafiyah)  og sunni-múslimar í austurhlutanum (Musaytibah).  Shita-múslimar og Palestínumenn eru nú orðaðir við suðurhluta borgarinnar.  Þessi skipting íbúanna hefur leitt af sér ólgu og ofbeldi í landinu og ekki sízt í Beirut.

Yfirbragð borgarinnar.  Beirut er blanda evrópskrar og arabískrar heimsborgar, sem er þakin örum fátæktar og stríðsátaka.  Skipulag og byggingarstílar eru hrærigrautur með blönduðum íbúðar- og veiðskiptahverfum.  Við norðurjaðarinn ber mest á hafnarsvæðinu í austurhlutanum en Parísarbreiðgatan liggur meðfram ströndinni í vesturhlutanum.  Höfnin er aðalundirstaða efnahags borgarinnar en aðalmiðstöðvar ferðaþjónustunnar eru við Parísarbreiðgötuna, s.s. kunnustu hótelin, sendiráð BNA og Bandaríski háskólinn.  Á stríðstímanum hrundi öll þjónusta í borginni og úrgangi var komið fyrir í landfyllingu við Miðjarðarhafið við aðalhótelhverfið.  Stór breiðgata liggur til suðurs meðfram Miðjarðarhafinu og umhverfis mestan hluta borgarinnar.  Flugvallarbreiðgatan er ein aðalgata borgarinnar.  Hún liggur frá hafnarsvæðinu, út úr borginni til flugvallarins, 8 km sunnan borgarmiðjunnar.  Aðrar aðalgötur liggja frá norðri til suðurs og austri til vesturs (var lokað með grænu línunni).  Græna línan var óopinber útlína múslima og kristinna á árunum 1975-90.  Margar byggingar í grennd við hana og í miðborginni voru lagðar í rúst.  Suðurhlutinn er á margan hátt afleiðing stríðsins.  Þar ráða shita-múslimar ríkjum í fátækasta hlutanum.  Mannmergðin þarna er afleiðing mikillar náttúrulegrar fjölgunar, fjárskorts til viðhalds húsnæðis og aðstreymi shita-múslima frá Suður-Líbanon vegna óstöðugs ástands og skálmaldarinnar þar.  Þarna eru flóttamannabúðir Palestínumanna.  Hinar alræmdustu þeirra eru Sabra og Shatilla, þar sem kristnir Líbanar frömdu fjöldamorð árið 1982.

Menntun og menning.  Beirut varð menningardeigla Miðjarðarhafsbotna síðla á 19. öld og leikvangur heimsborgara á hinni 20.  Kristnir íbúar hennar og vestræn áhrif gerðu hana að frjálslegustu höfuðborg í arabaheiminum.  Hún var líka gáttin að þessum heimi fyrir aðra hlutan heimsins, einkum öfl, sem stefndu að auknum áhrifum á svæðinu með því að efla stöðu kristinna Líbana.  Bandarískin trúboðar stofnuðu sýrlenski mótmælendaháskólann, sem varð síðar að Ameríska háskólanum í Beirut, árið 1866.  Fimmtán árum síðar stofnuðu franskir jesúítar háskóla hl. Jóseps.  Þessar menntastofnanir voru gáttir evrópskar heimspeki.  Um svipað leyti fóru arabískir þjóðernissinnar víða að úr arabaheiminum að venja komur sínar til borgarinnar til að efla samstöðu araba og baráttu fyrir yfirráðum í eigin löndum.  Erlendir trúboðar kynntu þeim prenttæknina, sem gerði þeim kleift að koma boðskap sínum á framfæri á prenti.  Á tuttugustu öldinni færðist barátta þjóðernissina til annarra höfuðborga.  Beirut hélt samt hlutverki sínu og margir gagnrýnendur stjórna arabalandanna komu sér þar fyrir.  Viðskipti tóku við af menningarlegri gerjun og auðurinn, sem safnaðist í borginni, skapaði fjölbreytt og ríkt samfélag.  Viðskiptajöfrar og blaðamenn áttu setur í borginni vegna þess, hve örfandi og þægileg hún var í samanburði við aðrar arabískar borgir.  Íbúarnir voru stoltir af viðurnefninu, sem hún fékk, „París Miðausturlanda”.

