Venesúela íbúarnir,
Flag of Venezuela


VENESÚELA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Á nýlendutímanum voru ræktanleg svæði numin fyrst og bæir og borgir þróuðust sem markaðir og dreifingarmiðstöðvar fyrir afurðirnar.  Skammlífar byggðir mynduðust þar sem gull fannst uppi í fjöllum.  Íbúafjöldi strjálbýlisins var alltaf smár í sniðum og dreifður vegna skorts á ræktanlegu landi og beitilandi.  Sjúkdómar, sem bárust með skordýrum, drógu úr landnámi Orinoco-svæðisins og á öðrum láglendissvæðum meðfram ánum.  Byggðin uppi á hálendinu hefur ætíð verið þéttust, því þar er loftslagið þægilegra og minna var þar um faraldra malaríu og annarra sjúkdóma.  Það voru einkum borgirnar uppi í Andesfjöllum, sem urðu miðstöðvar landbúnaðarsvæða og viðskipta, menningar og breytinga og stjórnsýslusetur.  Þær döfnuðu vegna viðskipta með húðir, kakó og litunarefni (indigo).

Eftir aldarlangt sjálfstæði, sem hófst 1830, urðu hafnarborgirnar æ mikilvægari og vægi Caracas óx sem miðstöð valda, stjórnsýslu og auðsöfnunar.  Hnignun varð í strjálbýlinu norðanlands samtímis útflutningi hráefna, innflutningi neyzluvöru og matvæla og aðlögun að nútímatækni í Caracas og La Guaira (símskeyti, simi, sporvagnar og járnbrautir).  Íbúafjölgun var hæg í þéttbýli og strjálbýli, m.a. vegna sjúkdóma, náttúruhamfara og efnahagslegrar stöðnunar, sem dró úr aðstreymi innflytjenda.

Þéttbýlismyndun hefur verið og er enn þá ójöfn.  Hún hefur verið takmörkuð við Caracas og á árunum 1920-40 varð hún aðallega á norðurhálendinu.  Olíufundur á Maracaibo-láglendinu á fjórða og fimmta áratugnum olli nokkrum fólksflutningum frá Andessvæðinu og frjósöm landbúnaðarsvæði (Barquisimeto, San Cristóbal og Barcelona) döfnuðu.  Stór-Caracas var áfram þungamiðja aðstreymis fólks úr öðrum landshlutum og löndum.

Nú búa rúmlega 75% íbúanna í þéttbýli (>40% í fjórum stærstu borgunum).  Auk allra, sem koma réttar leiðir til borganna, hafa óskráðir, ólöglegir innflytjendur setzt þar að.  Í kringum sjöttungur íbúanna býr í fátækrahverfum Stór-Caracas.  Næststærsta borg landsins er Maracaibo og næstar koma Valencia og Barquisimeto, allar í norðurhluta landsins.  Á austanverðu hálendinu hefur Ciudad Guavana við Orinoco-ána stækkað hratt. 

Hvergi annars staðar í Latnesku-Ameríku var þéttbýlismyndun jafnhröð og í Venesúela á árunum 1940-70.  Á fimmta áratugnum olli þessi þróun mikilli röskun og landauðn í strjálbýlinu.  Flóttinn þaðan var svæðisbundinn, þannig að sums staðar varð fólksfjölgun, þegar hafði tekizt að vinna bug á landlægum farsóttum.  Á frumárum olíuvinnslunnar féll landbúnaðurinn í skuggann og var vanræktur.  Ágóðinn af honum var ekki eins fljót- og auðfenginn og gæðum landsins var misskipt.  Stóru búgarðarnir voru vannýttir og smábændur ofnýttu skikana sína.  Unga fólkinu fannst landbúnaðurinn vera gamaldags og tækifæralaus og tók búsetu í borgunum framyfir hann.  Íbúafjöldi borganna tvöfaldaðist á tímabilinu 1940-49 og óx jafnt og þétt á sjötta áratugnum, þannig að æ meiri fjármunum var varið til félagslegra íbúða, þótt það tækizt engan veginn að halda jafnvægi.  Flestir fátæklingar urðu að byggja sér hreysi og innstreymi ólöglegra innflytjenda (aðallega frá Kólumbíu) í fjallahlíðarnar umhverfis stóru borgirnar var gífurlegt.  Svo virðist sem yfirvöld hafi gefizt upp og sætti sig við þessi skúrahverfi fátækra sem óumflýjanlegar afleiðingar þessarar miklu fjölgunar. 

Þjóðerni.
Venesúela er innflytjendaland.  Aðeins 2% íbúanna eru innfæddir indíánar.  Fjölmennastir (69%) eru pardo, sem eru kynblendingar indíána, Afríkumanna og Evrópumanna.  Hvítir menn eru 20% íbúanna og svartir 9%.  Líklega eru 25% núverandi (2000) íbúa landsins innflytjendur, bæði löglegir og ólöglegir.  Hópar innfæddra og annarra kynþátta skiptast nokkuð greinilega milli landshluta.  Hvítir og mestizos (kynbl. hvítra og indíána) eru aðallega í helztu borgum landsins.  Minnihlutahópar indíána hafast við á afskekktum slóðum inni í landi, s.s. á Guiana-hálendinu og í skógunum vestan Maracaibo-vatnsins.  Negrar og múlatta-mestizo-hópar eru mest áberandi á ströndum Karíbahafsins.  Talsverður útlitsmunur er milli mestizo á láglendi og uppi á hásléttunni, sem gefur til kynna mismunandi blöndun við Spánverja.

Iníánaættbálkarnir tala rúmlega 25 tungumál.  Flest þeirra eiga uppruna sinn að rekja til þriggja tungumálaflokka, karabísku, tungu arawaka og chibcha.  Spænska er þjóðtunga langflestra þeirra en hún hefur orðið fyrir svæðisbundnum áhrifum og íbúar landsins hafa einfaldað notkun sagna og viðhaldið mállýzkuvenjum frá Íberíuskaga í málinu, ólíkt því sem gerist í öðrum löndum Latnesku-Ameríku.  Í Caracas og öðrum aðalborgum er enskan mikið notuð í viðskiptum og einkaskólar í höfuðborginni hafa hvatt nemendur sína til að læra a.m.k. eitt erlent tungumál fullkomlega.  Enskan er einnig mikið notuð í olíuiðnaðnum og hún er langalgengasta erlenda tungan, sem töluð er í landinu.

Trúfrelsi
er tryggt í stjórnarskránni og umburðarlyndi í trúmálum er almennt, þótt rúmlega 90% íbúanna játi rómversk-katólska trú.  Margir trúflokkar mótmælenda starfa í landinu auk múslima og gyðinga.  Nokkrir ættbálkar indíána ástunda trú forfeðranna, þótt sumir þeirra séu opinberlega katólskir.  Rómverska kirkjan starfar ekki á pólitískum vettvangi en hefur engu að síður beitt sér æ meira fyrir félagslegum umbótum í landinu.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM