| 
           
          
        Margs konar menningarsamfélög hafa þróazt í landinu vegna
        staðhátta, uppruna og einkenna landnemabyggðanna. 
        Í grófum dráttum er hægt að skipta landinu í norðurhlutann,
        þar sem spænskir mestizos búa og suðurhlutann, þar sem indíána
        mestizos búa.  Þessi
        skipting samsvarar að mestu leyti fyrrum skiptingu milli háþróaðrar
        menningar indíána á Miðhásléttunni og frumstæðara fólks í norðri. 
        Norðurhlutinn er mjög dreifbýll með afskekktum þorpum, sem
        langt er á milli.  Þar eru
        í grófum dráttum fjögur menningarsvæði. 
        Nyrzt komu Spánverjar á fót námugreftri (16.öld) og
        nautgriparækt (18.öld).  Þessir atvinnuhættir ríkja þar enn þá en áveitur og iðnvæðing
        við landamæri BNA hafa gert atvinnulífið fjölbreyttara. 
           
          Norðausturhlutinn telst vera milli Tampico og landamæra BNA
        og allt að Sierra Madre oriental. 
        Evrópskir landnemar, sem stunduðu nautgriparækt þar, útrýmdu
        indíánum á þessu svæði.  Fyrrum
        var þetta fátækasti hluti Mexíkó en olíu- og stáliðnaður og áveitur
        frá Río Bravo del Norte (Rio Grande í BNA) hafa breytt efnahagnum
        verulega.  Norðvesturhlutinn,
        vestan Sierra Madre Occidental í suður frá landamærum BNA að norðurhluta
        Navaritfylkis, er stórt landsvæði.  Á þessu landfræðilega fjölbreytta svæði bjó mikill fjöldi
        indíána áður en Spánverjar komu til sögunnar. 
        Nú hafast hinir fáu tarahumana- og seriindiánar við á fáum
        afskekktum svæðum.  Þarna
        sóttust Spánverjar aðallega eftir auðæfum í jörðu en nú ræður
        nautgriparækt ríkjum.  
           
          
        
        Kaliforníuskagi
        hefur ætíð verið einhver afskekktasti hluti landsins.  Hann er að mestu stór eyðimörk, þar sem fólk býr í
        borgum á báðum endum hans.  Frumstæðir
        frumbyggjarnir, sem buggu dreift, dóu flestir úr sjúkdómum, sem trúboðar
        fluttu með sér til landsins á seinni hluta 18. aldar. 
        Eftirlifandi indíánar og landnemar komu sér fyrir í litlum bændasamfélögum
        í vinjum skagans, s.s. Ignacio og Mulejé. 
           
          Áhrifa
        menningar indíána gætti og gætir enn þá mun meira í suðurhluta
        landsins.  Miðstöð þessarar
        menningar hefur verið mið- og austurhluti Miðhásléttunnar og hálendið
        umhverfis.  Þarna þróaðist menning asteka og voldugt ríki þeirra og
        önnur smásamfélög indíána.  Þarna
        þróaðist líka miðstöð stjórnsýslu Nýja-Spánar og höfuðborg
        landsins.  Þarna er líka
        mikilvægasta landbúnaðarsvæði landsins. 
        Margar lægðir á sléttunni, Mexíkó, Toluca, Puebla og
        Morelos, eru mjög þéttbýlar og blöndun kynþátta mikil, þótt enn
        þá megi finna hreina indíána á afskekktari stöðum, Michoacán,
        Mezquital, Puebla og Tocula.  Hvergi
        annars staðar í landinu eru andstæður borgarlífsins og lífnaðarhátta
        indíána í dreifbýlinu meiri. 
           
          Vesturhluti
        landsins nær til svæðisins umhverfis Guadalajaraborg, Jaliscofylki og
        hluta Colima-, Nayarit-, Aguascalientes-, Zacatecas- og
        Guanajuatofylkja.  Vegna frjósamra
        lægða og dala og nálægðar við Kyrrahafið var þessi landshluti
        mikilvægasta landbúnaðarsvæði landsins. 
        Guanajuatolægðin hefur löngum verið kölluð matarkista Mexíkó. 
        Margir bæir, Querétaro, Salamanca, Irapuato og León, hafa
        eflzt vegna iðnþróunar, og Manzanillo orðið mikilvægasta
        hafnarborgin við Kyrrahafið.  Margt,
        sem er almexíkóskt í hugum manna, s.s.tequila, mariachitónlist, barðastóru,
        útsaumuðu hattarnir og charrobúningarnir, er upprunnið í
        vesturhlutanum. 
           
          Suðurhálendið
        nær yfir mestan hluta fylkjanna Michoacán, Guerrero og Oaxaca, sem eru
        fátæktin uppmáluð.  Þarna
        er saman kominn mesti fjöldi indíána í landinu, s.s. zapotec, mixtec
        o.fl. ættbálkar, sem erja hver um sig smáskika lands með hefðbundnum
        aðferðum.  Landslagið á þessum slóðum er ægifagurt og fjölsóttir
        ferðamannastaðir, eins og Acapulco og Puerto Escondido, eru algerar
        andstæður lífshátta á landsbyggðinni. 
           
          Veracruz-
        og Tabascosvæðin og austurhliðar Sierra Madre Oriental eru hlutar
        strandhéraðanna við Karíbahafið. 
        Þar eru mestizos (kynblendingar indíána og Spánverja) í
        miklum meirihluta en hreinir indíánastofnar eru uppi til fjalla norðan
        Veracruz, sem er menningarmiðstöð þessa svæðis. 
        Hún hefur löngum verið aðalhafnarborg landsins, sem engin olíuflutningur
        fer um.  Suðurhlutar héraðsins
        voru hættuleg fenja- og sjúkdómasvæði, þar til ráðist var í
        risaframkvæmdir við Papaloapan- og Grijalva-Usumacintaárnar til að
        þurrka þau og breyta í frjósamt landbúnaðarsvæði. 
           
          Stærsti
        hluti Chiapashéraðsins er alleinangraður frá öðrum landshlutum. 
        Mikið er ræktað af baðmull á Kyrrahafsströndinni og annars
        staðar er búfjárrækt.  Indíánar eru í meirihluta á norðurhálendinu í kringum
        San Cristóbal de las Casas en mastizos í suðurhluta þess.  Aðalmenningarsvæði láglendismaja er í dreifbýli Yucatánskagans. 
        Þetta svæði er heimsfrægt fyrir fornminjauppgröft, s.s.
        Chichén Itzá, Uxmal og Tulum.  Eina stórborgin á þessum slóðum er Mérida, sem var miðstöð
        trefjaframleiðslu úr agaveplöntunni á blómaskeiði hennar á seinni
        hluta 19. aldar.  Íbúar
        regnskóganna í suðri eru að hluta til hirðingjar, sem sjá sér
        farborða með sjálfsþurftarbúskap og veiði. 
           
          Áður
        en Evrópubúar komu til sögunnar bjuggu innfæddir aðallega á Mið-,
        Vestur- og Suðurhálendinu.  Spænsku
        landnemarnir settust að á svipuðum slóðum til að nýta indíánana
        til námugraftar og landbúnaðarstarfa, þannig að þessir landshlutar
        hafa verið þéttsetnastir frá upphafi vega. 
        Þéttbýlismyndun þróast ört í Mexíkó. 
        Stærstu borgirnar stækka örast en miðlungsstórar borgir stækka
        enn þá hraðar miðað við höfðafjölda. 
        Á miðjum níunda áratugnum voru rúmlega 100 borgir með
        fleiri en 50 þúsund íbúa.  Mesta
        fjölgunin er í grófum dráttum í borgum, sem eru innan svæðis frá
        Puebla til Buadalajara og nálægt landamærunum við BNA. 
           
          Íbúafjölgunin
        er gífurleg eins og sjá má í tölfræðilegu upplýsingunum og hætt
        við að hún sprengi hagkerfi landsins. 
        Þó eru nokkrir öryggisventlar, sem hafa hindrað algera óreiðu.  Margt fólk er stöðugt á faraldsfæti innanlands og getur
        einhvern veginn séð sér farborða. 
        Aðrir flytja úr landi, löglega eða ólöglega, aðallega til
        BNA.  Engar opinberar tölur eru til um ólöglega innflytjendur í
        BNA frá Mexíkó, en gizkað er á 4-8 milljónir á tímabilinu
        1970-85.  Langflestir þessara
        ólöglegu innflytjenda eru ómenntaðir en þróunin hefur verið í
        þá átt, að flótti menntafólks er farinn að valda vandræðum og
        miklum áhyggjum.  Þessi stöðugi
        straumur Mexíkóa yfir landamæri BNA hefur vissulega létt á mexíkósum
        yfirvöldum hvað varðar efnahagsleg og félagsleg vandamál. 
        Mikill fjöldi Mexíkóa í BNA sendir fjölskyldum sínum
        peninga, sem létta enn meir á efnahagskerfi landsins.  |