Sagan.  Beirut er getið þegar á 15. öld f.Kr. á hinum svonefndu Tel al-Amarna-töflum.  Vegur hennar jókst, þegar hún varð rómversk nýlenda árið 14 f.Kr. og fékk nafnið Colonia Julia Augusta Felix Berytus.  Upprunalega borgin var milliAshrafiya og Musaytibah.  Á tímum Rómverja var hún kunn fyrir lagaskólann, sem var starfræktur í rúmlega þrjár aldir.  Rómverska borgin eyðilagðist í röð náttúruhamfara, sem náðu hámarki árið 551 e.Kr.  Arabískir innrásarmenn fundu lítil merki um eldri þróun borgarinnar, þegar þeir lögðu hana undir sig árið 635.  Baldvin I, konungur, náði henni úr höndum fatímída árið 1110 í fyrstu krossferðinni, en um þær mundir var hún ekki mikilvæg.  Hún þjónaði aðallega hlutverki hafnarborgar fyrir viðskipti við Evrópu og var opin fyrir árásum araba úr austri.  Hún féll í hendur ýmissa innrásarherja og hagur hennar var misjafn eftir viðskiptunum með krydd og silki.  Hún var að nafninu til undir yfirráðum Ottómana eftir 1516, þótt ýmsir innlendir valdahópar stýrðu henni.  Áhrif útlendinga jukust í borginni eftir iðnbyltinguna, þegar evrópskar iðnaðarvörur fóru að streyma til hennar.  Viðskiptin jukust stöðugt og borgin í samræmi við þau.  Um miðja 19. öldina var Íbúafjöldinn í kringum 15.000 og byggðin náði út fyrir borgarmúrana.  Á þessum tíma áttu vestrænir trúboðar og arabískir menntamenn mestan þátt í þróun hennar.

Ottómanar misstu borgina eftir fyrri heimsstyrjöldina og Þjóðabandalagið ákvað, að Frakkar skyldu fara þar með völd.  Þeir réðu Líbanon til 1943 og á þessum árum varð yfirbragð Beirut æ evrópskara (byggingarstíll, tungumál og viðhorf).  Vegur borgarinnar hélt áfram að aukast eftir að Frakkar hurfu frá landinu og tók smám saman á sig þá mynd, sem við sjáum nú.  Fjármálastarfsemi og ferðaþjónusta þróuðust hratt.  Þarna bjuggum margir auðmenn en líka mikill fjöldi fátæklinga líkt og í öllum þróunarlöndum.

Misskipting auðsins kynti undir þjóðflokkaerjum og borgarastyrjöldin, sem brauzt út 1975, var ekki einungis háð milli kynflokka, heldur beindist hún einnig, og ekki síður, gegn aðkomumönnum.  Palestínumenn, sem voru aðallega flóttamenn frá Ísrael eftir 1948, voru hviklyndastir þessara flokka.  Borgin var landfræðilega skipt í austur- og vesturhluta en á þessum tíma skiptist hún í hluta, sem tilheyrðu sunni- og shita-múslimum, drúsum, Palestínumönnum, maronítum og öðrum kynflokkum.  Margar Líbanar flúðu borgina og ýmislegt fór forgörðum, s.s. rafmagns- og vatnsveita.  Árið 1986 bauð hin margflokka ríkisstjórn landsins Sýrlendingum að senda herlið til að stilla til friðar í Beirut.  Þeir gerðu bandalag við ýmsa hópa og eyðileggingin hélt áfram.  Ísraelsmenn ollu miklu tjóni, þegar þeir réðust inn í borgina árið 1982 í leit að PLO, sem varðist í vesturhlutanum og neitaði að gefast upp.  Eftir umsátur Ísraelsmanna og gífurlega eyðileggingu voru PLO-mennirnir fluttir til Túnis og Ísraelsmenn fóru til suðurs.  Bardagar milli flokkanna í borginni héldu áfram allt til loka ársins 1990.  Hin síðari ár hefur ástandið í landinu verið stöðugra og metnaðarfullum áætlunum um enduruppbyggingu borgarinnar var hleypt af stokkunum.  Áætlaður íbúafjöldi borgarinnar árið 1988 var 1,5 milljónir.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM