| 
           
          *Þjóðarhöllin (mynd) stendur meðfram allri austurhlið aðaltorgs 
          borgarinnar, Zócalo - Stjórnarskrártorgs, alls 200 m löng.  Hún hýsir opinberar 
          stofnanir og skrifstofu forseta landsins.  Upprunalega lét Cortés 
          reisa höll á þessum stað, Nýju höll Moctezumas II, sem setur 
          varakonunga Spánverja og síðar forseta lýðveldisins.  Hún var oft 
          endurnýjuð og byggt var við hana.  Hluti hennar var eyðilagður í 
          uppreisninni 1692.  Hún er meðal elztu og áhugaverðustu byggina 
          borgarinnar.  Fjórðu hæðinni var bætt ofan á húsið í forsetatíð 
          Calles á þriðja áratugi 20. aldar. 
           
          Skjaldarmerki Mexíkóska lýðveldisins, frelsisklukkan, hangir yfir 
          aðalinngangi hússins.  Þar stendur séra Miguel Hidalgo og hringir 
          klukkunni í Dolores hinn 16. september 1810 til staðfestingar 
          frelsishreyfingar landsins.  Hinn 15. september kl. 23:00 ár 
          hvert flytur forseti landsins „Ákallið frá Dolores” (Grito de Dolores) 
          með klukknahljómi. 
           
          Gestum er veittur aðgangur að 14 inngörðum og margir salir eru opnir 
          almenningi.  
          Tröppur liggja upp á aðra hæð úr aðalgarðinum, sem er umgirtur 
          súlnagöngum.  Stórir veggir garðsins og uppgangsins eru prýddir 
          myndum hins kunna veggmálara Diego Rivera, sem bera nafnið „Mexíkó í 
          aldanna rás”.  Á árunum 1926-1945 málaði hann atriði úr sögu 
          landsins á 450 fermetra flöt, allt frá dögum indíána til 
          byltingarinnar.  Fyrrum íbúð Benito Juárez í noðurhluta hússins 
          er opin gestum.  Í herberginu, þar sem hann dó árið 1872, minna 
          upprunalegu húsgögnin á þennan mikilsmetna forseta.  Salirnir, 
          sem voru notaðir til endurskoðunar stjórnarskrár, reyndar pólitískrar 
          siðbótar árið 1857, eru opnir almenningi.  Stjórnarskrárnar 1857 
          og 1917 eru þar til sýnis. 
           
          Aðalríkissjalasafnið er hýst í Þjóðarhöllinni.  Þar er mörg merk 
          og söguleg skjöl að finna og einnig í bókasafni Miguel Lerdo de 
          Tejada, sem eitthvert hið stærsta í Mexíkó. 
           
          Þjóðarhöllin er opin mánudaga til föstudaga kl. 10:00-18:00. 
           
          
           *Dómkirkjan gnæfir yfir norðanverðu torginu.  Hún 
          er meðal elztu guðshúsa í Vesturheimi.  Grunnur hennar hvílir á 
          suðvesturhluta hofsvæðis azteka, þar sem voru hauskúpuveggurinn 
          (Tzompantli) og hof Xipe Tótec.  Bygging kirkjunnar hófst árið 
          1525 og hlutar þess verks voru rifnir og endurbyggðir.  Núverandi 
          kirkju má rekja til ársins 1563.  Teikningar hennar eru síðari 
          verk (lok 16. aldar og upphaf hinnar 17.) akritektanna Claudio de 
          Arciniega, Juan Gómez de Mora og Alonso Pérez de Castañeda.  
          Bygginarefnin eru aðallega blágrýti og sandsteinn.  Vegna hins 
          langa byggingartíma, 250 ára, koma fram mismunandi byggingarstílar, 
          sem „hljóma” mjög vel saman.  Nýklassískur stíll beggja turnanna 
          og annarra hluta hússins draga ekki úr yfirgnæfandi barokáhrifum 
          forhliðarinnar.  Klukkururnarnir, verk José Damián Ortiz de 
          Castro, voru prýddir styttum dyggðanna þrigga, trúar og vonar árið 
          1793, og náungakærleika eftir Manuel Tolsá árið 1813.  
          Kirkjuklukkunum er svolítið sérkenniklega fyrir komið og hin þyngsta, 
          Guadalupe, vegur 5600 kg. 
           
          Innanmál kirkjunnar eru 118mx54m; 55m hæð.  Hún skiptist í eitt 
          aðal- og tvö hliðarskip og aukaölturu eru 14.  Innandyra ægir 
          einnig saman öllum stílum, sem voru ráðandi á byggingartímanum.
          *Aðaldjásn kirkjunnar er altari 
          konunganna (Altar de los Reyes, 1718-1739) bak við háaltarið.  
          Toppstykki þess (Retablo) er eftir Jerónimo de Balbás, myndhöggvara 
          frá spænska barokskólanum í Sevilla.  Í því eru málverk eftir 
          Juan Rodriguez y Julárez, s.s. „Bæn konunganna” og „Uppstigning 
          Maríu”, sem kirkjan er helguð.  Í kapellunni vestan aðalaltarsins 
          eru jarðneskar leifar keisarans Augustín de Iturbide.  Í þriðju 
          kapellunni vinstra megin aðalingangs er stytta „Señor del Cadao”, sem 
          stóð fyrir utan fyrstu kirkjuna.  Þar skildu indíánarnir eftir 
          fórnir sínar til byggingar kirkjunnar, aðallega kakóbaunir.  
          Hinar kapellurnar eru prýddar dýrindis málverkum, einkum í barokstíl. 
           
          Útskornir sedrusviðarbekkir í kórnum frá 1696 eftir Juan de Rojas eru 
          athyglisverðir.  Þeir skemmdust og voru gerðir upp.  
          Náðaraltarið stendur við suðurmörk kórsins, gegnt aðalinnganginum.  
          Baroktoppstykki þess er eftir Jerónimo de Balbás.  Í því er 
          aðalmyndin af Maríu mey (1568) eftir Simon Pereyns.  Það brann 
          árið 1967, en var endurgert. 
           
          *Skrúðhúsið, sem er í gotneskum stíl 16. 
          aldar, prýða málverk frá árinu 1665 eftir Cristóbal de Villalpando og 
          Juan Correa. 
           
          Í grafhvelfingunni hægra megin aðalinngangs liggja flestir 
          erkibiskupar borgarinnar grafnir.  Þeirra á meðal er hinn fyrsti, 
          Juan de Zumárraga, sem var lærifaðir indíánanna. 
           
          *Trúarlistasafnið er tengt kirkjunni.  
          Þar er margt um verðmæta trúartengda gripi. 
           
          *Sakramentshúsið er sambyggt kirkjunni 
          austanverðri.  Það er í rauninni sjálfstæð sóknarkirkja, sem var 
          vígð 1768.  Hún er eitthvert fegursta eintak mexíkósks baroks 
          eftir spænska arkitektinn Lorenzo Rodriguez.  Forhliðina prýða 
          veggstólpar í anda Estipites.  Aðalaltarið er verk Petro Pantiño 
          Ixtolinque frá 1829.  Listamaðurinn var indíáni, nemandi Manuel 
          Tolsás.  Altarið er helgað þjáningu Maríu meyjar.  Hluti 
          innanstokksmuna kirkjunnar skemmdist í jarðskjálfta á 18. öld.  
          Þarna, sem svo víða annar staðar, má sjá merki þess, að byggingarnar 
          síga og skekkjast á landfyllingunni, þar sem stöðuvatnið var áður. 
           
          
           *Stóra hofið 
          (fornleifar) er bak við dómkirkjuna á horni gatnanna Argentina og 
          Guatemala.  Í febrúar 1978 fundu verkamenn við gerð ganga fyrir 
          jarðlest tilhoggna steinskífu, sem var 3,25 m í þvermál og vó 8,5 
          tonn.  Á henni eru lágmyndir í bútum af nætur- og tunglgyðjunni 
          Coyolxauhqui. 
           
          Þessi fundur varð kveikjan að frekari uppgreftri.  Uppi voru 
          ágizkanir um legu hofa og annarra mannvirkja frá dögum azteka, en í 
          ljós kom, að þær voru ekki með öllu réttar, því þær fundust öllu 
          norðaustar en ætlað var.  Hofspýramídinn var yfirgripsmesta 
          byggingin á hofsvæðinu.  Á toppi hans snéri hof stríðsguðsins 
          Huitzlipochtli til suðurs og hof regnguðsins Tláloc til norðurs.  
          Þessir guðir voru höfuðguðir aztekanna og voru ímyndir stríðs og 
          dauða, lífs og vatns.  Uppgröfturinn krafðist niðurrifs margra 
          húsa og það kom í ljós, að búið var að byggja ellefu sinnum þar sem 
          forhlið hofsins liggur meðfram austurhlið Argentínugötu en aðeins fimm 
          sinnum yfir önnur hof á svæðinu. 
           
          Í 
          fimmta byggingalaginu fundust minjar um eldri byggðarkjarna hofa með 
          velvarðveittum múrum.  Fyrir framan vinstra hofið (Tláloc) var 
          skrautlega máluð stytta (Chac-mool), sem heldur litum sínum vel.  
          Líklega eru þessar rústir eldri en búseta azteka í dalnum Anáhuac 
          (fyrir 1428).  Mögulega eru mun eldri hofrústir í neðri lögum, en 
          ólíklegt er, að þær verði grafnar upp.  Í holrúmum veggja milli 
          hofanna fundust, auk hauskúpna mannfórna, ýmsar fórnargjafir.  
          Það er athyglisvert, að lítill hluti 7000 muna er hægt að rekja til 
          azteka.  Líklegt er talið, að aðrir ættbálkar, sem voru þeim 
          undirgefnir, hafi lagt þá til byggingar hofanna.  Hringleiðin um 
          fornminjasvæðið liggur m.a. fram hjá bústöðum „vængjuðu 
          stríðsmannanna”, sem voru hermenn af aðalsættum.  Þar er einnig 
          fjöldi litskrúðugra lágmynda. 
           
           **Museo 
          del Templo Mayor, opið þriðjudaga til sunnudaga kl. 09:00-17:00, var 
          reist við fornleifasvæðið, þegar Mannfræðilega þjóðminjasafnið var 
          orðið plásslaust.  Pedro Ramirez Vázquez teiknaði húsið.  
          Það var opnað 12. október 1986.  Hlið þess, sem snýr að 
          fornminjasvæðinu, er úr gleri.  Átta sýningarsalir eru á fjórum 
          hæðum auk fyrirlestrarsalar og bókasafns.  Heildarflatarmál 
          safnsins er 1700 m2.  Glerkassar hafa ekki verið settir upp fyrir 
          3000 gripi, skýringar eru á spænsku og máli azteka. 
           
          Hauskúpumúrinn (mynd; Tzompantli) er við inngang safnsins.  Hann 
          var fluttur frá norðurhluta minjasvæðisins. 
           
          *Fórnarsteinninn er einhver 
          athyglisverðasti gripur safnsins.  Hann prýðir lágmynd af 
          tunglgyðjunni Coyolxauhqui.  Hún er nakin og höfuð og útlimir 
          lausir frá kroppnum.  Sagan segir, að bróðir hennar, stríðsguðinn 
          Huitzlopochtli, og 400 fylgismenn hans hafi drepið hana og sundurlimað 
          á Slönguhólnum Coatepec við Tula.  Ástæðan var sú, að hún sóttist 
          eftir lífi móður sinnar, jarðgyðjunnar Coatlicue, og var andsnúin 
          mannfórnum.  Stríðsguðinn át hjörtu þeirra, sem var fórnað.  
          Sonur tunglgyðjunnar, Copil, drap loks stríðsguðinn og fleygði hjarta 
          hans í Texcoco-vatnið.  Upp af því spratt kaktus.  Hann gat 
          af sér örninn, sem vísaði aztekum á búsvæði sitt. 
           
          Gestir safnsins geta skoðað fórnarsteininn á fyrstu hæðinni, þar sem 
          hann liggur flatur, og gegnum gat í gólfi annarrar hæðar.  Þessi 
          sjónarhorn leiða í ljós, hvernig hann var notaður.  Hann stóð við 
          pýramídann, neðan hofs Huitzilopochltli.  Prestarnir drápu 
          fórnarlömbin á honum, skáru úr þeim hjörtun og fleygði síðan 
          skrokkunum niður á stein Coyolxauhqui. 
           
          Safnið skiptist í suður- og norðurálmur, líkt og hofin á pýramýdanum.  
          Suðurálman er helguð stríðsguðnum Huitzipochtli.  Fyrsti salurinn 
          sýnir ferð azteka til endanlegrar búsetu í Anáhuac-dalnum.  Í 
          öðrum salnum er fjallað um stríðið og sættirnar við guðina.  
          Þriðji salurinn er helgaður skattkerfi og verzlun aztekanna.  Í 
          fjórða salnum eru nokkrir mikilvægustu einsteinungarnir frá 
          minjasvæðinu.  Beggja vegna stigagangsins eru tvær styttur með 
          arnarvængi, sem voru fluttar frá svæði arnarstríðsmannanna.  
          Eldsguðinn Xiuhtecutli á sinn sess í safninu.  Við tröppurnar upp 
          að altari Huitzilopochtli fundust styttur af fánaberum með augu úr 
          hrafntinnu og skeljum.  Hlutverk þeirra er ekki ljóst enn þá og 
          talið er, að þeim hafi verið gerðar fyrir á þriðja byggingarstiginu 
          (1431) og komið fyrir á tröppunum í upphafi hins fjórða og samtímis 
          hafi verið byggt yfir þær. 
           
          Norðurálman er helguð regnguðnum Tláloc í fjórum sölum.  Þar er 
          að sjá beinagrindur fórnardýra, s.s. krókódíla, arna, fjallaljóna og 
          hákarla.  Lífi og trú azteka er einnig gerð skil (fæðing, uppeldi 
          og viðhorf til alheimsins).  Í síðasta salnum er saga 
          sigurvegaranna (Spánverja) og endaloka menningar azteka rakin. 
           
          
       **Zócalo 
          - Stjórnarskrártorgið.  Þarna var fyrsta stjóirnarskrá 
          landsins kunngerð árið 1813.  Það er 240 m ferningur, meðal 
          stærstu torga heims.  Fljótlega eftir landnám Spánverja fór það 
          að þróast frá norðurhluta hofsvæðis aztekanna (Teocalli).  Á 
          nýlendutímanum var þarna m.a. leikvangur fyrir nautaat, markaður og 
          opinber aftökustaður.  Núna er torgið stórt, autt svæði, þar sem 
          gríðarstór fáni landsins er dreginn að húni á hverjum morgni.  
          Það er notað fyrir alls konar hátíðir, skrúðgöngur og mótmæli.  
          Undir torginu er stór miðstöð jarðlesta, þar sem stöðug þróun 
          borgarinnar er til sýnis með módelum.  Frá þaksvölum Hótels 
          Majestic er sérlega góð yfirsýn.  Auk ofangreindra bygginga 
          verður nokkurra annarra getið hér að neðan. 
           
          Gamla ráðhúsið stendur við Avenida 20 de Noviembre við sunnanvert 
          torgið.  Þetta hús var endurbyggt í kringum 1700.  Nýja 
          ráðhúsið er við hlið þess og bæði hýsa stofnanir borgarinnar.  
          Gran Hotel de la Ciudad de México (Avenue 16 de Septiembre 82) er 
          næst.  Þar gefur að líta glerþak í júgendstíl, sem Tiffany 
          teiknaði, og andi 19. aldar svífur þar enn yfir vötnum. 
           
          Kaupmenn stunda iðju sína við súlnagöng húsanna vestan torgsins.  
          Húsin eru marguppgerð allt frá nýlendutímanum.  Vestan 
          dómkirkjunnar er hús, sem nefnist „Monte de Piedad” (Fjall 
          miskunnarinnar), þar sem ríkið rekur mestu veðlánastarfsemi í 
          Latnesku-Ameríku.  Upphafsmaður hennar árið 1775 var Pedro Romer 
          de Terreros og hún hefur verið í þessu húsi síðan 1850.  Uppboð 
          eru haldin þar einu sinni í mánuði. 
           
          Calle Moneda liggur að norðaustanverðu torginu.  Setur 
          erkibiskupanna er við hana norðanverða á horni Licenciado Verdad.  
          Antonio de Mwendoza, varakonungur, stofnaði fyrstu prentsmiðjuna 
          Nýja-Spánar við litla þvergötu skammt þaðan.  Í húsi nr. 13, 
          Antigua Casa Moneda, var myntstofnun ríkisins frá 1734.  Nú er 
          þar alþjóðlegt menningarsafn. 
           
          Academia de San Carlos var þekktasta listamannasetur landsins.  
          Húsið var endurbyggt á 19. öld og hýsir safn eftirmynda frægra 
          evrópskra skúlptúra í endurreisnarstíl. 
           
          
          *Kirkja de la Santisima Fassade stendur 
          við framhald Calle Moneda, Calle Emiliano Zapata.  Forhlið hennar 
          frá árunum 1755-1789 er meðal hinna fegurstu í borginni.  
          Arkitektinn Lorenzo Rodriguez annaðist fyrsta hluta byggingar hennar.  
          Hann á líka heiðurinn af Sagarario Metropolitano.  Klukkuturninn 
          líkist páfakórónu og er skoðunarverður. 
           
          Nuestra Señora de Loreto í nýklassískum stíl stendur norðvestan Zócalo 
          við samnefnt torg.  Hún er einhver áhugaverðasta kirkja í þessum 
          stíl í Mexíkó.Ignacio de Castera og José Agustin Paz byggðu hana á 
          árunum 1809-1816.  Hvelfingin og steindir gluggar milli 
          burðarstoða og í skrúðhúsinu eru áhugaverðir, enda eftirmyndir frá 
          hinu heilaga húsi í Loreto.  Þarna eru líka falleg málverk frá 
          nýlendutímanum (m.a. eftir Miguel Cabrera).  Enn þá ber lítið á 
          skemmdum, þótt húsið sígi eins og önnur í borginni. 
           
          Escuela Nacional Preparatoria.  Tveimur götum vestar, við 
          Calle Iidefonso 43 er jésúítaskóli í barokstíl frá 1749, sem ber nú 
          framangreint nafn (Gabino Barreda), kunnasti framhaldsskóli ríkisins.  
          Skólinn hýsir einnig skrifstofur háskólan UNAM.  Freskur Fermin 
          Revueltas, Ramóns Alva de la Canal, Fernando Leal, Jean Charlot, David 
          Alfaro Siqueiros og José Clemento Orozco prýða veggi húsgarðsins og 
          stigaganga.  Þáverandi menntamálaráðherra, José Vasconcelos, fékk 
          þá til verksins.  Þetta eru fyrstu veggmyndirnar (muralismo), sem 
          voru málaðar í Mexíkó.  Skólanum tilheyrir „Anfiteatro Bolivar” 
          við Calle Justo Sierra 16.  Þar málaði Diego Rivera fyrstu fresku 
          sína, „Sköpun”. 
           
          Menntamálaráðuneytið (Calle República Argentina) var byggt á 
          grunni 17. aldar klaustursins „La Encarnación”.  Í barokkirkju 
          klaustursins er Íberísk-ameríska bókasafnið.  Hið 1600 fermetra 
          ráðuneyti er pýtt freskum Amado de la Cueva, Juan O'Gorman, Carlos 
          Mérida og Diego Rivera, sem málaði myndir sínar af indíánum á árunum 
          1923-28.  Í þeim endurspeglast félagsleg gagnrýni listamannsins.  
          Í útgáfudeild ráðuneytisins er margs konar upplýsingaefni um land og 
          þjóð. 
           
          *Plaza de Santo Domingo er vestar við Avenida República de Brasil.  Torgið er frá nýlendutímanum og varðveitir anda spænskrar 
          fortíðar.  Skrifarar (evangelistas), sem bjóða ólæsum og 
          óskrifandi viðskiptavinum sínum þjónustu, sitja í súlnagöngunum 
          vestan þess.  Á húsinu Calle Cuba 95 er minningarskjöldur um 
          túlkinn, ráðgjafa og ástkonu Hernán Cortés, Malinche (Doña Marina).  
          Þarna bjó hún með seinni manni sínum, Juan de Jarmillo árið 1527.  
          Minnismerki um hetju sjálfstæðisbaráttunnar, Josefa Ortiz de 
          Dominguez, La Corregidora, og lækninn Manuel Carmona y Valle prýða 
          torgið. 
           
          Barokkirkjan Santo Domingo stendur við norðanvert torgið.  Hún er 
          hið eina, sem stendur eftir af dóminikaklaustrinu.  Núverandi 
          kirkja var byggð úr rauðum tezontle-steini á fyrri hluta 18. aldar.  
          Athyglisverðustu hlutar kirkjunnar eru turninn, prýddur leirflísum, 
          altarið og skreytingar þess í nýklassískum stíl eftir Manuel Tolsá. 
           
          Á horni Brasilíu- og Venesúelagatna, við austanvert torgið, er 
          læknaskólinn Antigua Escuela Nacional de Medicina í höll frá 18. öld.  
          Hún var fangelsi rannsóknarrétarins á nýlendutímanum.  Indíánar 
          voru utan viðfangsefna réttarins, sem var stofnaður í Nýja-Spáni 
          (Mexíkó) árið 1571 og starfaði til 1815.  Höllin hýsir nú 
          lækningasafn. 
           
          *Kirkja Enseñanza Antigua er við 
          Calle Justo Sierra.  Hún er klausturkirkja í barokstíl eftir 
          arkitektinn Francisco Guerrero y Torres frá síðari hluta 18. aldar.  
          Athyglisverðast í kirkjunni eru altarisskreytingar og málverk 
          mexíkóska stílsins frá nýlendutímanum. 
           
          Acequia Real-skurðurinn.  Hann finnst, ef haldið er fram 
          hjá Þjóðarhöllinni um Corregidora-götu.  Þarna er hann 
          endurgerður að hluta, en fyrrum lá hann um þvera borgina og var ein 
          aðalsamgönguæðanna. 
           
          Hæstiréttur er við suðausturhorn Zócalo-torgs.  Húsið var 
          reist 1929 á grunni markaðshúss frá 18. öld.  Stigahúsið prýða 
          tvö veggmálverk eftir José Clemente Orozoco. 
           
          Milli Alameda og Zócalo.  Jarðlest, leið 2. 
          Latnesk-ameríski turninn er 44 hæðir, 177 m hár og hýsir Hótel 
          Mexíkó á horni Avenida Madero og Lazaro Cárdenas sunnan 
          jarðlestarstöðvarinnar.  Útsýnispallurinn á 42. hæð býður frábært 
          útsýni á góðum dögum, sem eru tiltölulega fáir í allri menguninni.  
          Turninn ruggaði verulega í jarðskjálftanum 1985, en stóð hann af sér 
          vegna þess, að grunnur hans er byggður með náttúruhamfarir í huga. 
           
          San Francisco.  Frá turninum liggur Avenida Francisco I 
          Madero til austurs.  Þar er kirkjan San Fransisco með fagurri 
          forhlið frá f.hl. 18. aldar.  Kirkjan er leifar klausturs, sem 
          Cortés stofnaði árið 1524.  Stjórnvöld létu rífa það að mestu 
          1856.  Líklega voru jarðneskar leifar Cortés í kirkjunni frá 
          1629-1794. 
           
          Casa de los Azulejos (Flísahúsið), sem var byggt 1598, en 150 
          árum síðar lét Conde del Valle de Orizaba leggja það bláum og hvítum 
          flísum.  José Clemente Orozoco málaði veggmyndirnar í stigahúsinu 
          árið 1925.  Húsið hýsir verzlun og Sanborn-kaffihús, þar sem 
          Emiliano Zapata og Pancho Villa hittust árið 1914 eftir innreiðina í 
          borgina.  Mynd af þeim kumpánum er uppi á vegg á staðnum. 
           
          *Palacio de Iturbide hægra megin 
          götunnar er í eigu Mexíkóska þjóðarbankans.  Francisco Guerrero y 
          Torres teiknaði hina fagurlega endurreistu barokhöll árið 1780.  
          Allt til ársins 1823 bjó þar Augustin de Iturbide, fyrti keisari 
          Mexíkós.  Þjóðarbankinn stendur af og til fyrir ýmiss konar 
          sýningum í inngarði hallarinnar. 
           
          Iglesia de La Profesa.  Þessi fagra barokkirkja (1720) er 
          á horni Madero og Isabel la Católica.  Fyrrum var hún hluti 
          jésúítaklausturs.  Háaltarið er eftir Manuel Tolsá. 
           
          *Borgarsafnið (Museo de la Ciudad 
          de Mexico).  Í suðurátt frá horni Isabel la Católica og Uruguay 
          var ágústínakirkja, sem er nú Þjóðarbókhlaðan og tilheyrir 
          háskólasvæðinu.  Þaðan liggur þvergatan República de Salvador til 
          austurs.  Handan Avenida Pino Suárez er Borgarsafnið.  Það 
          er í glæsihöll greifanna Santiago de Calimaya, sem hýsir skjöl, 
          myndir, húsgögn og aðra muni tengda sögu borgarinnar, allt frá 
          forsögulegum tíma.  Þar eru m.a. eftirmyndir af „Teocalli” 
          (miðstöð menningar Tenochtitlán).  Við horn hússins er 
          slönguhaussteinn úr slönguveggnum í Templo Mayor. 
          Svolítið lengra til austurs, um El Salvador-götu, er nútímahús eftir 
          arkitektinn Enrique de la Mora y Palmor.  Þar var stærsti 
          matvælamarkaður borgarinnar, sem var fluttur til Iztapalapa. 
           
          *Markaðsklaustrið (Convento de La 
          Merced).  Á fyrrum markaðssvæðinu er mælt með að heimsækja 
          klaustrið, sem var upprunalega byggt á 17. öld og endurbyggt 1834 á 
          horni gatnanna Uruguay og Jesús María.  Súlnagöng sýna ýmsa 
          byggingarstíla.  Mudéjar-stíllinn er sérstaklega áberandi. 
          Lítið eitt lengra, við Uruguay-götu, er Capilla Manzanares með 
          fallegri forhlið frá 18. öld. 
           
          Spítali og kirkja Jésús frá Nasaret er skáhallt á móti 
          Borgarsafninu.  |