Valencia Spánn,


VALENCIA
SPÁNN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Valencia, höfuðborg samnefnds sjálfstjórnarhéraðs, er á Austur-Spáni á frjósamri sléttu nærri ósum Tura-árinnar, sem fellur til Miðjarðarhafs.  Hún er meðal stærstu borga spánar, markaður fyrir landbúnaðarvörur, miðstöð iðnaðar og samgangna.  Í borginni er talsvert framleitt af vefnaðarvöru, efnavöru, málmum, skipum og öli.

Borgin er setur erkibiskups, Valenciaháskóla (1510) og Listaháskóla (1968).  Þar eru einnig nokkur athyglisverð söfn.  Tvö hlið borgarmúra frá 14. öld standa enn þá, en þeir voru reistir á grunni rómverskra múra. Meðal athyglisverðra bygginga er gotneska dómkirkjan (13.-15. öld) og gotneski silkimarkaðurinn (15. öld).

Samkvæmt frásögnum rómverska sagnfræðingsins Livy lögðu Rómverjar Valenciasvæðið undir sig árið 138 f.Kr.  Pompeius mikli lagði hluta borgarinnar í rúst árið 75 f.Kr. í baráttu sinni gegn herjum uppreisnarforingjans Quintus Sertorius.  Valencia var rómversk til 413, þegar vísigotar náðu henni.  Márar tóku borgina af þeim árið 714 og gerður hana að höfuðborg hins sjálfstæða konungsríkis Valencia árið 1021.  Borgin blómstraði fram á fyrri hluta 17. aldar, þegar verzlun tók að hnigna í kjölfar brottrekstrar márískra kaupmanna.  Í Napóleonsstyrjöldunum hersátu Frakkar borgina á árunum 1812-13.  Hún var höfuðborg lýðveldishreyfingarinnar um tíma í Spænsku borgarastyrjöldinni (1936-39).  Áætlaður íbúafjöldi árið 1991 var rúmlega 750 þúsund.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM