Seoul Suður Kórea,
Flag of Korea, South

SAGAN

SEOUL
SUÐUR KÓREA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Seoul er höfuðborg Suður-Kóreu.  Hún er í norðvesturhluta landsins við ána Han í 60 km frá hafnarborginni Inch’on við Gulahaf.  Seoul var höfuðborg Kóreu frá 1394 (nema 1399-1405) til 1948, þega landinu var skipt um 38°N.  Nafn borgarinnar hefur öðlast sess í tungu landsmanna sem orð, sem táknar höfuðborg.  Á valdatímum Yi-ættarinnar (1392-1910) og japana (1910-45) hét hún opinberlenga Hansong og Kyongsong en almenningur kallaði hana alltaf Seoul.  Þetta nafn varð ekki opinbert nafn borgainnar fyrr en suðurkóreska ríkið var stofnað.

Yi Song-gye, hershöfðingi og ættfaðir Yi, stofnaði borgina 1394 sem höfuðborg sameinaðrar þjóðar.  Lega hennar réðst af því, að auðveldt var að verja hana og áin Han var skipgeng til Gulahafs.  Einnig réði miklu, að legan samræmdist kenningum um útreikninga ákveðinna áhrifapunkta á jörðunni.  Staðurinn, sem Yi valdi, er miðja núverandi borgar við Hanána umkringd hæðum, sem eru allt að 300 m háar.  Varnir borgarinnar voru styrktar með 18 km löngum múr á hæstu brúnum þessara hæða tveimur árum eftir að hún var stofnuð.  Rústir þessara múra eru meðal þess, sem laðar ferðamenn þangað.

Ein af þverám Han rennur um gamla borgarhlutann, þar sem hún hefur verið birgð.  Aðalgötur og verzlunarhverfi eru neðst í lægðinni.  Vöxtur borgarinnar var að mestu innan marka gamla hlutans þar til í upphafi 20. aldar.  Við manntal áriðð 1429 var Íbúafjöldinn u.þ.b. 100 þúsund og árið 1910, þegar Japanar innlimuðu landið, bjuggu u.þ.b. 250 þúsund manns í borginni.  Nútímavæðing Japana olli hinni fyrstu af mörgum útfærslum borgarmarkanna á 20. öldinni.  Nú er borgin á báðum bökkum Han og teygist fjölda kílómetra út frá gömlu borgarmiðjunni meðfram nokkrum þverám hennar.  Núverandi borgarmörk voru að mestu mörkuð árið 1963 og heildarflatarmálið 605 km², tvöfalt stærra en 1948.  Úthverfi spruttu upp eftir að Kóreustríðinu lauk og útborgirnar Songnam, Suwon og Inch’on hafa líka stækkað talsvert.

Loftslagið einkennist af mismunandi hitastigi.  Meðalhiti kaldasta mánaðarins, janúars, er –3°C og hins hlýasta, ágústs, er 25°C.  Meðalársúrkoman er 1370 mm og mest rignir á sumrin.  Loftmengun í borgarlægðinni og á Yongdung-p’o-iðnaðarsvæðinu er orðin alvarlegt vandamál af völdum aukins fjölda bifreiða og verksmiðja.  Hanáin var löngum mjög menguð en allt frá níunda áratugnum hefur tekizt að draga úr mengun hennar með stjórnun vatnsborðs hennar, lagningu skolplagna og hreinsun skolps.

Götumunstrið í borgarmiðjunni er að mestu ferningslagað.  Götur og byggingar teygjast til allra átta frá fjórum hliðum gömlu borgarmúranna, sem standa einn þá.  Til norður liggur leið til Mia-dong og Suyu-dong, til Ch’ongnwang-ni til austurs, til Yongsan og Yongdung-p’o til suðurs og til Map’o og Hingie-dong til vesturs.  Aðalgötur eins og Ulichi-ro og Chong-no, liggja frá austri til vesturs en þegar dregur nær rótum hæðanna í kringum borgina, hefur landslagið ráðið meiru um stefnu gatnanna og raskað reglulegu munstrinu.  Utan lægðarinnar eru nokkrar götur, sem geisla út frá henni og tengjast með hringlaga götum.  Capitol-byggingin og aðrar opinberar byggingar eru við Sejong-no en þinghúsið er á Yoidoeyju.  Bankar, stórverzlanir og önnur fyrirtæki eru aðallega við Namdaemun-no og T’aep’yong-no.  Aðalviðskiptahverfið er við Chong-no, Myong-dong og Ulichi-ro.  Það hefur breytzt úr hverfi timburhúsa með tígulsteinaþökum í steynsteypufrumskóg.  Borgin hefur aðallega stækkað til suðurs, sunnan Hanárinnar og þar hafa myndast þrjú ný hverfi, Yoido-Yongdungp’o, Yongdong og Chamshil.

Húsnæðisskortur er sígilt vandamál.  Fjöldi stórra íbúðablokka voru reistar, flestar á bökkum Han.  Þar að auki risu íbúðahverfi í útjöðrum borgarinnar.  Gömul hús með hituðum gólfum (ondol) finnast enn þá í gamla borgarhlutanum og meðfram rústum borgarmúranna.

Íbúum borgarinnar hefur fjölgað mjög hratt frá miðri 20. öldinni.  Bekkurinn er þéttast settur í gamla miðbænum, kringum hann og í hverfum með stórum fjölbýlishúsum meðfram Hanánni.  Íbúarnir í úthverfunum búa ekki nærri eins þétt og hafa gott olnbogarými.  Fátt er um íbúa af erlendum uppruna í borginni.

Helztu atvinnuvegir borgarbúa eru framleiðsluiðnaður, verzlun og viðskipti og þjónusta.  Framleiðsla véla til vefnaðar og efnaiðnaður eru mikilvægustu greinarnar og þar að auki framleiðsla matvæla, drykkjarvöru, prentverk og útgáfustarfsemi.

Tvö helztu verzlunarhverfin eru stóri markaðurinn við austurhliðið (Tongdaemun Sijang) og markaðurinn við suðurhliðið (Namdaemun Sijang).  Þessi markaðir, sem byggjast á einkareknum smáverzlunum, þjóna ekki eingöngu Seoul, heldur öllu landinu.  Í miðbænum eru líka margar stórar og nútímalegar verzlunarmiðstöðvar í fjölbýlishúsunum.

Seoul er fjármálamiðstöð landsins.  Aðalstöðvar helztu kauphalla og banka landsins eru þar og þar eru haldnar margar kaupstefnur og sýningar.  Þrátt fyrir aldur sinn, er vega- og gatnakerfi borgarinnar allgott og endurbætur hafa farið fram eftir Kóreustríðið, m.a. hefur brúm yfir Han fjölgað á annan tuginn.  Flutingakerfið hefur samt ekki byggzt upp í takt við tímann og fjölgun íbúa, þannig að göturnar anna ekki umferðinni.  Víðáttumikið kerfi neðanjarðarlesta hefur tekið við af sporvögnum og dregið úr umferðinni á yfirborðinu.  Strætisvagnar og lestir flytja stöðugt fleiri farþega.  Borgin er miðstöð járnbrauta til borga í öðrum landshlutum, s.s. Inch’on og Pusan.  Fyrir Kóreustríðið sigldu litlir bátar upp Hanána til Seoul.  Núna nær hlutlausa beltið inn í árósana og lokar fyrir möguleika Seoul sem hafnarborg við fljótið.  Því verður að flytja flestar vörur með lestum og um þjóðvegakerfið.  Alþjóðaflugvöllurinn Kimp’o er í vesturhluta borgarinnar og er aðalmiðstöð flugsamgangna í landinu.

Vatnsveita og fráveitur haldast á engan hátt í hendur við hraða útþenslu borgarinnar, þótt yfirvöld keppist við.  Heilslugæzla er tiltölulega góð og fjöldi grasalækna mikill.  Eldsvoðar eru tíðir á veturna og vorin, á kaldasta og þurrasta tíma ársins.

Skyldunám nær aðeins til barnaskóla (6 ár) en stór hluti nemenda, sem ljúka því, heldur áfram námi á gagnfræðastigi.  Or fjölgun íbúanna veldur skorti á barnaskólum.  Helztu háskólar og æðri menntastofnanir landsins eru í Seoul, þannig að borgin er aðalmennta- og menningarsetur þess.  Þar eru m.a. Listaháskólinn og Raunvísindaháskólinn auk nærri öll menningarféllög og bókasöfn.  Tónlistarskólinn hefur það hlutverk að varðveita tónlistarhefð landsins og mennta tónlistarmenn, sem starfa m.a. í tveimur synfóníuhljómsveitum.  Þjóðleikhúsið, óperan og fjöldi opinberra og einkarekinna safna, þ.á.m. Þjóðminjasafnið á lóð Kyongbok-hallarinnar, prýða borgina.  Sejong-menningarmiðstöðin sunnan hallarinnar býður tónleika, leikhúsverk og sýningaraðstöðu.

Í borginni er fjöldi stórra og smárra skemmtigarða.  Meðal sögulegra staða eru Ch’anggyong-, Ch’angdok-, Kyongbok- og Toksu-hallirnar og Chong-myo-helgidómurinn, sem laða til sín mikinn fjölda innfæddra og ferðamanna.  Íþróttaaðstaðan er mjög góð, enda varð að byggja hana upp í tengslum við Asíuleikana 1986 og Ólympíuleikana 1988.

SUÐUR-KÓREA

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM