Brasilíuborg Brasilía,
Flag of Brazil


Þinghusið


Dómkirkjan

Sagan      

BRASILÍUBORG
BRASILÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Brasilía er höfuðborg Brasilíu.  Hún er innan 5822 km² svæðis, sem er kallað Sambandshérað (Distrito Federal), sem var sneytt af Gojásfylki á miðsléttu landsins.  Borgin er í u.þ.b. 1100 m hæð yfir sjó við árnar Tocantins, Parná og Sao Francisco.  Hún er einstök vegna skipulags og byggingarstíls og áhrifa sinna á þróun innlandsins.  Því var hún valin á skrá UNESCO (World Heritage site) 1987 sem einn staða jarðar, sem ber að varðveita.

Borgarmyndin Skipulagi miðborgarinnar hefur verið líkt við fugl, boga og ör eða flugvél.  Aðalskipuleggjandinn,  brasilíski arkitektinn Lúcio Costa, lagði áherzlu á öxulkerfi aðalþjóðveganna, sem liggja frá norðri til suðvesturs og frá norðvestri til suðausturs.  Við norðvesturenda hins síðarnefnda eru opinberar byggingar og við suðausturendann, við miðbik Parnoávatns og í hjarta borgarinnar, eru byggingar dómsvaldsins, framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins við Valdskiptingartorgið.  Þessar og aðrar aðalbyggingar borgarinnar annaðist Oscar Niemeyer, brasilískur arkitekt.  Austast, á þríhyrndu nesi út í vatnið, er Höll dögunarinnar, sem er bústaður forseta landsins.

Ríkisstjórnin lét reisa ódýrar og og lúxusíbúðir í miðborginni.  Við norðurenda vatnsins er tangi með fjölda fallegra einbýlishúsa líkt og við suðurendann.  Upphaflega sáu skipuleggjendur borgarinnar fyrir sér stór útivistarsvæði meðfram þessu manngerða vatni en þegar á fyrstu stigum útfærslunnar komu einkaklúbbar, hótel og stór einbýlishús ríka fólksins fram á teikningunum.  Umhverfis aðalborgina voru reistar smáborgir (úthverfi), s.s. Gama, Ceilandia, Taguatinga, Núcleo Bandeirante, Sobradinho og Planaltina.  Þær voru ekki byggðar til frambúðar og stinga verulega í stúf við samhverfu og rými Brasilíu.

Borgin er bæði rómuð og gagnrýnd fyrir nútíma byggingarlist og allt að því draumóralega skipulagningu.  Franski rithöfundurinn Simone de Beauvoir kvartaði undan því, að allir fjórðungar borgarinnar væru jafneinhliða í glæsileika sínum.  Aðrir hafa líkt opnum svæðum, torgum og görðum við auðnir.

Loftslagið er heitt og milt.  Lágmarkshitinn er í kringum 14°C og hámarkið er u.þ.b. 27°C.  Meðalúrkoma ársins er u.þ.b. 1600 mm.  Þurrkatíminn er frá marz til október og loftraki eru á bilinu 40-80% (fór niður í 11% í þurrkunum 1994).

Íbúarnir eru bæði erlendir (m.a. starfsfólk sendiráða) og innfæddir, sem eru upprunalega að hluta til fátæklingar, sem komu frá norðurhluta landsins til að vinna að uppbyggingu borgarinnar.  Fjölgun varð gífurleg á fyrstu stigum uppbyggingarinnar.  Þegar árið 1959 voru íbúarnir orðnir 64 þúsund og 272 þúsund árið 1970 (manntal með útborgum 537.492).  Á miðjum tíunda áratugnum voru íbúar Sambandsfylkisins 1,7 milljónir.

Þjónusta og starfsgreinar.  Megináherzlan í uppbyggingu borgarinnar var lögð á þjónustu (ríkisins, lögfræðilega, samgöngur og fjármálastarfsemi) matvælaframleiðslu og afþreyingu.  Það kemur greinilega fram, að borgin er miðstöð ríkisumsvifa en ekki iðnaðar, þótt þar sé byggingarstarfsemi, prentun og útgáfustarfsemi, framleiðsla matvæla og húsgagna áberandi líka.  Fjöldi stórra fyrirtækja eiga höfuðstöðvar í borginni.

Samgöngur.  Þjóðvegir og flugsamgöngur tengja höfuðborgina við aðra landshluta og lönd.  Járnbrautir liggja til Rio de Janero og Sao Paulo.  Innanborgar ferðast fólkið aðallega í einkabílum og strætisvögnum, því að vegalengdir eru talsverðar.  Hvergi annars staðar í landinu eru fleiri farartæki miðað við höfðatölu.

Stjórnsýslan.  Fram til 1990 var landstjóri tilnefndur af forseta landsins og þingið staðfesti val hans, en síðan hafa íbúarnir kosið hann í almennum kosningum.  Ráðherrar allra málaflokka eru ábyrgir gagnvart honum.  Þingið annast löggjöf Sambandsfylkisins.  Árið 1986 voru fyrstu kosningar í fylkinu um fulltrúa á þjóðþingið.

Menningarlífið.  Brasilíuháskóli (1962) er aðalvettvangur menningarlífs borgarinnar.  Menningarfélagið stendur fyrir mörgum samkomum á svið lista og bókmennta og nokkrar erlendar menningar- og upplýsingamiðstöðvar starfa.  Þjóðleikhúsið er í óreglulega lagaðri byggingu, sem líkist pýramýda.  Þar eru flutt leikrit, tónlist og óperur.   Brasilíusafnið varðveitir sögulega þróun borgarinnar og hýsir Friðlendnasafnið, Ímyndar- og hljóðsafn Sögu- og landfræðisafnsins.

Afþreying.  Bætt hefur verið úr skorti á afþreyingu í borginni með fjölda kvikmyndahúsa, næturklúbba, íþróttaklúbba og –svæða.  Þar eru fleiri sundlaugar en í nokkurri annarri borg landsins.  Dýragarður og skógi vaxin friðlönd prýða borgarsvæðið.  Bátsferðir á Paranoá-vatni og nærliggjandi ám eru líka í boði.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM