Kaupmannahöfn Danmörk,
[Flag of Denmark]

GÖNGUFERÐIR um MIÐBORGINA UMHVERFI KAUPMANNAHAFNAR   SKOÐUNARVERT

KAUPMANNAHÖFN
DANMÖRK
.

.

Utanríkisrnt.

Tívolí

 

Borgin við sundið, Kaupmannahöfn, höfuðborg konungsríkisins Danmerkur, er á austurströnd Sjálands við Eyrarsund..  Hún er miðpunktur menningar og lista, menntunar, viðskipta og samgangna í landinu auk þess að sameina norrænan glæsileika og miðevrópska lífsgleði.  Á sumrin iðar borgin af lífi, sem laðar til sín ferðamenn ekki síður en ýmislegt skoðunarvert.

Kaupmannahöfn er aðsetur ríkisstjórnar og konungs/drottningar.  Iðnaður og viðskipti vega þungt í efnahagslífinu.

Hafnar er fyrst getið árið 1043 eftir að Absalon biskup frá Hróarskeldu lét byggja þar virki í Hallarhólmanum og viðskipti fóru að blómstra.  Kristófer, konungur af Bæjaralandi, gerði Kaupmannahöfn að höfuðborg og aðsetri konunga árið 1445. Í stjórnartíð hins vinsæla konungs Kristjáns IV (1588-1648) voru byggð falleg
hús og öflugri varnarmannvirki.  Þessi borgarvirki komu sér vel til varnar gegn árásum Svía árin 1658-59, gegn flotum Englendinga, Hollendinga og Svía árið 1700 og Englendingum árin 1801 og 1809.  Í síðastnefndu árásunum tókst Englendingum að eyða flota Frakka í höfninni og setja Dönum afarkosti vegna stuðnings þeirra við Napóleon.  Á síðustu öldum voru borgarmúrnarnir jafnaðir við jörðu og skemmtigarðar komu í staðinn.  Kaupmannahöfn varð að háskólaborg árið 1479.

Allt frá því að Ísland varð hluti hins danska konungsríkis í kringum 1380 til stofnunar lýðveldis árið 1944 á Þingvöllum, varð þjóðin að lúta lögum og lofum Dana og þar af leiðandi að sækja margt til Danmerkur og þá ekki sízt til Kaupmannahafnar.  Danskir kaupmenn réðu verzlun landsins á einokunartímanum (1602-1787), dæmdir sakamenn voru sendir á Brimarhólm til refsingar, námsmenn stunduðu nám í Kaupmannahöfn og Íslandsmálaráðuneytið var frægt fyrir ofríki og aðgerðarleysi.  Margir þjóðkunnir Íslendingar bjuggu árum og áratugum saman í Kaupmannahöfn. Sumir sem fræðimenn og aðrir menntamenn, sem börðust fyrir sjálfstæði Íslands og gættu hagsmuna þess og Íslendinga á Kaupmannahafnarslóð.  Danir eru upp til hópa elskulegt fólk, sem gott er heim að sækja og margir þeirra hafa löngum alið þann draum að heimsækja Ísland, enda fjölgar gestum þaðan sem betur fer.  Íslendingar skyldu aldrei gleyma skyldleika og tengslum sínum við Dani og Danmörku, því að þeir eiga Dönum margt að þakka, þótt tíðarandi liðinna alda hafi ekki alltaf leikið landann vel.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM