Mombasa eyja Kenja,

Meira um Mombasaeyju      

MOMBASAEYJA
KENJA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fyrir Krists burð var Mombasa kölluð Tonika, sem hæfir aðalhafnarborg og aðalafþreyingar- og afslöppunarstað Kenja.  Borgin hefur strax slakandi áhrif á helgarleyfisfólk frá Næróbí eða annars staðar að, þegar hún kemur í ljós ofan af hæðunum í vestri.  Fyrrum hafði hún sömu áhrif á alla, sem áttu þarna leið um og voru jafnvel lengra að komnir.  Winston Churchill brást ekki málsnilldin árið 1908:  „Það er töfrandi, jafnvel yndisleg sýn að sjá Mombasa birtast, rísa úr sjó, og klæðast froðu og litum, þegar nálgast er á hraðfara skipi.”  Nú koma flestir loftleiðina en yfirsýnin úr lofti hefur sömu áhrif.  Orð Churchills standa enn þá fyrir sínu, en „það er bezt að koma að borginni úr norðri til að allir þessir töfrar nái hámarksvirkni.”  Og það gera flestir ferðamenn, u.þ.b. 250.000 frá Þýzkalandi, Bretlandseyjum og Norðurlöndum.

Sjóleiðin til Mombasa er orðin illfær ferðamönnum.  Flutningaskip, sem fara frá Evrópuhöfnum, hafa fæst rými fyrir farþega.  Beztu möguleikarnir eru að taka sér far með skemmtiferðaskipi eða „dhow” frá einhverri höfn við Persaflóa.

Mombasa er deigla allra þjóðflokka og allrar menningar strandbúanna, hvort sem þeir eru innfæddir, nýlendu-búar eða aðfluttir og svo bætast ferðamennirnir við.  Straumur úr sveitinni og öðrum löndum meginlandsins vex stöðugt.  Mombasa er bragðmikil og krydduð borg, borg farmannsins.  Hún er heit, einkum þegar sólin er í hvirfilsstað frá miðjum morgni til miðs síðdegis og borgin fær sér hádegislúr.

Landfræðingurinn Ptolemy setti Tonika (Mombasa) á kort sitt árið 150 e.Kr. og flestar nágrannaþjóðir, sem stunduðu verzlun áttu erindi þangað fram til 1528, þegar Portúgalar tóku völdin.  Hálfri öld síðar urðu þeir að láta undan síga fyrir tyrkneska soldáninum Ali Bey en þeir komu aftur og tóku borgina með her málaliða af þjóðflokki mannætna, Simba.  Þeir byggðu hið trausta virki Jesús og voru um kyrrt í heila öld þar til arabískum Ómanaher tókst að svelta þá með umsátri.  Allt fram undir lok 19. aldar var borgin útvörður islam undir stjórn Mazruifjölskyldunnar og síðan soldánanna í Óman og Sansibar.  Kristinboð hófst á ný 1845 með komu tveggja mótmælendapresta frá Þýzkalandi.  Um svipað leyti bjó Owen skipstjóri í borginni sem sjálfskipaður fulltrúi Breta.  Honum var vísað á brott eftir fárra mánaða dvöl en Bretar komu gráir fyrir járnum 1873 eftir að Sir Bartle Frere tókst að afnema þrælaverzlunina með samningum við Sansibar.  Þá var Freretown byggð fyrir frelsaða þræla handan gömlu hafnarinnar í Mombasa.

Eftir að nokkrum skotum hafði verið skotið frá byssubátum á virkið hófu Bretar samningaviðræður við soldáninn á Sansibar (1888) um yfirráð á strönd Kenja og tókst að gera hana að verndarsvæði hennar hátignar með því að greiða 17.000.- punda leigu á ári.  Bretar sátu sem fastast og lögðu miklu meira á sig til þróunar verndarsvæðisins en fyrri stjórnendur þess.  Þeir byggðu karlaklúbb, dómkirkju, járnbrautir, hafskipahöfnina í Kilindini og gerðu Mombasa að yfirburðaferðamannastað með fallegum íbúðarhúsum meðfram ströndinni milli Malindi og Shimoni.

Nyali, bezta strandsvæðið og baðströndin i grennd við Mombasa, varð að fögrum, enskum garði og afþreyingarstaður foringja í her Breta með golfvelli og smám saman voru byggð þar fimm fyrsta flokks hótel.  Þeir komu líka upp aðstöðu fyrir hina lægra settu í hernum í Mombasa.  Þetta voru einkum indverjar, sem fluttu með sér siði sína og venjur og byggðu hof, moskur og ómissandi basar.

Heimsstyrjaldirnar höfðu engin áhrif á Mombasa.  Kenja fékk sjálfstæði árið 1963.  Sjálfstæðið varð menningaráfall fyrir Mombasa, e.t.v. frekar áfall á viðskiptasviðinu, því að fólk innan úr landi streymdi að og varð kveikjan að miklu öflugri viðskiptum og iðnaði en hafði áður þekkst.  Ferðaþjónustan hefur smám saman verið að eflast með auknum straumi fólks frá meginlandi Evrópu, enda hafa íbúar Mombasa verið manna gestrisnastir í næstum tvö árþúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM