Aberdeen skoðunarvert,
[Flag of the United Kingdom]


ABERDEEN
 Skoðunarverðir staðir

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Castlegate, nú Castle Street var fyrrum aðalgata borgarinnar og flest gömlu húsin við hana standa enn þá.  Kastalinn sjálfur er horfinn og elztu byggingarnar eru turninn Tolbooth, fyrrum fangelsi.

Mercat Cross eða Borgarkrossinn (1668) hýsir myndir af Stuart-konungunum.
Lead Man (1706) er stytta til minningar um fyrstu vatnsveitu borgarinnar.

Provost Ross’s House (1593; nú sjóminjasafn) og Provost Skene’s House (fyrst getið 1545) var í eigu Sir George Skene, borgarstjóra Aberdeen 1676-85.

*Marischal-háskólinn er sagður vera stærsta og mikilfenglegasta granítbygging í heimi.  Bygging hans hófst árið 1840 og hann var stækkaður á árunum 1890-1906.  Áhugaverðir hlutar hans eru Mitchell-turninn (71m) og Mitchell Hall.  Árið 1840 var Marischal-háskólinn sameinaður King’s-háskólanum (1494-95) rúmlega 1½ km norðar.  Þar hefur upprunaleg kapella með fallegri þakhvelfingu, útskornum bekkjum og einstöku timburþaki verið varðveitt.

*St Machar’s dómkirkjan er norðan King’s-háskólans.  Talið er, að hún hafi verið byggð á grunni gamallar kapellu, sem heilagur Machar reisti árið 581.  Bygging núverandi kirkju hófst 1378 og lauk 1552.  Hinir fögru vesturturnar úr sandsteini eru frá árunum 1518-30.  Þakhvelfing kirkjunnar er skreytt ýmsum skjaldarmerkjum.

St Nicholas’s-kirkjan, betur þekkt sem Vestur- og Austurkirkjan, er stærsta sóknarkirkja Skotlands, sem var skipt í tvennt við siðbótina.  Vesturkirkjan hýsir fjögur falleg veggteppi.

Aðrir áhugaverðir staðir í borginni eru Fiskmarkaðurinn, bryggjusvæðið og skemmtigarðarnir.

Nágrenni Aberdeen
Á ströndinni norðan og sunnan borgarinnar er fjöldi sjóbaðstaða og aðrir áhugaverðir staðir.

Stonehaven
er fiskibær og vinsæll sumardvalarstaður 25 km sunnan Aberdeen.  Þar gengur fólk gjarnan meðfram þverhníptri ströndinni og á höfða, tæplega 1 km sunnan bæjarins, er Dunnottar-kastalinn.  Rústir hans standa þarna þaklausar en auðvelt er að sjá húsaskipan og sagan segir frá fjölda blóðugra bardaga.  Þegar kastalinn var umsetinn 1652, voru veldissprotar Skotlands varðveittir þar en var komið undan.

Newburgh er fiskibær við mynni Ythan-árinnar, norðan Aberdeen.  Perla úr kræklingi, sem finnst þar í miklu magni, er í kórónu Skotlands.

Cruden Bay er sjóbaðstaður lítið eitt norðan Newburgh með sandströndum og golfvelli.  Þar í grennndinni er stórgrýtt gil, Bullers of Buchan, og rústir Slains-kastalans.  Deer Abbey-klausturrústirnar (13. öld) eru 18 km norðvestar. 

Midmar-kastalinn (17. öld) er á Hill of Fare, 27 km vestan Aberdeen (A974).  Hann stendur lítt hruninn með turnum sínum.  Sé ekið 13 km til vesturs eftir sama vegi og síðan til suðausturs eftir  A980 (5 km) er komið að

Lumphanan, þar sem Machbeth á að hafa látizt.  Sex km norðar er

Craigievar-kastali (1696; að hluta 7 hæða hár) með stórkostlegu endurreisnarþaki.

Crathes-kastalinn er 38 km suðvestan Aberdeen.  Hann hýsir verðmæt húsgögn og skreytta og málaða þakhvelfingu.

Pitmedden House er 27 km norðan Aberdeen, nærri A981.  Þar eru fallegir, gamlir garðar með garðhúsum, sólúrum og gosbrunnum í 17. aldar stíl. 

Tolquhon-kastali er tæplega 2 km norðvestar.  Þar er að sjá 16. aldar rústir með hinum yngri Preston’s-turni.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM