Indíánar Norður Ameríku,
Booking.com


INDÍANAR AMERÍKU
.

.

Utanríkisrnt.

Amerískir indíánar skiptast í mikinn fjölda kynþátta og ættflokka, sem er haldið aðgreindum frá inúítum og alautum.

Frumbyggjum Vesturheims er oftast skipt í tvo flokka.  Hinn stærri þeirra er amerísku indíánarnir, sem eru síðan greindir eftir búsetu í hópa norður-, mið- og suðuramerískra frumbyggja.  Minni hópurinn er frumbyggjar heimskautahéraðanna, inúítar, alautar meðtaldir.

Allir frumbyggjarnir eru af asískum uppruna og hafa haldið asískum útlitseinkennum í mismunandi mæli.  Búseta þeirra á meginlöndum Norður- og Suður-Ameríku var nægilega löng til að framkalla ákveðnar ytri- sem innri líkamsbreytingar, sem aðgreina þá á augljósan hátt.  Greining Asíufólks og inúíta hefur engu að síður verið talsvert óljós í Norðvestur-Alaska og Norðaustur-Síberíu, þar sem samband þeirra hefur verið meira innbyrðis en við aðra hópa sitt hvorum megin Beringssunds.

Engum hefur enn þá tekizt að ákveða landnám frumbyggjanna nákvæmlega.  Talið er, að þeir hafi fært sig suður eftir Ameríku á ísöldinni fyrir 1.600.000-10.000 árum.  Löngum var talið, að þeir hefðu tekið sér búsetu á síðasta kuldaskeiði ísaldar, sem kennt er við Wisconsin, fyrir 35.000-20.000 árum.  Nýlegri kenningar hafa fært upphaf landnámsins 60.000 ár aftur í tímann.  Fólksflutningarnir fóru um landbrúna, sem myndaðist við stækkun jökla og lægri stöðu sjávar, þar sem Beringssundið skilur nú milli Asíu og Norður-Ameríku.

Frumbyggjarnir bjuggu yfir fornri verkþekkingu, sem tíðkaðist í Evrasíu og Afríku.  Þeir kunnu að nota eld, héldu hunda, notuðu margs konar steinverkfæri, spjót, skutla, einfalda boga, kaðla, net og tágakörfur.  Þeir beittu mismunandi helgisiðum til lækninga og annarra þarfa.  Þegar fyrstu hvítu mennirnir birtust á sjónarsviðinu í upphafi 16. aldar voru frumbyggjarnir þegar búsettir suður eftir allri Ameríku, þar sem þeir höfðu þróað ýmiss konar menningarsamfélög og aðlagast margs konar landfræðilegum aðstæðum.

Menningarsamfélög nýja heimsins voru gjörólík því, sem gerðist í gamla heiminum, vegna margra teinalda einangrunar.  Þar var hvorki notað hjól né plógur en leirgerð var algeng og þéttbýli og borgir þróuðust á hærra menningarstigi en í gamla heiminum.  Mörg samfélög nýja heimsins byggðust á veiði og söfnun, þótt landbúnaður yrði meginundirstaða afkomu þeirra síðar.  Þar var mest ræktað af maís, baunum, ávöxtum og rætur (líkar kartöflum).  Samtímis ræktuðu Evrópumenn mikið af korni, s.s. hveiti, byggi og hrísgrjónum.

Meginland Norður-Ameríku, sem asíufólkið kaus til búsetu, skiptist í grófum dráttum í þrjár landfræðiheildir.  Vestast eru há Cordillera-fjöllin, Appalachia-hálendið og Piedmont í austri og Slétturnar miklu, allt frá Atlantshafi suður að Mexíkóflóa.  Vestur-Cordillera-fjöllin eru margir samsíða fjallgarðar allt frá Alaska suður til Mið-Ameríku.  Í Kanada og BNA eru stórar grasi- og skógi vaxnar sléttur á milli þeirra auk Lægðarinnar miklu (Great Basin) og eyðimarka Arizona og Nýja-Mexíkós, sem teygist inn í Norðvestur-Mexíkó.  Cordillera-fjöllin meðfram Kyrrahafinu aðskilja mikinn fjölda lægða og hásléttna frá strandlengjunni.  Allranyrzlu hlutar Sléttnanna miklu á miðju meginlandinu eru við jaðar heimskautssvæðanna, mýrlenda túndrusvæði vaxin barrtrjám líkt og í Síberíu (taiga).  Syðst liðast vatnasvæði Mississippi-fljótsins milli tiltölulega þurrlendar hásléttna í vestri og lág- og votlendari sléttna og hæðótts landslags í austri.  Appalachia-hálendið og Piedmont eru skóglendust í norðri og í suðri, þar sem eru nokkur hálendissvæði, sem lækka að ströndum Atlantshafsins og Mexíkóflóa.

Þegar Evrópumenn komu til skjalanna, voru u.þ.b. 240 ættbálkar indíána í Norður-Ameríku.  Mannfræðingar hafa auðveldað sér starfið með því að skilgreina færri hópa úr þessum ættbálkum eftir menningarsvæðum og búsetu.  Þessi skilgreining nær til jaðars heimskautasvæðanna, Norðvesturstrandarinnar, Kaliforníu, Vesturhásléttunnar, vesturhluta Lægðarinnar miklu, suðvesturhlutans, sléttnanna, austurskógasvæðanna og suðausturhlutans.


Landfræðileg skipting
Talsverður útlitsmunur er á hinum mismunandi ættbálkum, þótt þeir séu allir af mongólskum uppruna.  Sameiginleg útlitseinkenni eru aðallega gróft, óliðað og svart hár, rauðbrúnn húðlitur, dökk augu og lítill hárvöxtur á bol líkamans.  Kinnbeinin eru framstandandi og andlit fremur stór.  Höfuðmál, neflag og líkamsstærð eru afar mismunandi.

Sameiginleg útlitseinkenni eru vafalaust mongólsk en erfiðara er að meta afbrigðin.  Nokkrir fræðimenn eru þeirrar skoðunar, að fyrstu frumbyggjarnir hafi verið af mongóskum uppruna og þeir hafi aðlagast nýju umhverfi og breytzt.  Aðrir telja, að fólk af mismunandi uppruna hafi sezt að á meginlandinu.  Sumt hafi blandazt en annað haldið upprunalegum einkennum sínum.

Frá sjónarmiði fornfræðinnar voru indíánar að mestu langhöfðar með mun færri mongólsk einkenni.  Þetta fólk var lág- og velvaxið, margt með mongólsk einkenni en sumt af óvissum uppruna með nokkur einkenni hvítra manna líkt og ainu-fólkið í Japan.

Nákvæmar rannsóknir á dreifingu blóðflokka meðal amerísku indíánanna og erfðafræðilegar rannsóknir gætu leitt til lausnar gátunnar um uppruna þeirra.  Þegar er ljóst, að blóðflokkur B er afar sjaldgæfur meðal frumbyggjanna, þótt hann sé algengur meðal asískra mongóla og flokkur A finnst helzt meðal indíána Norður-Ameríku.

Nútímaerfðagreining ætti að geta leyst úr gátum varðandi vansköpun, náttúruval, blöndun og óreglulega genadreifingu.  Taldar eru líkur á, að hröð breyting hafi getað orðið meðal fámennra hópa frumbyggjar í Nýja heiminum og þannig megi skýra fjölbreytnina.


Tungumálin Áætlanir um fjölda frumbyggjar eru byggðar á upplýsingum frá landkönnuðum, kaupmönnum, trúboðum og fleirum.  Þær eru vægast sagt óáreiðanlegar.  Það var þegar of seint að reyna að beita talningu, því mikill fjöldi þeirra féll fyrir vopnum Evrópumanna og sjúkdómum, sem þeir fluttu með sér.

Bandaríski mannfræðingurinn Alfred Louis Kröber áætlaði frumbyggjafjöldann norðan núverandi landamæra Mexíkós 1.150.000.  Hann flokkaði íbúana eftir vistsvæðum fremur en landfræðilega.  Hann raðaði svæðunum eftir íbúafjölda á ferkílómetra:  Kalifornía 43,4, Kyrrahafsströndin norðvestanverð 28,3, Bandaríkin suðvestanverð 10,7, svæðið við ármót Kólumbía- og Fraseránna 7,15, austurhlutinn 6,95, strönd heimskautssvæðisins 2,47 og norðurhlutinn 1,35.  Ræktanleg svæði í austur- og suðvesturhlutunum voru líka þéttbýl (405.000) en Kröber taldi, að ströndin við Kyrrahafið, frá Beringssundi til Kaliforníu, væri þéttbýlli vegna fiskveiðanna.  Hann áætlaði, að þar hefðu búið 25,2 á hverjum ferkílómetra en aðeins 10,1 á ræktunarsvæðunum.  Ótalin svæði norðan Mexíkós fengu töluna 2,2.  Áætlaður fjöldi frumbyggjar í Mexíkó og Mið-Ameríku var 5 miljónir og 25 miljónir í allri Ameríku.  Þessar tölur eru allar byggðar á mjög ótraustum heimildum.

Helztu einkenni tungumála amerísku indíánanna eru fjölbreytileiki þeirra.  Þau voru rakin til rúmlega 60 málastofna, sem greindust í rúmlega 500 tungur.  Síðari tíma málvísindamenn fækkuðu síðan upprunastofnunum.  Bandaríski málvísindamaðurinn Edward Sapir byggði á 6 málastofnum í Norður-Ameríku með heimskautasvæðunum (inúítar-alautar, algonquia-Wakashan, na-dené, penutia, hokan-Siouan og aztek-tanoa).  Engar rannsóknir benda til nokkurs skyldleika tungumála Gamla heimsins og þessara frumbyggjatungna.  Því má álykta, að þjóðflutningar frumbyggjanna hafi hafizt fyrir svo löngu, að allur skyldleiki við tungumál Gamla heimsins hafi horfið.


Menningarsvæði
Jaðar heimskautssvæðisins frá Alaska til Labrador var fábýll frá upphafi.  Mismunandi ættbálkar, algonquia-mælandi í austri og Athabasca-mælandi í vestri, voru veiðimenn og safnarar, sem bjuggu á takmörkuðum svæðum í einföldum samfélögum.  Stærstu samfélögin voru að mestu stórfjölskyldur.

NorðvesturströndinÆttbálkarnir á þessum slóðum byggðu afkomu sína að langmestu leyti á laxveiði auk ýmisum sjávarafla (fiski, sæspendýrum og skelfiski), fuglakjöti og eggjum og ætum plöntum og rótum.  Þeir nýttu einnig skógana til byggingar híbýla og eintrjáninga og ull fjallageitna til fatagerðar og í ullarteppi.  Gnægð þessara náttúruauðlinda, sem voru mikið nýttar að áliti Kröbers, gerðu það að verkum, að Norðvesturströndin var mun þéttbýlli en önnur svæði norðan Mexíkós.  Samfélögin, sem byggðust aðallega á litlum þorpum fremur en stórum ættbálkum, voru tiltölulega velskipulögð og mikið bar á stéttaskiptingu.

Kalifornía.   Allt frá upphafi til komu Evrópumanna bjó fjöldi ættbálka, sem töluðu mismunandi tungur, á Kaliforníusvæðinu.  Þar voru víða allt að 500 manna ættbálkar með eigin tungumál í nábýli við aðra, sem töluðu önnur mál, og þeir virðast að mestu hafa búið í sátt og samlyndi.  Landslagið á þessum slóðum, fjallgarðar og dalir, hefur myndar náttúruleg mörk milli margra þessara hópa.  Enda þótt þeir töluðu margar tungur og byggju í ólíkum samfélögum, virðast siðir þeirra ekki hafa verið svo ólíkir.  Ræktun og landbúnaður var ekki fýsilegur annars staðar en meðfram Colorado-ánni og meðfram ströndinni var akarn nýtt til nokkurs konar hveitigerðar í miklum mæli og var undirstöðufæða.  Annars staðar stunduðu ættbálkarnir fisk- og dýraveiðar.

Háslétturnar.   Mörk norðurhásléttunnar eru Klettafjöll, ströndin og Cascade-fjallgarðarnir.  Þarna er og voru hæðótt og skóglaus svæði, þéttvaxin skógasvæði og snævi þakin fjöll.  Vegna vatnasviða stóránna tveggja, Columbia og Fraser, byggðu flest samfélaganna þar afkomu sína aðallega á laxveiði, þótt fólkið veiddi einnig aðrar fisktegundir, dýr og safnaði jurtum og rótum.  Veraldleg afkoma þessara ættbálka var hófleg en pólitísk umsýsla var stundum áberandi.  Meginmiðstöðvar þeirra voru þorpin en háleitari hugmyndir um stærri samfélög og sameiningu leiddu stundum til myndunar ríkisstjórna með stéttum ráðamanna, höfðingjaveldis og jafnvel bandalaga.

Lægðin mikla er mikil um sig í fylkjunum Nevada og Utah.  Hún kann að hafa verið frjósöm eftir að ísa ísaldarinnar leysti en er nú þurr og gróðursnauð.  Áður en Evrópumenn komu til þessa svæðis skiptust shoshone-mælandi íbúar þess í fjölda laustengdra fjölskyldueininga, sem lifði af fræjum villtra jurta, smádýrum og skordýrum.  Hver fjölskylda lifði hirðingjalífi mestan hluta ársins og hitti aðrar svipaðar einingar skamman tíma ár hvert til veiða og hátíðarhalda.  Sumir hóparnir komust í kynni við hesta á 18. og 19. öld, mynduðu hópa fjallaveiði- og stríðsmanna og tóku upp marga siði sléttuindíána.

Suðvesturhlutinn
, sem nær yfir núverandi Arizöna og Nýja-Mexíkó og hluta utah, Colorado, Texas og Mexíkó, var fyrrum vistsvæði indíána með fasta búsetu (landbúnaður), veiðimanna og safnara.  Þekktastur þessara ættbálka var Pueblofólkið frá Zuni og Hopi í vesturhlutanum og Miklafljótsfólkið (Río Grande) í austurhlutanum.  Puebloindíánarnir byggðu einstök fjölbýlishús úr múrsteini og þróuðu landbúnaðinn, listir og handverk.  Forfeður þeirra tóku sér búsetu þarna á fyrstu teinöld e.Kr. og kynntust siðum indíána í Mexíkó.  Athabasca- og Navajo-indíánar komu vafalítið frá norðuhéruðum Kanada en náðu ekki til þessa svæðis fyrr en fyrir teinöld eða síðar.  Navajofólkið fékk hugmyndir frá Puebloindíánunum, einkum í tengslum við vefnað, landbúnað og listir, en Apacheindíánarnir héldu sig að mestu við veiðar og söfnun.  Fáir Apachehópar tóku til við ræktun maís og annars ætilegs úr jurtaríkinu. 

Slétturnar Fram á síðari hluta 16. aldar voru slétturnar strjálbýlar og langt var milli byggðra bola.  Í kringum aldamótin 1600 komust indíánarnir í kynni við spænska hesta og hálfri annarri öld síðar voru þeir nýttir um allar slétturnar.  Þeir gjörbreyttu veiðiaðferðum (vísundar) og juku afköst og afrakstur veiðimannanna.  Vísundaveiðarnar löðuðu að sér landnema, sem fóru að setjast að á sléttunum.  Þeir héldu að frumbyggjarnir væru og hefðu verið hestahirðingjar á þessum slóðum (Cheyenne, Arapaho og Dakoda/Sioux), en þeir voru nýkomnir á þessar slóðir og áttu forfeður, sem stunduðu landbúnað eða bjuggu í þorpum áður en Evrópumenn komu fram á sjónarsviðið.  Sléttuindíánarnir gerðu með sér bandalög.  Þeir bjuggu í þorpum í hefðbundnum topptjöldum, stunduðu veiðar og hernað á hestum sínum.  Nútímafólk hefur þá aðallega í huga, þegar það heyrir minnst á indíána.

Skógasvæðin í austurhlutanum.  Ættbálkarnir í þessum landshluta, aðallega iroquoia- og algonquia-mælandi, voru hálfhirðingjar, sem bjuggu í þorpum og ræktuðu maís, baunir og rætur.  Í skógunum fengu þeir nægt byggingarefni fyrir tjöldin, langhús, sem voru hulin berki, og eintrjáninga.  Þeir notuðu húðir til fatagerðar og veiddu fisk.  Í hverju þorpi bjuggu nokkur hundruð indíána og sum slík samfélög skiptust í þéttari heildir fjölskyldna.  Flestir þessara ættbálka lögðu mikla áherzlu á heiður í bardögum.

Suðausturhlutinn
.  Frumbyggjar þessa landshluta, flestir muskoge-mælandi, stunduðu aðallega landbúnað (maís, grasker, baunir, hirsi, tóbak o.fl.).  Þeir söfnuðu líka ávöxtum og hnetum og veiddu dádýr og vísunda.  Byggðir þeirra voru dreifðar og í miðju þorpanna var torg umkringt húsum til opinberra athafna og trúariðkana.  Byggðir ættbálkanna voru sjálfstæðar en bundust stundum bandalögum, sem voru undir sameiginlegri stjórn ráðs með fulltrúum þeirra (Creek og Choctaw).  Slík bandalög voru ekki varanleg.  Stjórnsýslan og stjórnmálalíf voru tiltölulega vel þróuð en efnahagslífið ekki.  Lítið var um eignir og auðsöfnun og verzlun var takmörkuð þar til Evrópumenn komu til sögunnar.

FornöldFyrstu heimildir um íbúa Norður-Ameríku eru fátæklegar og það er ómögulegt að skilgreina menningu þeirra öðru vísi en að kalla þá veiðimenn og safnara.  Svo virðist sem fyrstu landnemarnir hafi komið frá Beringsvæðinu frá Asíu, þegar ísaldarjökullinn færðist suður á bóginn.  Samtímis stækkun hans lækkaði í heimshöfunum, þannig að við jaðar hans myndaðist túndra yfir Beringsund, sem gerði fólkinu kleift að flytjast milli heimsálfanna á þurru landi.  Fyrir 9000-10.000 árum fór Beringsundið aftur undir sjó, þannig að ferðaleiðir forfeðra frumbyggjanna lokuðust á ný.

Ameríka og Ástralía voru síðustu svæði jarðar, sem voru aðgengileg forsögulegu fólki um landbrýr og í Norður-Ameríku varð það að aðlagast aðstæðum á heimskautssvæðinu.  Að því loknu hófust ferðir hópa þessa fólks suður á bóginn til Mackenzie-lægðarinnar og til Mið-Ameríku, þar sem loftslag og vistkerfi voru mun hentugri til búsetu.  Síðar opnaðist íslaus leið um dal Yukonárinnar og enn síðar (fyrir 8000-10.000 árum) var hægt að ferðast niður Liard- og Peace-árnar milli fjallanna.  Samtímis var líklega hægt að ferðast suður eftir hlíðunum meðfram Kyrrahafinu.  Leiða má líkur að einhverjum fólksflutningum um Alauteyjar á síðari tímum.

Síðari tíma menningarþróun.  Fyrstu athuganir menningar frumbyggjanna voru unnar með kolvetnisgreiningu, sem benti til tímabilsins 8000-10.000 f.Kr.  Þá kom í ljós, að fornindíánar í vesturhlutanum, á Sléttunum miklu og austurhluta Norður-Ameríku og eyðimerkurfólkið í fjallgörðum Vesturlægðarinnar veiddu stóra bráð.

Veiðiaðferðir fornindíána
voru líkar á mismunandi svæðum, þrátt fyrir mismunandi landfræðilegar aðstæður.  Þeir bjuggu í fjallaskörðum og dölum vesturhlutans, á grassléttunum og í skógi vöxnum austurhlutanum.  Veiðitæki þeirra úr beini gefa til kynna, að þeir hafi lagt sér til munns útdauðar tegundir dýra (drómedara, letidýr, tapíra, mammúta og hesta).

Á vatnasvæði Vatnanna miklu á austurskógasvæðunum kunna þeir að hafa veitt útdauða fílategund ásamt algengari tegundum elgja og dádýra, sem voru uppistaða fæðu þeirra.  Nokkur tóla þeirra úr beini og viði voru nýtt sem verkfæri eða skraut.  Þessir frumveiðimenn bjuggu í bráðabirgðaskýlum, því þeir fluttu sig til í smáhópum í leit að bráð.  Lítið er vitað um líkamsbyggingu þeirra en líklega líktust þeir steinaldarfólkinu í Asíu, sem var ólíkara mongólum en indíánar sögulegs tíma.

Elztu leifar fornindíána finnast á veiðistlóðum þeirra, þar sem þeir felldu stærstu spendýrin.  Mest áberandi minjarnar á þessum slóðum eru spjótsoddar, sem eru kenndir við Clovis í Nýju-Mexíkó, þar sem þeir voru fyrst uppgötvaðir.  Þeir eru úr tilhöggnum steini og lensulaga og einn þeirra var á skafti úr fílabeini, líklega úr mammútstönn.  Í Folsom í Nýju-Mexíkó fundust bæði samtíma og yngri minjar lensulaga odda, sem eru vandaðri að gerð en Clovis-oddarnir. Þar fundust einnig beinaleifar vísundategundar, sem er útdauð (Bison antiquus).  Á Lindenmeier-svæðinu í Norðaustur-Colorado fannst fjölbreytt úrval af sköfum, útskurðartólum og öðrum minjum.  Minjarnar á Clovis-svæðunum eru taldar 11.000 ára og Folsom-minjarnar 500-1000 árum yngri.


EyðimerkurindíánarÁ svæði í BNA milli Oregon og Norður-Mexíkó og Kyrrahafsstrandar að austanverðum undirhlíðum Klettafjalla löguðu frumbyggjarnir að þurrviðrasömum hálendisaðstæðum.  Þarna var lítið um stóra bráð og gróður var mikilvægur þáttur lífsafkomunnar, þannig að íbúar þessa landshluta urðu að þróa verkfæri til að vinna úr honum.  Cochise-meinningin (nefnd eftir Cochise-sýslu í Suður-Arizona, þar sem hún var uppgötvuð) þróaðist um langt árabil frá því fyrir 8000 árum f.Kr. allt til sögulegra tíma.

Eyðimerkurfólkið bjó í smáhópum hirðingja, sem færðu sig milli fæðusvæða.  Það lagði sér margs konar villibráð og jurtafæðu til munns og þróaði ræktunar- og vinnslutækni.  Kvarnarsteinar voru mikilvægir til mölunar korns villtra jurta.  Kunnustu bústaðir þessara indíána eru hellar og skýli úr steini og helztu minjar eru tágakörfur, net, mottur, kaðlar, skinnfatnaður, sandalar, trékylfur og trépálar.  Þeir notuðu líka spjótvörpur fyrir lítil harðviðarspjót með tinnu- og síðar hrafntinnuoddum.  Þeir klufu þessi vopn með steinverkfærum af mikilli kunnáttu og vandvirkni og þau líkjast mjög sambærilegum vopnum frá steinöld.  Oddar kastvopnanna lýsa mikilli verkkunnáttu þjóðflokka og ættbálka á öllu meginlandinu.  Líklega voru hundar í för með Asíufólkinu, sem settist að á eyðimerkursvæðunum í kringum 4000 f.Kr. en þá voru þeir þegar orðnir húsdýr víða annars staðar í Norður-Ameríku.

Vestustu hlutar N.-Ameríku.  Í fjölbreyttu landslagi Vestur-Kaliforníu var fjöldi ættbálka, sem nýttu sér náttúruauðæfi svæðisins en ekkert þessara samfélaga byggði afkomu sína á landbúnaði.  Í suðureyðimörkinni lifði fólkið á fræjum og veiðum smádýra.  Það notaði grófgerð tinnuverkfæri, kvarnarsteina og síðar örvaodda.  Í fjalllendinu og á frjósamari svæðum beindist veiðin að elgjum og dádýrum, fisks og fugla og þar safnaði fólkið líka akarni.  Í kringum 2000 f.Kr. höfðu menningaráhrif frá indíánum í norðri og þekking á nýtingu náttúrunnar á þessu svæði fest íbúana í sessi.  Ættbálkarnir á ströndinni byggðu afkomu sína á fiskveiðum, veiðum sæspendýra og sumir lifðu að mestu á skelfiski, þótt víðast væru flest framangreind dýr á matseðlinum.

Á norðanverðri vesturströndinni og í vesturhluta Brezku-Kólumbíu (Kanada) hafa fundizt minjar um fyrstu? veiðisamfélögin (grófgerð vopn og verkfæri).  Á teinaldabilinu 9000-7000 f.Kr. virðast frumbyggjarnir hafa lagt megináherzlu á veiðar.  Í kringum 8000 f.Kr. varð laxveiði mikilvæg á göngutímanum og bein virðast hafa verið notuð í auknum mæli sem verkfæri.  Þarna hafa fundizt beinmeitlar (burin) o.fl.  Á mesta hlýskeiðinu eftir ísöld, 3000-2000 f.Kr., tóku íbúar þurrlendra svæða, þar sem engin vatnsföll voru, upp verkmenningu eyðimerkurfólksins lengra í suðri.  Annars staðar fór fólkið að veiða í ám og nýta sér lífverur á fenjasvæðum eða auðæfi sjávar.

Á fyrstu teinöld fyrir Krist var uppi svokölluð Marpole-menning á svæði Fraser-árinnar.  Henni svipaði mjög til menningarinnar, sem ríkti á norðvesturströndinni og byggði á nýtingu hellugrjóts og verkfæra til trésmíða.  Sambærileg menning ríkti á austurskógasvæðunum og í norðvesturhluta Síberíu.  Á flestum svæðum norðvesturstrandar skortir áþreifanlegar heimildir um menningu frumbyggjanna til u.þ.b. 1300 e.Kr.


Fornmenningin.
Austurhlutinn.  Þegar ísskjöldurinn fór að hörfa til norðurs fyrir u.þ.b. 10.000 árum varð svalt og rakt loftslagið smám saman heitt og þurrt á Sléttunum miklu og í Lægðinni miklu.  Þetta olli mikilli breytingu á vistkerfum þessara svæða.  Háslétturnar voru að mestu óbyggðar um langan aldur, því þar tóku breytingarnar lengri tíma.  Vistkerfi annarra landshluta breyttust einnig mikið í samræmi við breytt loftslag.  Umskiptin í menningarsamfélögum indíánanna voru hæg og sjást bezt á vopnum þeirra og verkfærum.  Lífshættirnir breyttust í blöndu veiða og söfnunar og fyrir 8000 árum fóru ættbálkar að aðlaga sig aðstæðum við árnar og sjóinn, þar sem fiskur og annar afli bættist við matseðilinn úr jurtaríkinu.  Fornöldin er talin ná yfir tímabilið 8000-1500 f.Kr.  Á þessu tímabili þróuðust samfélögin og afkomuaðferðir og samtímis fór að gæta aðgreiningar tungumála.

Hús frumbyggjanna voru yfirleitt hringlaga með tréstoðum undir þaki og í veggjum. Þau voru líklega þakin berki.  Eldað var undir beru lofti í ílátum úr tré, berki eða húðum og steikt og bakað í gryfjum.  Fornir sorphaugar gefa allgóða mynd af dýralífinu eftir ísöld.  Veiðitæki, s.s. net, gildrur og gryfjur, voru notuð ásamt spjótum og slöngvum.  Önglar og netsökkur voru notaðar og sums staðar fiskikistur.  Fólkið borðaði skelfisk úr vötnum, ám og sjó auk rota, berja, ávaxta og kartaflna (tuber).  Langir listar yfir lækningajurtir, sem fyrstu landnemarnir frá Evrópu skráðu, hafa vafalítið átt við í fornöld.

Fjölbreytileg verkfæri úr tinnu, s.s. oddvopn, hnífar, sköfur, gatarar, borar og skaraxir eru einkennandi fyrir ákveðna landshluta og breytingarnar, sem urðu í fornöld.  Á síðari hluta fornaldar fóru menn að vanda meira til verkfæra og tóla, m.a. með því að slípa þau og gera þau áferðarfallegri.  Þessi þróun varð samfara meiri viðskiptum milli samfélaga.  Dæmi um þau eru kopartól frá Michigan-Wisconsin-svæðinu, sem fundust í núverandi Louisiana og Flórída.  Einnig hafa fundizt skeljar frá suðausturhlutanum á efra vatnasvæði Mississippi og við Vötnin miklu.  Þessar minjar gefa til kynna samgöngur á ám og vötnum.

Barrskógasvæðin (greni, fura o.fl. teg.) milli Nýja-Englands og vesturstrandar Kanada og í Mackenzie-dalnum mynduðust, þegar jöklar hörfuðu.  Núverandi útbreiðslusvæði skóganna þarna myndaðist fyrir u.þ.b. 4500 árum.  Bæði loftslag og skóglendi þessara svæða drógu úr landnámi, sem byggðist á dýra- og fiskveiðum og lítillega á söfnun jurta og róta.

Á norðurhluta svæðis Vatnanna miklu þróaðist svonefnd koparmenning, sem er merkileg vegna ýmissa tækja og tóla, sem fólkið í lægð Superior-vatnsins gerði. Upphaf þessarar menningar má rekja 5000 ár aftur í tímann og hún hélt velli í 2000 ár, sem var síðfornöld á þessum slóðum. Tæki og vopn, einkum axir, skaraxir og meitlar, gefa til kynna, að frumbyggjarnir hafi aðlagast aðstæðum í skóglendinu. Sunnan Jamesflóa að Efri-St. Lawrence var tímaskeið fyrir u.þ.b. 4000 árum kallað lárentíska norðurhjarafornöldin og allraaustast sævarfornöldin. Þar var flögugrjót mótað í odda og hnífa, líkum kopartólunum miklu vestar. Þessi þróun ásamt svipuðu menningarstigi íbúa svæðanna staðfestir viðskipti milli þeirra. Út frá þessu er einfalt að álykta, að fólkið hafi ferðast á Vötnunum miklu í eintrjáningum.

Meðfram suðurmörkum mið- og austurskógabeltisins þróaðist sérstök og viðhafnarmikil útfararmenning á teinöldinni 1500-500 f.Kr.  Hún náði einnig til líkbrennslu og við hana voru oft notuð rauð litarefni, eldfæri (járnkís og tinna), koparnálar, alir og slípaðir steinar.  Fyrstu merki um leirkeragerð komu fram fyrir u.þ.b. 3000 árum og talið er, að þessa þróun megi rekja til Norðaustur-Asíu og Norður-Alaska og Norðvestur-Kanada.  Ekki er ljóst, hvernig samgangi þjóðflokka á þessum slóðum við skógarindíánana, hefur verið háttað.

Slétturnar miklu í fornöld
.  Á vestanverðum sléttunum fyrir 10.000-5000 árum voru indíánarnir hættir að smíða skorna blaðodda.  Margar aðrar gerðir þeirra hafa fundizt (Plainview, Angostura, Milnesand, Agate-lægðin og Scottsbluff).  Þær voru í rauninni lítt frábrugðnar hinum upprunalegu örva- og spjótsoddum og veiðimenningin tengd þeim er gjanan kölluð Plano.  Helzta veiðidýrið á þessum tíma var vísundurinn, því önnur stór bráð var útdauð.

Steinmenningin, sem tendist Plano-veiðimönnunum, var keimlík í samfélagshópunum í langan tíma, þegar lofslagið varð æ hlýrra fyrir 4000-5000 árum.  Við þessi hlýnandi skilyrði fluttist hluti fólksins norðar á síð-Plano-tímanum (Saskatchewan og Alberta), elti grasbítana, og var komið alla leið norður á túndrurnar í Norðvesturhéruðum Kanada við Grant, Dismal-vötnin og Stórubjarnará.  Sumir frumbyggjanna tóku stefnuna austur í Mississippidalinn og að vestanverðum Vötnunum miklu.  Mörg búsvæði þessa fólks voru vænleg til veiði eins og beinaleifar vísunda og tóla til veiði og verkunar húða sýna glögglega.  Hreindýr voru aðalveiðidýrin á túndrusvæðunum.  Þar hafa fundizt kjöthnífar og myllusteinar.


Fyrstu ræktendur.
Suðvesturhlutinn.  Frumstæð ræktun hófst í Mexíkó á tímabilinu 6000-4000 f.Kr. og tveimur teinöldum síðar hafði hún breiðzt norður í miðja álfuna.  Höfuðáherzlan var lögð á maís, en einnig var talsvert ræktað af graskerjum, ávöxtum, pipar, baðmull og margs konar baunum.  Á tímabilinu 2000-1000 f.Kr. breiddist maísræktun út í suðvesturhluta núverandi BNA en aðrar tegundir ekki fyrr en strax eftir Kirstsburð.  Maísræktunin á þessu svæði hafði ekki merkjanleg áhrif á menninguna og geymslur fyrir kornið, leirker og hús með niðurgröfnum gólfum þekktust ekki fyrr en eftir Kristsburð.  Veggjagrindur og þakundirstöður þessara húsa voru úr timbri og veggir að mestu gerðir úr tágum, sem leir var síðan klínt á.  Smábyggðir fyrstu pueblo-indíánanna (körfugerðarfólksins), sem bjuggu á fjórum hornum suðvesturhlutans (norðvesturhluta Nýja-Mexíkós, Suðvestur-Kólóradó, Suðaustur-Utah og Norðaustur-Arisóna) voru meðal fyrstu landbúnaðarsamfélaga á þessum slóðum.

Ohio-dalurinn.   Adenamenningin var uppi í austanverðri Norður-Ameríku, um miðbik árdals Ohio-árinnar í kringum 500 f.Kr., áður en ræktun maís kom til sögunnar.  Adena er búgarður í grennd við Chillichothe í Ohio, þar sem er stór grafhaugur.  Adena-indíánarnir voru veiðimenn og safnarar, sem voru kveikjan að Hopewell-menningunni í árdölum Ohio og Illinois.  Hopewell er búgarður í Ohio.  Hopewell-indíánarnir nýttu sér hið bezta úr fornaldar-, Adena- og skógamenningunni auk þess, að þeir ræktuðu maís og ávexti í litlum mæli.  Blómaskeið þeirra var frá 100 f.Kr. til 200 e.Kr.  Ljóst er, að þeir byggðu samfélag sitt á velskipulögðum þorpum, þar sem takmarkaður hópur einstaklinga annaðist umsjá og gæzlu umframbirgða.  Grafsiðir þeirra eru mest áberandi, þar sem þeir lögðu eitt eða fleiri lík í grafhýsi, sem voru brennd og byggður haugur yfir.  Minjar úr slíkum haugum gefa til kynna, að Hopewell-indíánarnir hafi átt viðskipti við fjölda annarra ættbálka.  Hrafntinna og tennur úr grábjörnum komu frá Klettafjöllum, kopar frá svæðunum norðan Vatnanna miklu og skeljar og aðrar vörur frá suðausturhlutanum (Mexíkóflóa).  Ýmsa muni og minjar frá Ohio-svæðinu má finna vítt og breitt um austanverð BNA.  Hopewell-indíánar tóku upp leirkeragerð að hætti annarra ættbálka í Ohio-dalnum, sem hófu hana í kringum 1000 f.Kr., og ættbálka í Illinois-dalnum, sem skreyttu leirmuni sína að sínum hætti strax eftir Kristsburð.  Þar sem lífsskilyrði voru lakari í austurhlutum N.-Ameríku, ríkti skógamenningin, sem byggðist meira á söfnun en ræktun.

Augljós merki hafa fundizt um menningarlega afturför á öldunum 200-700 í Norður- og Mið-BNA í kjölfar framþróunar Hopewell-menningarinnar.  Án þess að áreiðanlegar niðurstöður hafi fengizt er talið að hún liggi í breyttum siðum og athöfnum.  Í suðurhlutanum urðu einnig breytingar í þessa átt, en þær ollu ekki afturför.

Mississippidalurinn og nærliggjandi skógasvæði
.  Síðasta framfaraskeið frumbyggjanna í austanverðum BNA er kennt við Mississippilægðina og aðalþverdali hennar.  Landbúnaðarmenning þessa svæðis einkenndist af framförum, líkt og meðal Pueblofólksins í suðvesturhlutanum, í samanburði við austlægari landshluta á öldum 700-1200.  Fyrst fór að bera á þessum framförum á svæðinu milli St Louis og Vicksburg, sem byggðust á hugmyndum, trúarsiðum og verkmenningu í Norður-Mexíkó auk staðbundinni þróun, sem leiddi til fastrar búsetu.  Í kringum árið 1000 stóðu stórar byggðir með smærri landbúnaðarþorp umhverfis.  Þetta tímabil einkennist af sérþekkingu í gerð leirmuna, örvaodda, húsa og annarra nytjamuna.  Áberandi þáttur í þessari menningu er musterishaugurinn, þar sem opinberar byggingar stóðu.  Ráðhús og hof voru miðstöðvar hátíðlegra og stjórnmálalegra athafna.  Þessir flötu haugar stóðu við miðtorg byggðarinnar, sem var einnig miðpunktur sameiginlegra athafna ættbálksins.  Varanlegustu húsin voru byggð úr staurum, tágum og leir og voru oftast ferhyrnd.  Sums staðar voru byggð stór og hringlaga beinahús, sem geymdu jarðneskar leifar hinna látnu, þar til þær voru grafnar í stórum, helgum reitum eða undir gólfum íbúðarhúsa.  Stærð hátíðarsvæða ættbálkanna var á bilinu 4-40 hektarar.  Handverk indíánnanna byggðist á mottum og körfum úr tágum, fatnaði og gerð margs konar íláta.  Umframbirgðir fæðu voru geymdar í birgðagryfjum, stórum körfum og jötum ofanjarðar.

Einn þáttur þessa menningarstigs var gerð skrautlegra hátíðarbúninga og skrautgripa, sem voru notaðir við velskipulagðar og hefðbundnar trúarhátíðir.  Þær urðu hluti af Mississippimenningunni og nokkrir staðir eru þekktir, þar sem sérstakir munir tengdir þeim voru framleiddir.  Meðal annarra nýjunga voru virkismúrar úr jarðvegi og timbri í kringum þorpin.  Þeir gefa til kynna aukið vopnaskak milli ættbálkanna, sem hélt reyndar áfram allt fram á sögulegan tíma, þegar bandalaga ættbálka fór að gæta.  Þessi átök byggðust aðallega á hefndum og frægðarfýsn en ekki landvinningum.

Skógamenningin norðan og austan Mississippisvæðisins varð fyrir áhrifum frá henni.  Eftir árið 800 náði skógamenningin alla leið vestur í austurhlíðar Klettafjalla, þar sem Pueblofólkið var að færa sig til austurs.  Næstu fjórar aldirnar döfnuðu þorpin í tengslum við framfarir í ræktun.  Þá bjuggu friðsamir hópar, skyldra og tendra ættbálka við aðalárnar og voru kenndir við Sléttu-Mississippimenninguna.  Hluta hennar má rekja til austlægari Mississippimenningar, m.a. vegna fólksflutninga (omaha, ponca) frá St Louis-svæðinu í kringum árið 1000.

Á aldabilinu 1500-1700 bjuggu apache- og comanche-indíánar á hásléttunum frá Nýju-Mexíkó til Wyoming og í Austur-Oklahoma, Kansas og Nebraska.  Þeir notuðu hesta og stunduðu nokkra ræktun.  Þar stóðu forsöguleg þorp Sléttu-Mississippimenningarinnar (pawnee, arikara, mandan, hidatsa, crow og wichita) fram á sögulegan tíma.


Þéttbýlisbændur í suðvesturhlutanum.
Menning anasazi-, mogollon- og hohokam-indíána.  Þetta menningarsvæði náði yfir Austur-Utah og Suður-Kólóradó og um mestan hluta Nýju-Mexíkó og Arizona.  Ræktunin var mismunandi eftir loftslagi, sem gerði fólkinu á jaðarsvæðum þess erfitt fyrir.  Síðustu tvær teinaldirnar fyrir Kristburð kynntust indíánar Norður-Ameríku ræktun maís og annarra nytjaplantna frá Mexíkó.  Áhrifin frá Mexíkó ollu líka þróun smáþorpa með hátíðahúsum, sorpgryfjum og leirmunagerð skömmu fyrir Kristsburð í Suður-Arizona og Nýja-Mexíkó.  Þessi þróun markaði upphaf svipaðrar menningar mogollonfólksins í miðvesturhluta fjallendis Nýju-Mexíkós og miðausturhluta Arizona og hohokamfólksins í eyðimörk Gila-lægðarinnar í Suður-Arizona, sem varð að byggja áveitur til ræktunarinnar.  Mogollonfólkið stíflaði líka ár og gerði áveitur, þótt úrkoma væri nægileg á slóðum þess.  Anasazi- eða pueblomenningin í suðvesturhlutanum byggðist einnig á þessum aðferðum.

Aldabilið 700-1200 var útþenslutími með fólksfjölgun og þróun varanlegra þorpa með margra herbergja- og hæða byggingum.  Á þessum tíma var loftslag hagstætt fyrir ræktun og úrkoma nægileg í suðvesturhlutanum.  Af þeim sökum urðu talsverðir fólksflutningar frá Mið- og Vestur-Mexíkó til Norðvestur-Mexíkós.  Viðskipti og menningaráhrif bárust þaðan til suðvesturhluta N.-Ameríku eins og sést við uppgröft minja frá þessu skeiði (steyptar koparbjöllur, páfagaukar, leirmunir o.þ.h.).

Þorpa- og ræktunarmenning anasazifólksins náði til Norðaustur-Arizona, Suðvestur-Kóloradó og norðvesturhluta Nýja-Mexíkós í kringum árið 900.  Í kringum 1100 var þessi menning kominn til Jómfrúarárdalsins í suðausturhluta Nevada og alla leið norður að Stóra-Saltvatni og Norðvestur-Kólóradó, inn í Suðaustur-Kólóradó og upp eftir dölum Pecos- og Kanadaánna í Nýja-Mexíkó.  Á þessum tíma þróaðist starf presta í tengslum við trúarhátíðir og athafnir.  Fólksfjölgunin varð mest á þéttbýlustu stöðunum, þar sem búsetan var stéttarskipt.  Höfðingjar voru jafnframt prestar, sem stóðu m.a. fyrir regndönsum.  Íbúafjöldi þorpanna var allt frá 300 til rúmlega 1000 manns.

Auknir þurrkar höfðu áhrif á ræktunarmenningu anasazifólksins á tímabilinu 1100-1300 og þéttbýli þeirra jókst í Norðaustur-Arizona, meðfram Rio Grande og þverám hennar, og á Zuni-svæðinu í Norðaustur-Nýja-Mexíkó.  Anasazifólkið hélt ræktun sinni áfram með áveitum.  Á tímabilinu 1300-1540 jókst mikilvægi regndansins eins og sjá má á veggjateikningum og skreytingum á leirkerum.

Menning mogollonfólksins var á fyrstu stigum á aldabilinu 200 f.Kr. til 700 e.Kr. og byggðist á tiltölulega litlum þorpum jarðhýsa í grennd við stóra hátíðabyggingu.  Húsin voru byggð skipulagslaust og sorp safnaðist upp.  Eftir aldamótin 700 breiddust áhrif anasazimenningarinnar út og hennar gætti í bland við upprunalega menningu mogollonfólksins á aldabilinu 900-1100.  Eftir aldamótin 1200 yfirgaf mogollonfólkið festar byggðir sínar í suðvesturhluta Nýja-Mexíkós vegna versnandi loftslagsskilyrða.

Rætur hohokammenningarinnar lágu í aðalárdölum Suðaustur-Arizona.  Samstarf margra þorpa um áveitur gerðu allútbreidda ræktun mögulega.  Þorpin voru óskipulögð og fólkið bjó í hálfjarðhýsum meðfram ám og áveituskurðum.  Aðallandnám þess og menningarframþróun varð á aldabilinu 700-1200 og næstu tvær aldirnar á eftir gætti áhrifa anasazi- og Mexíkómenningar verulega.  Þau komu aðallega fram í þéttingu víggirtra byggða með einnar eða tveggja hæða fjölherbergjahúsum.  Fá merki um viðskipti og áhrif frá Norðvestur-Mexíkó hafa fundizt.  Meðal afkomenda hohokamfólksins eru ættkvíslar pima- og papagofólks.

Pueblomenningin.  Pueblofólkið og menning þess er beztþekkt og rannsökuð, þótt margt eigi vafalaust eigi enn þá eftir að koma í ljós.  Forfeður þessa folks byggðu stórkostlegar hellabústaði, margra herbergja einbýli grafin inn í mjúk jarðlög og úr sólþurrkuðum leirsteini.  Afkomendurnir tala enn þá tungu, sem var töluð áður en Spánverjar komu til skjalanna (kringum 1500).

Uppruni þessarar menningar á 1. öld e.Kr. er óljós.  Hefðbundið skipulag ofanjarðarhúsa úr trésúlum, tágum og leir, byggðra í beinni eða sigðlaga línu, hélt velli þar til sólþurrkaður múrsteinn tók við sem byggingarefni.  Ræktunin byggðist á nokkrum afbrigðum maís auk staðbundnu afbrigði af langleggjaðri baðmullarjurt.  Leirmunagerðin tók ekki miklum breytingum í aldanna rás, helzt í þó í nýjum formum og skreytingum.  Gerð íláta úr tágum var óalgengari.

Árabilið 1050-1300 er kallað klassíska pueblotímabilið, sem einkenndist af klettahýsunum (Mesa Verde, Chaco-gljúfrið og víðar).  Byggð þéttist, þegar fólkið innan svæðanna færði sig nær hvert öðru og byggði sér stærri bústaði.  Áherzla á val illaðgengilegra staða í klettagljúfrum til útgraftar bústaða bendir til þess, að óvinveitt aðkomufólk hafi setzt að í nágrenninu.  Gleggstu merkin um framþróun koma fram í gerð leirmuna og byggingarstíl.  Einnar til fjögurra hæða bústaðir með þykkari og burðarmeiri múrveggjum voru víða reistir og fjöldi herbergja var á milli 20 og 1000.  Hvert hinna stóru húsa var í rauninni sérstakt þorp.  Gluggar og dyr voru þröngar og víðast voru jarðhæðir oplausar og aðalinngangar voru um þak hosanna um tréstiga, sem mátti draga upp á eftir sér.  Hæðirnar voru inndregnar með veröndum, sem voru notaðar til útiveru.  Burðarmikil þökin voru byggð úr þykkum sperrum með þéttum þverbitum og hrísi undir 15-20 sm lagi af sólþurrkuðum múrsteinum.  Sums staðar eru hálfniðurgrafnir hátíðarsalir allt að 25 m í þvermál (kiva).  Þegar leirkeragerðin náði sér bezt á strik, þróuðust staðbundin sérkenni (Chaco-gljúfrið, Mesa Verde, Kayenta o.fl.), sem eru auðgreinanleg.  Þá komu fram marglitar leirmunaskreytingar í stað svart- eða rauðhvítra.  Baðmullarteppi og töskur voru ofnar og júkkutrefjum var bætt í vefnaðinn (mottur o.fl.).  Hlýjir kuflar úr fjöðrum voru notaðir í köldu veðri.

Pueblotímabilinu lauk, þegar íbúar klettabústaðanna og stóru fjölbýlishúsanna hurfu á brott.  Meðal ástæðna þess kann að vera framrás atabaskahirðingjanna (navajo og apache) inn á norðurhluta svæðisins og langvarandi þurrkar á síðari hluta 13. aldar.  Einnig er mögulegt, að losaralegir stjórnarhættir hafi valdið innbyrðis ágreiningi.

Næsta tímabil miðast við aldirnar 1300-1700.  Það einkenndist af fólksflutningum suður og austur á bóginn, nýjum þorpum, sumum stærri en fyrrum puebloþorpin, við Litlu-Kólóradóána, Rio Grande,  Puerco, Verde, San Franscisco, Pecos, Efri-Gila og Saltá.  Leirmunir frá þessum tíma sýna nýja þróun.  Skreytingar þeirra byggðust á flatarmálsfræði í stað fugla, dýra, skordýra og mannamyndum og oft voru leirmunirnir glerjaðir.  Nýja puebloskeiðið er oftast miðað við upphaf fastar búsetu Spánverja í lok 17. aldar.  Frá 1540, þegar Spánverjar komu fyrst til landa pueblofólksins, hnignaði byggðum þeirra verulega, þótt mestur hluti menningar þess, ræktunarþekkingar og handverks hafi varðveitzt til okkar daga.

Þróun samtímamenningar.  Hin fjölbreytta menning indíána hefur lifað fram á okkar daga.  Eftir komu Evrópumanna hurfu sumir ættbálkar vegna samruna, urðu sjúkdómum að bráð eða var hreinlega útrýmt í blóðbaði, þannig að mörg tungumál þeirra glötuðust.  Indíánum tókst misvel eða illa að semja sig að venjum og menningu Evrópumanna og margir ættbálkar þeirra í Norður-Mexíkó héldu sínu striki, þrátt fyrir aðsteðjandi áhrif.

Helztu nýlenduveldin lögðu áherzlu á mótun stefnu í málefnum indíána.  Spánverjar voru iðnir við kristniboð og að breyta lífsháttum þeirra.  Skipanir voru gefnar út um sameiningu þorpa og skipulagningu stórra miðstöðva og indíánarnir voru fullvissaðir um, að þeir glötuðu ekki lendum sínum.  Þetta voru fyrstu tilraunir til að koma verndarsvæðum indíána á fót.  Ekki var staðið við loforð um eignarhald þeirra á landi, því Spánverjar lögðu hvern lófastóran blett undir sig.  Margir indíánar, sem óttuðust þessa þróun, flúðu til fjalla en misstu lönd sín engu að síður.

Rússar létu lítið til sín taka í landnámi Nýja heimsins.  Pétur I hinn mikli, Rússakeisari, sendi Vitus Jonassen Bering yfir hafsvæðið, sem ber nafn hans, í vísindaleiðangur en ekki til að sölsa undir sig land.  Síðar komu upp vandamál við varnir rússneskra byggða og jafnvel útbreiðslu þeirra og málið var lagt fyrir Katrínu II hina miklu árið 1769.  Hún leysti úr því með því að lýsa kaupmenn ábyrga fyrir landnáminu í Norðvestu-Ameríku og kvaðs ekki vilja leggja til mannafla, skip eða fjármuni og ákvað, að Rússland hefði ekki áhuga á landvinningum í Austur-Indíum eða Ameríku.

Tilraunir Svía og Hollendinga til landnáms voru svo skammvinnar, að áhrif þeirra voru lítil.  Samt sem áður voru Hollendingar líklega fyrstir til að gera samning við ættbálk indíána, mohawk.  Þeir greiddu þannig leið Englendinga í Nýja heiminum og öflugra veldis þeirra en Frakka í Norður-Ameríku.

Frakkar hengdu sig í snöru lénsveldisins, sem þeir fluttu með sér til Ameríku var ákaflega letjandi fyrir landnemana.  Þeir kusu flestir fasta búsetu á eigin landi.  Allan yfirráðatíma Frakka var meiri áherzla lögð á verzlun en landvinninga og þróun, þannig að samneyti franskra yfirvalda í Ameríku beindist mest að viðskiptasamningum við indíánana.  Þeir buðu öllum höfðingjum ættbálka, sem þeir höfðu viðskipti við, til Montreol ár hvert, þar sem landstjórinn hélt hástemmdar ræður um vináttutengs og útbýtti gjöfum.  Landstjóri Louisiana átti fundi með indíánum í suðurhlutanum í Mobile.  Englendingar voru tregir til að beita sömu aðferðum en urðu að beita þeim vegna samkeppninnar.  Síðar urðu bandarískir friðarboðar ríkisstjórnarinnar að lofa indíánum föstum, árlegum greiðslum fyrir land, sem þeir létu af hendi.

Englendingar lögðu megináherzlu á landvinninga og fasta búsetu.  Strax í upphafi töldu þeir nauðsynlegt að komast að samkomulagi við indíánana um afnot lands.  Plymouth-landnemarnir, sem komu án samþykkis ensku krúnunnar, fundu sig knúða til að gera samninga við Massachuset-indíánana.  Cecilius Calvert (2. barón Baltimore) og William Penn, sem fengu konungsbréf um eignarhald á landi í Maryland og Pennsylvaníu, gerðu engu að síður kaupsamninga við indíánana um þessi landsvæði.  Í flestum nýlendunum var bannað að leggja undir sig land indíána án opinbers leyfis.  Oftast fékkst það ekki fyrr en samkomulag hafði náðst við höfðingja viðkomandi ættbálka.  Snemma í þessu ferli voru tiltekin landsvæði tekin frá fyrir indíánana, s.s. í Virginíu 1656 og Nýja-Englandi árið 1658.  Árið 1685 samþykktu íbúar Plymouth-nýlendunnar rétt indíána til ákveðinna landsvæða, sem mátti ekki nýta til landnáms nema með leyfi þeirra.

Þrátt fyrir þessar tilraunir yfirvalda til réttargæzlu indíána, ollu ólögleg landnám stöðugum árekstrum.  Samkeppnin við Frakka, sem létu ekkert tækifæri ónotað til að benda indíánum á landagræðgi Englendinga, umsvif braskara utan landnámssvæðanna og sigursælar herferðir Pontiac, höfðingja ottawa-indíána, gegn Bretum í norðvesturhlutanum (við Vötnin miklu) í mótmælaskyni við framrás landnema til vesturs, ollu því, að ráðherrar Georgs III sömdu fyrstu yfirlýsingu (1763) um landréttindi indíána í sögu landnáms Evrópumanna í Nýja heiminum.

Í þessu skjali er skýrt kveðið á um bann við útgáfu landafsala á svæðum, sem indíánar gera tilkall til, nema með samningum og kaupum.  Yfirlýsingin segir, að indíánar eigi öll lönd og svæði frá upptökum ánna, sem renna frá vestri og norðvestri til sjávar.  Því var öllum einstaklingum óheimilt að eigna sér land vestan Appalachiafjalla nema að undangengnum samningum milli stjórnar hans hátignar, konungsins, og indíána.

Þessari stefna gilti til loka yfirráða Breta og Bandaríkjamenn tóku hana upp í kjölfarið.  Þrátt fyrir skýr lagaboð, héldu þúsundir landnema ólöglega yfir Appalachia-mörkin í frelsisstríðinu.  Þegar Frakkar í Kanada gáfust upp fyrir Englendingum árið 1760, tilkynnti stjórnin, að indíánar, sem höfðu stutt Englendinga, skyldu halda búsetusvæðum sínum, ef þeir kysu að búa þar áfram.  Síðar tók yfirlýsingin frá 1763 gildi í Kanada.  Lögin um Norður-Ameríku frá 1867, sem mörkuðu upphaf núverandi Kanada, kváðu á um yfirráð Kanadastjórnar yfir indíánum og landsvæðum þeirra.  Bæði BNA og Kanada mörkuðu því skýra stefnu í málefnum indíána, þótt minna yrði úr efndum.

Stefna BNA frá síðari hluta 18. aldar til síðari hluta 19. aldar.  Fyrsta velmótaða yfirlýsing BNA varðandi indíána kom fram í lögunum um Norðvesturhéruðin árið 1787.  Þar var indíánum m.a. heitið órofatrúnaði, virðingu fyrir rétti þeirra til eigna, öðrum réttindum og frelsi.  Þar var því heitið, að aldrei skyldi ráðist á þá og högum þeirra raskað, nema með lögheimildum.  Þar var heitið frekari þróun lagasetningar, sem tryggði þeim réttlæti og mannúð, til að fyrirbyggja órétt og til að tryggja frið og vináttu.  Þessar göfugu fyrirætlanir voru festar í lög 7. ágúst 1789 og voru meðal fyrstu verka þingsins samkvæmt stjórnarskránni.

Mikilvæg skilgreining á lagalegri og pólitískri stöðu indíána fékkst í dómi, sem John Marshall, dómari, felldi í málinu Worcester gegn Georgíuríki:  Indíánabyggðir skulu ætíð taldar sérstakar og sjálfstæðar pólitískar einingar með upprunalegum réttindum og ótvíræðir eigendur lands, sem þeir hafa byggt frá upphafi.  Túlkun þessa dóms á lögum um indíána segir ótvírætt að vanmegnugri aðili afsali sér ekki sjálfstæði og rétti til sjálfstjórnar í viðskiptum við hinn voldugri til að njóta verndar hans.  Slíkir samningar skuli tryggja hinum veikari framhald sjálfstæðis og sjálfstjórnar.

Fyrsta stóra frávikið frá stefnunni um réttindi indíána kom fram í lögum um brottflutning indíána árið 1830.  Þá beittu BNA indíána í fyrsta skipti þvingunum, einkum cherokee og seminole-ættbálkana.  Þau voru ekki hugsuð sem þvingunarlög, því þau fólu forseta landsins einum samningsrétt við ættbálkana austan Mississippifljótsins á grundvelli fullra bóta fyrir land, sem tekið var af þeim.  Þau gerðu ráð fyrir umbótum í þágu þeirra og þinglýstu eignarlandi vestan fljótsins.  Andstaða gegn þessum lögum var bæld niður með hervaldi.  Næsta áratuginn voru í kringum 100.000 indíánar fluttir vestur yfir fljótið.  Þessir atburðir urðu Alexis de Tocqueville að umtalsefni árið 1831, þegar hann sagði m.a.:  Evrópumenn héldu áfram að umkringja indíánana og halda þeim í skefjum á þröngum svæðum.  Indíánarnir biðu afhroð í samkeppni, sem þeir höfðu ekki bolmagn til að berjast gegn. Þeir voru einangraðir í eigin landi og kynþáttur þeirra varð að lítilli nýlendu vandræðaseggja í miðju voldugs ríkis.

Svæðin vestan Mississippifljóts voru ekki eins afskekkt og talið var á þessum tíma.  Gullfundir í Kaliforníu (1848) ollu upphafi nýrra samninga um lendur indíána, sem voru á leiðum til Kyrrahafsstranda.  Skyndileg umferð þúsunda vagnalesta um síðustu lendur indíána og stórslátrun villtra dýra á sléttunum og í fjöllunum, sem voru undirstaða fæðu indíánanna, leiddu til alvarlegustu indíánastríða sögunnar.  Í þrjá áratugi upp úr 1850 voru stöðugar árásir og skærur á vestursléttunum, þ.á.m. hin mannskæða orrusta milli liðs Custers og sioux- og cheyenne-indíána (1876), bardagi milli lonníettu Jósefs, höfðingja, við ofurefli herliðs BNA (1877) og langvarandi viðureignir við Geronimo, höfðingja chiricahua-indíána, þar til hann var handsamaður og stungið í fangelsi 1886.

Árið 1871 urðu straumhvörf eftir að Bandaríkjaþing hafði reifað indíánamálin árum saman.  Fram til þess tíma höfðu forsetar landsins gert samninga við indíána og borið þá undir þingið, sem samþykkti skuldbindingar um greiðslur til þeirra.  Margir þingmenn fulltrúadeildarinnar (fylgjendur Andrew Jackson) mótmæltu á þeim forsendum, að samningar við indíánana væru hrein heimska.  Öldungadeildin gaf eftir og samkvæmt lögum frá 3. marz 1871 voru indíánar og ættbálkar þeirra ekki viðurkenndir sem sérhópur eða hópar, sem ríkisstjórnir landsins yrðu að semja.  Málefni indíána voru falin þinginu.  Engu að síður héldu ættbálkarnir óskráðum rétti til að refsa fyrir minni háttar glæpi en fylkisdómstólar dæmdu í morð- og öðrum alvarlegum málum.

Róttækustu lög um málefni indíána voru úthlutunarlög Dawes árið 1887.  Um það leyti var búið að flytja indíána úr alfaraleið til lendna, sem þeir höfðu valið úr svæðum, sem þeir höfðu byggt áður.  Val þeirra var staðfest með samningum, lagasetningu eða beinum fyrirmælum forseta BNA.  Ættbálkunum, sem lifðu á veiðum á stórum svæðum, fannst verulega að sér þrengt.  Flestir þeirra höfðu krafizt árlegra greiðslna eða matarbirgða og opinberir umboðsmenn þeirra höfðu fúslega gengið að kröfunum vegna landsvæða, sem voru rýmd.  Með tímanum komst fólk á þá skoðun að búsetan á verndarsvæðunum leiddi til leti og drægi úr aðlögun indíána að bandarísku samfélagi.  Lögð var til lagasetningu um skiptingu verndarsvæðanna milli einstaklinganna þar, hvort sem þeir vildu eða ei.  Þessir einstaklingar eða fjölskyldur skyldu ávinna sér búseturétt á 25 ára tímabili til að fá afsal fyrir eigninni.  Það átti að tryggja þeim allan rétt og skyldur sem ríkisborgarar.  Forseti landsins mátti ráðstafa afgangslandi til annarra en indíána, sem fengju þó umbun fyrir.

Alls var 118 verndarsvæðum skipt á þennan hátt en árangurinn varð ekki að vonum.  Skiptingin kostaði indíána 34.800 ferkílómetra lands, sem voru 62% flatarmáls upprunalegu verndarsvæðanna fyrir 1887.  Afleiðingin var kynslóð landlausra indíána, sem höfðu enga verkmenntun.  Skiptingin leiddi ekki til þróunar landbúnaðar, aðallega ræktunar, eins og að var stefnt.  Fjölskyldur indíána tvístruðust og samfélagskerfi þeirra var lagt í rúst.  Þeir glötuðu smám saman tengslum við menningu sína og ekkert kom í hennar stað.  Þessar ráðstafanir voru ferð án fyrirheits.

Eftir miðja 19. öldina fækkaði indíánum stöðugt.  Í Kaliforníu fækkaði þeim úr 100.000 árið 1853 í 30.000 til ársins 1864. og 19.000 árið 1906.  Árið 1849 lagði kólera fjölda pawnee-indíána að velli á miðsléttunum.  Á tímabilinu 1870-71 geisaði bólusótt meðal blackfeet-, assiniboin- og cree-indíána.  Lögin, sem voru sett 1871 og 1887 voru sett í þeirri trú, að indíánaþjóðin yrði útdauða, svo að ekki þótti tiltökumál að hafa þá ekki með í ráðum.  Það þyrfti hvort sem er ekki að hafa áhyggjur af komandi kynslóðum þeirra.  Eftir 1920 varð ljóst að fjöldi indíána hafði staðið í stað um nokkurra ára bil og sums staðar fjölgaði þeim, var Bandaríkjastjórn úrræðalaus í málefnum þeirra.

Stefnumörkun á 20. öldinni.  Árið 1926 leiddi rannsókn í ljós sorgarsögu undanfarinna fjörutíu ára.  Hún staðfesti að flestir indíánar væru tæpast matvinnungar, heilsulausir, ómenntaðir og gætu lítt lagað sig að hinu nýja samfélagi.  Með þetta að leiðarljósi og knýjandi þörf fyrir umbætur samþykkti þingið lög um endurskipulagningu árið 1934, sem drógu úr afskiptum stjórnvalda af málefnum indíána og efldu sjálfstæði þeirra og skyldur.  Aðalatriði þessara laga fólu í sér (1) bann við frekari skiptingu verndarsvæða í framtíðinni nema ættbálkarnir ákvæðu slíkt sjálfir, (2) ættbálkarnir skyldu ráðstafa afgangslandi sjálfir, (3) þeir mættu lögfesta eigin stjórnarskrár um eigin málefni og (4) sjóðir voru stofnaðir til styrktar landakaupa, til menntunar og félagsmála.  Indíánum var heimilt að hafna eða samþykkja þessi lög með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Viðbrögð indíána við þessum lögum voru skýr vitnisburður um óskert þjóðarstolt þeirra, þrátt fyrir eymdina.  Næstum 160 ættbálkar, sérhópar og byggðir í Alaska sömdu og komu sér upp eigin stjórnarskrá.  Sumar stjórnarskránna sameinuðu forna siði og venjur og nútímalegar þingræðisreglur.  Styrktarsjóður gerði þeim kleift að koma sér upp hjörðum nautgripa og bæta efnahagsstöðu sína á fleiri sviðum.  Lántakendur voru aðallega fyrirtæki ættbálkanna, bankar þeirra og samvinnufélög, sem skiptu síðan fjármagninu milli einstaklinga og fjölskyldna.  Stjórn BNA lagði einnig verulegar upphæðir til eflingar menntunar og heilsugæzlu.

Upphaflega skiptu bandarísk yfirvöld sér ekki af málefnum indíána.  Í kjölfar laga, sem voru sett um innbyrðis málefni þeirra árið 1871, komu heilu lagabálkarnir á færibandi.  Sama ár og lögin um endurskipulagninguna voru samþykkt, felldi þingið úr gildi 12 lög, sem gerðu yfirvöldum kleift að halda indíánum eins og föngum á verndarsvæðunum, þannig að eftirleiðis fóru þeir frjálsir ferða sinna eins og aðrir.  Snyder-lögin frá 1924 færðu öllum indíánum, fæddum í BNA, borgararéttindi en fáir indíánar færðu þau sér í nyt, þannig að mörg fylki virtu ekki rétt þeirra.  Skipulagning innbyrðis stjórnkerfa meðal indíána eftir að lögin um endurskipulagninguna tóku gildi virðist hafa vakið áhuga  þeirra á borgararéttindum sínum og þeir fóru að krefjast þeirra í auknum mæli með góðum árangri í flestum tilfellum.  Arizona og Nýja-Mexíkó þrjóskuðust við þar til löngum málaferlum lauk 1948.

Fylkisdómstólar voru indíánum hliðhollir í málum, sem fjölluðu um eignarrétt þeirra, og kváðu skýrt á um, að ekki væri heimilt að taka af þeim land, hvort sem um það gilti samningur eða ekki, nema í eðlilegum viðskiptum.  Í máli, sem hualapai-indíánar höfðuðu gegn Santa Fe-járnbrautarfélaginu árið 1944, varð því gert að skila u.þ.b. 193.000 ferkílómetrum lands, sem Bandaríkjastjórn hafði afsalað félaginu.  Þessi landsvæði höfðu verið bústaður indíána frá alda öðli án nokkurra samninga og hæstiréttur úrskurðaði, að þau væru réttilega eign indíána, sem gætu sannanlega staðfest búsetu þar um aldir.  Á sjötta áratugnum fengu ute-indíánar US$ 31.750.000.- í bætur fyrir lönd, sem þeir misstu án nægilegra bóta.  Sérstök kröfunefnd indíána, sem var stofnuð með lögum 13. ágúst 1946, fékk fjölda landakrafna á hendur ríkinu og veitti bætur til m.a. cherokee-indíána (US$ 14.789.000.-), crow-indíána (10.242.000.-), snáka-paiute-indíána í Oregon (3.650.000.-), nez-percé-indíána (3.000.000.-) og seminole-indíána (12.300.000.-).

Á tímabilinu 1950-70 lögðu stjórnir BNA áherzlu á stefnumörkun í málefnum indíána, sem gerðust æ meðvitaðri um rétt sinn og raddir þeirra urðu háværari.  Fyrstu breytingar til batnaðar urðu 1954, þegar innanríkisráðuneytið hætti afskiptum af verndarsvæðum, sem voru fær um að gera það á eigin spýtur.  Á árunum 1954-60 hætti ríkið stuðningi við 61 ættbálk með óæskilegum afleiðingum.  Nokkrir sárafátækir hópar indíána misstu allmikið land til einkaaðila, sem hófu nýtingu þess og vatnsbirgða svæðanna.  Í sumum fylkjanna féllu indíána undir sérlög þeirra, sem voru oft óvægilegri en alríkislög.  Vegna mótmæla indíána, mannfræðinga og annarra var dregið úr þessari þróun árið 1960.  Næsta ár tók mannfræðingur við umboðsmálum indíána.  Aðstoð ríkisins var aukin verulega og næsta áratuginn nutu æ fleiri indíánar ráðstafana, sem gerðu þeim kleift að sjá sér farborða, þótt atvinnuleysi meðal þeirra væri áfram alvarlega mikið.

Amerískir indíánar nutu vaxandi, almennrar athygli á síðari hluta 20. aldar fyrir tilraunir sínar (ásamt fleiri minnihlutahópum) til að skapa sér betri lífskilyrði.  Þeir fylgdu fordæmi svartra Bandaríkjamanna í kröfum um réttdindi á 7. áratugnum.  Indíánar vöktu athygli á málstað sínum með fjöldafundum og mótmælum.  Einhverja mestu athygli fengu aðgerðir þeirra í San Franscisco, þegar þeir lögðu Alcatrazeyju undir sig í 19 mánuði (1970-71).  Þar voru á ferðinni félagar í AIM (American Indian Movement) og þeir lögðu síðan undir sig byggðir sioux-indíána í Oglala Sioux Pine Ridge í Suður-Dakóta (feb. 1973).  Þar kom aftur til átaka milli hvítra og indíána við Wounded Knee.  Árið 1971 stofnuðu indíánar félag ættbálkahöfðingja til að styrkja pólitískar undirstöður hreyfingarinnar.  Rúmlega 100 ættbálkar gerðust aðilar.

Leiðtogar indíána juku umsvif sín í dómskerfinu, þar sem hver úrskurðurinn rak annan um auðlindanýtingu (fiskur, villt dýr, skógar, spilavíti o.fl.).  Langflest málanna, sem voru rekin fyrir dómstólum, fjölluðu um veraldlegan rétt indíána en nokkur þeirra byggðust á fornum helgisiðum og trúarlegu mikilvægi landsvæða, sem þeir kröfðust.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM