| 
           
                    
                    Mjó
      strandsléttan (víða 32 km breið syðst) er aðallega árframburður. 
      Hún breikkar til norðurs í allt að 165 km og þar ber líka á
      kalki og sandsteini.  Norðan
      vestasta hluta landsins, Lopez-höfða, er ströndin vogskornari. 
      Benguela-straumurinn, sem liggur til norðurs og myndar sandrifin
      á sunnanverðri ströndinni, hefur ekki sömu áhrif norðan höfðans. 
      Inni í landinu eru granítsléttur, sem teygjast aðallega til suðausturs
      og hækka úr 300 m í 600 m yfir sjó. 
      Vestar og norðar eru Kristalfjöll, sem árnar hafa grafið í
      sundur og skilið frá vesturhluta sléttunnar. 
      Í suðri rennur Ogooué-áin um
          sandsteinssöðul áður en hún rennur um láglendið að granítmyndunum 
          Ogooué, sem rísa upp í u.þ.b. 960 m hæð (hæsti tindur er Iboundji, 980 
          m). 
           
          
                    
        Þarna
      ríkir hitabeltisloftslag árið um kring og loftraki er mikill. 
      Úrkoman er mismunandi, allt frá 3050 mm í Libreville til 3810 á
      norðvesturströndinni.  Mesta úrkoman er á tímabilinu október til maí. 
      Frá júní til september er lítil sem engin rigning en loftrakinn
      er samt mikill.  Árstíðasveiflur
      hita eru sáralitlar og daglegur meðalhiti er í kringum 27°C. Hitabeltisskógur
      þekur u.þ.b. 75% landsins.  Þar
      er að finna rúmlega 3000 tegundir plantna, þ.m.t.
      Okoume-harðviðartré,
      sem eru aðalundirstaða iðnaðar í landinu. 
      Meðal dýrategunda í skóginum eru antilópur, apar, górillur,
      fjöldi fuglategunda og nokkur afbrigði af fílum.  |