Hoover virkjunin Bandaríkin,
Flag of United States

MIKLAGLJÚFUR DAUÐADALUR    

HOOVERVIRKJUNIN
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Hlutverk Hooverstíflunnar er margþætt: *Hún dregur úr flóðahættu;  *hún geymir á bak við sig vatnsforða til *áveitna, *neyzlu, *iðnaðarþarfa og framleiðslu *rafmagns;  *hún myndaði risastórt lón, þar sem lifir mikið af fiski og ýmiss konar dýralíf þrífst á bökkum þess auk þess sem svæðið umhverfis er mjög vinsælt til útivistar.

Coloradoáin hefur grafið gljúfrið í milljónir ára.  Hún er u.þ.b. 2.253 km löng á milli Klettafjalla og Kaliforníuflóa.  Í vorleysingum flæddi áin víða um sléttur, olli manntjóni og eyðilagði uppskeru.  Á haustin varð áin oft kornlítil, of lítil til áveitna.  Áður en hægt var að virkja ána, urðu fulltrúar hinna 7 fylkja í BNA og Mexíkó, sem að ánni liggja, að hittast og komast að samkomulagi um nýtinguna.  Þeir hittust árið 1922 og niðurstaðan varð Coloradosamningurinn, sem var undirritaður í nóvember.  Samkvæmt samningnum var ársvæðinu skipt í efri og neðri hluta og helmingur meðalrennslis árinna tilheyrði hvorum.  Hooverstíflan var ekki sízt byggð til að koma í veg fyrir flóð og stuðla að jafnri dreifingu vatns allt árið um kring.

Hooverstíflan var byggð á árunum 1931-1936 og var kölluð „Boulder Dam” til 1947 (rétta nafnið var ævinlega Hoover Dam eftir 31 forseta BNA).  Hún er 221,3 m há og 379,2 m löng.  Breiddin efst er 13,7 m og neðst 201,2 m.  Heildarmagn steypu í stíflunni sjálfri er 2,6 milljónir m³.  Hún er að hálfu í Nevada og hálfu í Arizona.

Uppistöðulónið, „Lake Mead” er allt að 182 km langt (í átt að Stórugljúfrum) og 152 m djúpt (meðaldýpi 91,4 m; bátsferðir; vatnaíþróttir; veiðar; rúmlega 9 milljónir gesta á ári allt árið).  Það teygist 58 km upp í gljúfur „Virginárinnar”.  Breidd þess er mismunandi, allt frá nokkrum tugum metra í 13 km.  Heildarflatarmálið er 640 km².   Vatnsmagn lónsins er u.þ.b. 58,3 milljarðar m³.  Það er stærsta manngerða vatnið í BNA og vatnsbirgðirnar í því samsvara tveggja ára meðalrennsli Coloradoárinnar, sem er nálægt því að vera tvöfalt meðalrennsli Þjórsár.  Hámarksrennsli Coloradoárinnar er u.þ.b. 850 m³.  Vatnið og umhverfi þess er undir stjórn þjóðgarðsstjórnarinnar, sem hefur einnig umsjón með „Lake Mohave”-svæðinu.  Strandlengja vatnsins er 885 km löng.  Allar tölur miðast við að lónið sé við hæstu stöðu, 372,28 m.y.s.

Steypuvinna við virkjunina hófst 6. júní 1933 og lauk 29 maí 1935.  Stíflan var byggð úr mismunandi háum og breiðum, ferhyrndum steypusúlum, allt að 18 m á kant (hinar minnstu 7,6 m), sem læsast þétt saman fyrir vatnsþrýstinginn.  Steypuþykktin, sem dælt var í mótin á 72 klst. fresti var u.þ.b. 1,5 m.  Heildarmagn steinsteypu í mannvirkjunum er 3,335 milljónir rúmmetra, í stíflunni sjálfri 2,486 milljónir rúmmetra.  Með allri þessari steypu mætti byggja súlu sem væri 30,3 m á kant og 4,13 km há eða leggja 4,8 m breiðan veg milli San Fransisco og New York.

Í virkjuninni eru 17 hverflar (133 MW hver).   Upprunalegu hverflarnir viku fyrir nýjum og afkastameiri á árunum 1986-1993.  Heildarafköst virkjunarinnar voru 1.300 MW, en eru nú 2.074 MW (rúmlega tvöföld miðað við allar íslenzkar virkjanir samtals).

Virkjunin þjónar hlutum Nevada, Arizona og Kaliforníu og framleiðir rúmlega 4 milljarða kílóvattstunda á ári.  Það nægir að meðaltali fyrir 1,3 milljónir manna.  Á árunum 1939-1949 var Hoovervirkjunin stærsta vatnsorkuver heimsins og er enn þá eitt hið stærsta í BNA.

Virkjunin kostaði $165 milljónir, er henni var lokið, og stofnkostnaðurinn hefur verið endurgreiddur með vöxtum með orkusölu.  Fimmtán stórir kaupendur í Nevada, Arizona og Kaliforníu kaupa orku samkvæmt samningum, sem renna út árið 2017.  Mestur hluti þessarar orku, 56%, fer til kaupenda í Suður-Kaliforníu, 19% til Arizona og 25% til Nevada.  Hagnaður af orku-sölunni fer til reksturs og viðhalds virkjunarinnar.  Hagnaðurinn var líka notaður til að auka afkasta-getuna á árunum 1986-1993.

Upphafið:  Coloradoáin var leidd í gegnum fjögur göng (17 m í þvermál), tvenn hvorum megin árinnar, á meðan stíflan var byggð.  Samanlögð lengd þeirra var rúmlega 5 km.  Gangagerðin hófst í maí 1931.  Þetta var erfitt verk.  Fyrst í stað voru engir vegir niður í gljúfrið, þannig að öll verkfæri og verkamennirnir voru fluttir með bátum á vinnustað.  Smám saman voru lagðir vegir niður í gljúfrið og brýr strengdar yfir ána til að hægt væri að aka mönnunum til vinnu.  Sumarið 1931 var mjög heitt, svo að hitinn varð allt að 60°C í göngunum.  Hitinn féll niður fyrir frostmark um veturinn og það var stormasamt í gljúfrinu.  Einu sinni varð að fella niður vinnu vegna flóða.  Holurnar, sem notaðar voru fyrir sprengiefni, voru boraðar með loftborum (500 alls).  Átta geysistórir borpallar, sem 24-30 verkamenn gátu staðið á með loftbora, voru smíðaðir.  Þeir voru færðir til, þegar búið var að bora öðrum megin í göngunum og holur voru boraðar hinum megin.  Þær voru fylltar með púðri og síðan var sprengt.

Að loknum sprengingum hverju sinni voru sérfræðingar sendir inn í göngin til að ganga úr skugga um að allt væri öruggt.  Síðan komu gengin inn með vélskóflur og hreinsuðu burtu grjótið, sem var síðan flutt á vörubílum neðar í gljúfrið.  Þeim var alltaf ekið aftur á bak inn í göngin.  Alls voru fjarlægðir 1.450.000 m³ af grjóti úr göngunum.

Í marz 1932 var farið að fóðra göngin með steinsteypu og færanlegum mótum.  Þak þeirra var fóðrað með kröftugum loftdrifnum steypusprautum.  Steypulagið í göngunum er tæplega 1 m á þykkt, þannig að þvermál þeirra minnkaði niður í 15 m.

Í nóvember 1932 voru höftin inn í göngin ofanverð opnuð með sprengingum og áin stífluð með grjóti og jarðvegi, sem var sturtað af brú fyrir ofan hana til að vatnið færi að flæða um göngin.

Hún rann um þau í nærri tvö ár.  Haustið 1934 voru byggðar stíflur við enda ganganna og steypt upp í munna tveggja þeirra og þeim lokað til frambúðar.  Í steyputöppum tveggja ganganna eru lokar, sem hægt er að opna, ef nauðsyn krefur.  Í febrúar 1935 var 1.000 tonna þungu stálhliði slakað niður fyrir munna ganga nr. 4 til að hægt væri að hleypa fram hjá nauðsynlegu vatnsmagni í Coloradoána á meðan safnað var vatni í lónið á bak við stífluna.  Þá loksins var búið að ná fullri stjórn á ánni.

Höggmyndirnar:  Flestar myndastytturnar, sem prýða mannvirki orkuversins, eru eftir norskættaða myndhöggvarann Óskar J.W. Hansen.  Hann var oft spurður um merkingu listaverka sinna.  Hann sagði, að Hooverorkuverið bæri byggingarsnilld Bandaríkjamanna vitni, þannig að verk hans væru minnisvarðar um hana.  Hann líkti stíflunni við pýramídana í Egyptalandi og sagði, að þeir, sem berðu hana augum, spyrðu: „Hvers konar menn reistu þetta stórkostlega mannvirki?”  Hann sagðist hafa reynt að svara þessari spurningu í víðri merkingu með höggmyndum sínum, þannig að það megi færa lofgjörð þeirra yfir á snilldargáfur mannkyns alls.

Aðalverk hans, helgað ósérplægni og dugnaði, er Nevadamegin stíflunnar.  Það er 43 m há flaggstöng með tveimur vængjuðum verum (9m), sem hann kallaði lýðveldið á vængjum.  Þær tákna óhagganlega ró hins vitræna viljastyrks og hið gífurlega vald, sem liggur í styrk líkamlegrar þjálfunar og hinum hægláta fögnuði yfir vísindalegum árangri.

Bygging Hoovervirkjunarinnar er saga hinna áræðnu.  Vængjuðu verurnar líkjast örnum, sem teygja vængina upp á metnaðarfullan hátt.  Þær tákna viðbragðsstöðu til varnar þjóðskipulagi okkar og áminningu um sífelldan vilja hins vakandi huga.

Stytturnar eru úr bronzi og vega rúmlega 4 tonn.  Þær voru steyptar í sandmót, sem vógu 492 tonn. Bronzið var hitað í 1.371°C áður en því var hellt í mótin.

Stytturnar standa á slípuðum díórítstöplum, sem var slakað niður á stóra íshlunka til að skemma ekki slípuðu fletina.  Síðan var þeim hnikað til á ísnum, þar til þeir stóðu nákvæmlega á réttum stöðum.  Að því loknu var flaggstönginni stungið í gegnum gat, sem hafði verið borað í gegnum miðstöpulinn, niður í forboraða holu í fjallið undir honum.

Umhverfis stöplana er terrazzoflötur með stjörnukorti.  Dagsetningin á því, 30. sept. 1935, minnir á daginn, sem Franklin D. Roosevelt forseti vígði stífluna.  Stjörnukortið er svo nákvæmt, að það væri lítill vandi fyrir stjörnufræðinga framtíðarinnar að reikna nákvæmlega út dagsetningu verkloka byggingar virkjunarinnar með það til hliðsjónar.

Nærri vængverunum er áttaviti á stalli með stjörnumerkjunum.

Hansen hannaði einnig minningarskjöldinn um hina 96, sem létu lífið við byggingu virkjunarinnar, og lágmyndirnar á lokuturnunum.  Skjöldurinn var upprunalega greyptur inn í hamravegginn Arizonamegin.  Hann er núna nærri vængverunum.  Á honum stendur:  „Þeir dóu til að eyðimörkin mætti blómstra.  BNA munu ætíð minnast þess, að margir, sem strituðu hér, voru lagðir til hinztu hvíldar á meðan á byggingu þessarar stíflu stóð.  BNA munu ætíð minnast þeirra, sem gerðu drauminn að veruleika.

Lágmyndirnar á inntaksturninum Nevadamegin, úr steinsteypu, sýna margþætt notagildi Hooverstíflunnar.

Lágmyndirnar á inntaksturninum Arizonamegin, líka úr steinsteypu, sýna ásjónur indíána-þjóðflokkanna, sem byggðu fjöllin og slétturnar frá örófi alda.  Auk þeirra er áletrunin:  „Frá upphafi tímans hófu amerískir indíánar hendur sínar til upp til hins mikla anda frá þessum fjöllum og sléttum.  Við myndum nú á ný þjóð með þeim í friði.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM