Margarita Venesúela,
Flag of Venezuela


MARGARITA
Isla de Margarita

VENESÚELA

.

.

Utanríkisrnt.

Margarita er ein Antilleyjanna (Hléeyja) og tilheyrir Venesúela (Nueva Esparta-héraði).  Flatarmál hennar er 1.150 km² og íbúafjöldi u.þ.b. 100.000.  Höfuðstaðurinn heitir La Asuncíon og tungu-málið, sem talað er á eyjunni er spænska.

Flugsamgöngur og bátsferðir milli Guaira (Caracas) um Trinidad eða Curaçao og Margarita.

Margarita er stærst hinna suðlægari venezuelsku Hléeyja.  Hún ásamt eyjunum Coche og Cubagua mynda héraðið Nueva Esparta.  Eyjan liggur 40 km fyrir norðan strönd Venesúela.

Eiginlega er hún mynduð af tveimur eyjum, sem tendar eru með 25 km löngu eiði, Istmo Restinga.  Sunnan við eiðið er lónið Albufera de la Restinga.  Flestir íbúanna búa á austurhlutanum, sem er hin raunverulega eyja Margarita.  Vesturhlutinn er óbyggður, ef frá er talið eitt þorp.  Hæsti hluti eyjarinnar, Pico San Juan (920 m), er á austurhlutanum.

Kólumbus fann eyjuna árið 1498 og fljótlega fóru Spánverjar að nýta sér ostrumiðin við Cubagua í perluleit.  Bærinn Nueva Cadiz á Cubagua, sem eyddist í flóði miklu á 18.öld, hefur verið grafinn upp að hluta til.  Ferðaþjónustu vex stöðugt fiskur um hrygg og fyrir hvatningu frá yfirvöldum hafa íbúarnir tekið til við perluveiðar á ný.

Litli höfuðstaðurinn La Asunción með lágreistum íbúðarhúsum, kirkjum og virkinu Santa Rosa minnir á nýlendutímann.

Aðalmiðstöð ferðamanna er hafnarbærinn Porlamar á suðurströndinni.  Þangað koma helzt Venesúelar og flestir um helgar.


Coche og Cubagua og Margarita eru einu byggðu eyjarnar í eyjaklasanum.  Cubagua er þekkt fyrir perluveiðarnar og uppgrafnar rústir spænsku byggðarinnar í Nueva Cadiz.

Eyjan Tortuga og eyjaklasinn Los Testigos, austan og vestan Margarita, er óbyggður, en notaður sem beitiland fyrir geitur.  Þær hafa næstum útrýmt skóglendinu, sem þar var eitt sinn.

Flestar eyjar í norðanverðum eyjaklasanum eru óbyggðar, s.s. Los Hermanos, La Blanquilla, Orchila, Los roques og Las Aves.  Á mörgum þeirra eru stórar varpstöðvar sjófugla og á 19.öld var víða stundað gúanónám.


Isla Aves er nyrzt eyjanna.  Hún er í næsta nágrenni við eyjuna Dominica.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM