Andalúsía Spánn,


ANDALÚSÍA
SPÁNN


.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Andalúsía er sjálfstjórnarhérað á Suður-Spáni.  Það nær yfir sýslurnar Almería, Cádiz, Córdoba, Granada, Huelva, Jaén, Málaga og Sevilla.  Norðan þess er Sierre Morena, héruðin Albacete, Murcia og Miðjarðarhafið í austri, Gíbraltar, Atlantshafið og Miðjarðarhafið í suðri og Portúgal í vestri.  Héraðshöfuðborgin er Sevilla og aðalvatnsfallið Guadalquivir, sem rennur til Atlantshafs norðan Cádiz.  Sunnan árdalsins eru fjöllin Sierra Nevada (Snjófjöll).  Hæsti tindur þeirra er Mulhacén (3478m).  Mestur hluti héraðsins er frjósamur.  Loftslagið við Miðjarðarhafsströndina er jaðartrópískt en temprað við Atlantshafið.  Uppi í fjöllum er hitastig lægra og algengt er að snjói.  Hlýtt loftslagið í dölunum og á sléttunum gerir bændum kleift að rækta appelsínur, ólífur og sykurreyr, hveiti, maís og aðrar korntegundir.  Meðal verðmætra jarðefna í fjalllendinu eru blý, silfur, kopar, kvikasilfur og kol.

Líklega er Andalúsía gamla konungsríkið Tarshish (af Tartessus) á suðvesturströnd Íberíuskaga, sem getið er í biblíunni.  Karþagómenn komu sér þar fyrir á 5. öld f.Kr.  Eftir að Rómverjar náðu því undir sig, kölluðu þeir það Baetica (af Boetis, rómverska nafni Guadalquivir).  Velmegun var mikil á dögum Rómverja, þar til vandalar náðu yfirhendinni á 5. öld.  Svæðið fékk nýtt nafn, Vandalúsía, sem var afbakað í núverandi nafn á síðari öldum.  Vísigotar komu í kjölfar vandala og réðu svæðinu þar til arabar gerðu innrás árið 711.  Þá varð Andalúsía að menningarmiðstöð sarasana og mára.  Borgirnar Granada, Górdoba, Sevilla og Jaén urðu miðstöðvar menningar, iðnaðar og verzlunar.  Stúdentar hvaðanæva að í Evrópu sóttu nám í hinum víðkunnu háskólum múslima.  Andalúsía varð að márísku furstadæmi árið 756 og þróaðist síðan í kalífaríkið Córdoba.  Márar misstu Lægri-Andalúsíu (svæðið við neðri hluta Guadalquivir) árið 1212 en Efri-Andalúsía varð að konungsríkinu Granada fram til 1492, þegar einvaldar Kastilíu og Aragón, Ferdinand V og Ísabella, náðu því undir sig.  Frá 1516 blandast saga Andalúsíu sögu sameinaða konungsríkisins Spánar.  Heildarflatarmál Andalúsíu er 87.268 km2 og áætlaður íbúafjöldi 1991 var tæplega 7 miljónir.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM