Spánn landið,


SPÁNN
LANDIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Spánn nær yfir u.þ.b. 85% Íberíuskagans og 88% af ummáli landsins eru umkringd sjó.  Strandlengjan við Miðjarðarhafið er 1660 km löng og Atlantshafsströndin 710 km.  Órofin fjallgarður Pyreneafjalla á milli Biscayaflóa og Miðjarðarhafs er 435 km langur og myndar landamærin að Frakklandi.  Allrasyðst er Gíbraltarsund, sem er mjóst 13 km og skilur Spán frá Afríku.

Stærsta einstaka landsvæði Spánar er miðsléttan mikla (Meseta), næstum trjálaus og hallar smám saman frá norðri til suðurs og austri til vesturs (meðalhæð 610 m.y.s.).  Hásléttunni er skipt í norður- og suðurhluta um óreglulega fjallgarða, s.s. Sierra de Guadarrama, Sierra de Gredos og Montes de Toledo. 

Milli margra fjalla eru þröngir Dalir, sem straumharðar ár falla um.  Strandsléttan er mjó, sjaldan breiðari en 32 km og víða rofin af sæbröttum fjöllum, einkum meðfram Miðjarðarhafinu, þar sem eina góða höfnin er Barcelona.  Norðvesturströndin býður upp á allgóð hafnarskilyrði, einkum í Galisíu.

Sex helztu fjallagarðar landsins rísa hærra en 3353 m.y.s.  Hæstu tindar eru Pico de Aneto (3404m) í Pyreneafjöllum og Mulhacén (3478m) í Sierra Nevada á Suður-Spáni.  Hæsti tindur landsins er Pico de Teide (3718m) á Tenerife (Kanaríeyjar).

Helztu ár landsins renna til vesturs og suðurs til Atlantshafs, víðast um djúpa og þrönga farvegi og fjalladali.  Douro, Mino, Tagus og Guadiana eiga upptök á Spáni en renna í gegnum Portúgal til Atlantshafs.  Guadalquivir, sem rennur um frjósama suðurhásléttuna, er dýpsta á Spánar og hin eina, sem er skipgeng svo nokkru nemur.  Ebró, í norðausturhlutanum, rennur til Miðjarðarhafs og er geng minni skipum hluta af leið sinni.  Flestar spænskar ár eru of litlar fyrir skip og báta inni í landi og eru víða ónothæfar til áveitna vegna þess, hve farvegir þeirra eru djúpir.  Þær eru engu að síður vænlegar til raforkuframleiðslu.

Loftslagið.  Víðst ríkir Miðjarðarhafsloftslag.  Það er markað breytilegu hitastigi og ónógri úrkomu nema í norðurhluta landsins.  Hinir mismunandi landslagsdrættir valda mismunandi loftslagsskilyrðum.  Sveifluminnst eru þau meðfram Biscayaflóa og Atlantshafsströndinni, yfirleitt rakt og svalt loftslag.  Á miðsléttunni eru sumur svo þurr, að allar ár og lækir þorna upp, jarðvegurinn springur og þurrkar eru algengir.  Víðast á Spáni er úrkoman minni en 610 mm á ári.  Norðurfjöllin eru mun úrkomusamari.  Vetur eru kaldir í Madrid og umhverfi, þannig að ís myndast á ám en á sumrin fer hitinn upp í 41,7°C.  Á suðurströnd landsins er jaðartrópískt loftslag.  Meðalhitinn á veturna í Málaga, allrasyðst í landinu, er 13,9°C.

Náttúruauðlindir.  Verðmætasta náttúruauðlindin er jarðvegurinn.  Víða finnast verðmæt jarðefni, s.s. kol, olía, kóbalt, kopar, járngrýti, blý, brúnkol, mangan, kvikasilfur, pottaska, salt, silfur, brennisteinn, tin og sink.

Gróður og dýralíf.  Aðeins lítill hluti Spánar er vaxinn skógi.  Helztu skógasvæðin eru í fjallshlíðum, einkum í norðvesturhlutanum.  Eik er algeng víða um landið.  Korkeik, sem hægt er að barkfletta á tíu ára fresti, er mjög algeng á skógasvæðum.  Aspir eru ræktaðar um land allt og ólífutré eru ómissandi þáttur í landbúnaði.  Aðrar áberandi trjátegundir eru álmur, beyki og kastaníutré.  Runnar og jurtir eru algengar á miðsléttunni.  Vinviður þrífst vel í þurrum jarðvegi.  Espartógras, sem er nýtt til pappírsgerðar og trefjaframleiðslu, vex bæði á ræktuðum og óræktuðum svæðum.  Sykurreyr, appelsínur, sítrónur, fíkjur, möndlur og kastaníuhnetur eru ræktaðar á ströndum Miðjarðarhafsins.

Dýralífið.  Meðal villtra spendýra í landinu eru úlfar, gaupur, villikettir, refir, villisvín, villigeitur, dádýr og hérar.  Þekktustu ræktuðu dýr landsins eru nautin á búgörðunum umhverfis Sevilla og Salamanca fyrir nautaatið, sem er þjóðaríþrótt Spánverja.  Fuglalífið er mjög fjölbreytt og tegundir ránfugla eru margar.  Skordýrafánan er fjölbreytt.  Í fjallalækjum og ám eru fiskar.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM