Caracas Venesúela,
Flag of Venezuela

MEIRA um CARACAS

CARACAS
VENESÚELA

.

.

Utanríkisrnt.

Caracas er ein helztu borga Suður-Ameríku og höfuðborg Venesúela.  Hún er langstærst borga landsins og aðalmiðstöð iðnaðar, viðskipta, menntunar og menningar.  Hún var stofnuð árið 1567 undir nafninu Santiago de León de Caracas og stækkaði hægt þar til á fimmta áratugi 20. aldar.  Þá tók hún slíkan fjörkipp að hans gætti í afskekktustu héruðum landsins.  Caracas er setur stjórna landsins og samnefnds héraðs (1930 km²).  Borgin nær út fyrir mörk héraðsins, þannig að nokkuð stór hluti hennar er í Miranda-héraði, sem liggur að henni austan- og sunnanverðri.

Landfræðileg lega hennar er stórkostleg.  Brött strandfjöllin gnæfa yfir hana og Karíbahafið og gefa lítinn kost á frekari útfærslu hennar.  Handan þessa fjallamúrs, 11 km sunnar, breiðir borgin úr sér í dalverpi.  Hæð miðborgarinnar yfir sjó er 922 m og dalurinn teygist 25 km milli austurs og vesturs.  Næstum allt þetta búsetuhæfa svæði liggur undir borginni, þannig að dalurinn, sem var fyrrum grænn og búsældarlegur, er nú strikaður götum og þjóðvegum.

Borgarstæðið.  Andesfjöllin teygjast til austurs frá Kólumbíu um allan norðurhluta Venesúela til eyjarinnar Trinidad.  Borgin er í hálendum sigdal í fjallgarðinum, þannig að hún er umlukin fjöllum.  Cordillera del Litoral, rúmlega 2600m á Pico Oriental og rúmlega 2100 m á El Avila, gnæfir yfir borginni og takmarkar vöxt hennar til norðurs.  Serranía del Interior í suðri eru lægri en engu að síður hrjúf  útlits.  Aðalafrennsli dalsins er áin Guaire, sem var eitt sinn stór en nú lítil vexti og mjög menguð.  Helzta þverá hennar í borginni er Río El Valle (einnig Quebrada Baruta, Quebrada Anauco o.fl.).

Loftslag og flóra strandfjallanna er mismunandi og flókin fyrirbæri.  Hiti lækkar að öllu jöfnu með aukinni hæð yfir sjó og úrkoma og loftraki er mikill áveðursmegin (austanmegin).  Hæðin yfir sjó ræður mestu um loftslagið í borgardalnum.  Hitastið sveiflast milli 7°C og 33°C.  Meðalárshitinn er 21°C.  Í La Guaira við sjávarmál er mismunur milli kaldasta mánaðarins (janúar) og hins heitasta (maí) aðeins 1°C, sem er talsvert minna er dægursveiflurnar.  Meðalársúrkoman er 813 mm og mest rignir milli maí og nóvemberloka, eða rúmlega 80% úrkomunnar.  Þá ríkir mjög rakt og heitt veður í borginni.  Á þurrkatímanum frá desember til aprílloka er himinn oftast heiður og hitinn þægilegur.

Há og brött fjöllin í norðri eru tíðast hulin skýjaþykkni.  Þau eru allgróin, með talsverðum skógaleifum, og græn allt árið.  Smáleifar upprunalegs gróðurs eru varðveittar í skemmtigörðum borgarinnar og víða í öðrum görðum, s.s. Jardín Botánico.  Þar sem hlíðar eru gróðurlausar, er eyðing jarðvegs mikið vandamál.  Fyrrum voru taldar rúmlega 100 tegundir fugla í dalnum, en þeim hefur fækkað verulega.

Aðalborgarhlutinn er við vesturjaðar dalsins við hæðina Parque El Calvario, þar sem er gott útsýni yfir borgina á góðum degi.  Í kringum Bolívartorg eru margar sögulegar byggingar frá nýlendutímanum, Dómkirkja Caracas, þinghúsið, ráðhúsið, fæðingarhús Simón Bolívar og Mirafloreshöllin, sem er bústaður forseta landsins.  Skammt þaðan er grafhvelfing Simón Bolívar og annarra þjóðhetja landsins, Panteon Nacional.  Tvíburaturnar Centro Símón Bolívar eru líka í grenndinni.  Þessir 30 hæða turnar voru hæstu byggingar landsins og hýsa ýmis ráðuneyti.

Miðstöð stjórnsýslu og viðskipta færist stöðugt lengra til austurs í átt að Parque Central og Venesúelatorgi.  Þessi borgarhluti er í kringum minnismerki Kristófers Kólumbusar en skýjakljúfarnir þar eru meira áberandi.  Þar eru líka háir tvíburaturnar, sem eru meðal hæstu bygginga álfunnar (62 hæðir).  Bygging þeirra hófst árið 1971 og þeir gnæfa 199 m yfir umhverfið.  Þeim var ætlað að hýsa helztu stjórnarskrifstofur landsins og uppi á þeim eru þyrlupallar.  Útsýnið af þeim yfir dalinn er óborganlegt.  Í næsta nágrenni eru margir áhugaverðir staðir eins og grasagarðurinn (Jardín Botánico), nokkur söfn, Los Caobos-garðurinn og Venesúelaháskóli (Univerxidad Central de Venezuela).  Lengra til austurs er Caracas Country Club, garðurinn Parque Nacional del Este og Francisco de Miranda-flugvöllurinn.  Borgin hefur einnig stækkað til suðurs yfir hæðirnar meðfram ánni að Guaire-ánni.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM