Peking Beijing skoðunarvert nær Kína,
Flag of China

SKOÐUNARVERT FJÆR BEIJING . .

PEKING - BEIJING
NÆSTA  NÁGRENNI  BEIJING
KÍNA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fimmtán kílómetrum norðvestan borgarinnar er hin svokallaða **Sumarhöll eins og hún er þekkt í hinum vestræna heimi eða Yi He Yuan (Garður friðarræktunar).  Hún stendur á 290 ha skógi vöxnu landsvæði á milli Wanshou Shan (Langlífishóls) í norðri og stóra stöðuvatnsins Kunming Hu í suðri.

Fyrstu höllina á þessu svæði lét Jin-keisarinn Wan Yanliang reisa þegar árið 1153.  Síðar, á tímum Yuan-ættarinnar, var litla vatnið, sem var þar þá, stækkað verulega með því að leiða til þess vatn frá uppsprettunum Yuquangu og Changping.  Á dögum Ming-keisaranna risu margir laufskálar og hof og svæðið varð þekkt undir nafninu Hao Shan (Fagurhólar).  Qing-keisarinn Quanlong lét fegra svæðin enn frekar og gaf því núverandi nafn, Langlífishóll.  Árið 1860 rændu og eyðilögðu evrópskar hersveitir undir stjórn Bretans Lord Elgin Sumarhöllina.  Hin alræmda keysaraekkja Cixi lét reisa núverandi höll, Yi He Yuan, og notaði til þess fé, sem var ætlað til endurvæðingar kínverska flotans.  Í kjölfar boxarauppreisnarinnar lögðu Evrópumenn höllina aftur í rúst og Cixi lét endurreisa hana.  Síðan 1924 hafa garðar hallarinnar verið opnir almenningi.

Aðalinngangurinn garðsins er úr austri og annar að norðanverðu.  Aðal-inngangurinn leiðir að tveimur fallegum görðum.  Við enda annars þeirra er Renshou Dian (Höll velvilja og langlífis), þar sem keisarinn gaf leiðbeiningar sínar.  Norðar er De He Yuan (Höll dyggðar og samræmis) með hásætinu.  Yulan Tang (Höll jaðebylgnanna) er á vatnsbakkanum, þar sem Cixi hélt bónda sínum, Guangxu keisara, föngnum eftir Wuxu-uppreisnirnar í tíu ár til dauðadags hans 1908.  Á eyju aðeins sunnar er litli laufskálinn Zhinchun Ting, sem er vorboðinn.

Keisaraekkjan sjálf bjó í Leshou Tang (Höll langlífis í hamingju), sem er líka nærri vatninu.  Skammt vestan hennar er Yaoyue Men (Hliðið, sem býður tunglinu aðgang), sem vert er að skoða nánar.  Þaðan liggur yfirbyggð gata, Changlang (Langistígur), 728 m á norðurbakka vatnsins.  Gárungarnir segja, að stígurinn sé nógu langur til að mæla fram fyrstu ástarorðin og til-kynna brúðkaupið við enda hans.  Viðarsúlurnar eru rauð- og gullakkaðar með myndum frá Hangtshou.

Um miðbik stígsins er hinn litskrúðugi hliðbogi Paiyun Men, sem opnast í norðurátt að byggingunum á Langlífishóli.  Aðeins ofar stendur hinn 40 m hái turn Foxiang Ge (Turn búddailmsins), fyrrum pagóda, á öflugum undirstöðum.  Zhihui Hai (Hof hafs og vizku; það er nú vanhelgað) er stærsta mannvirkið efst á hólnum.  Aðrar fallegar byggingar standa vítt og breitt umhverfis hólinn.  Ofan af honum er fagurt útsýni.  Á vatnsbakkanum við vesturenda Langastígs er hinn frægi marmarbátur *Shifang (Bátur hreinleika og rósemdar).  Marmarasökkullinn er frá tímum Qianlong keisara (18.öld).  Cixi keisaraekkja lét laga bátinn eftir bruna.  Yfirbygging hans var úr timbri.  Norðan við Langlífishól eru fáar byggingar og þar ríkir ró og friður.  Bugðótt-ir stígarnir og kristaltært 'Bakvatnið', Hou Hu minna á landslagið í Suður-Kína.  Þarna stendur hin fagra, sjö hæða pagóda Duobao Ta (Pagóda hinna mörgu dýrgripa).  Við austurendann er Xiequ Yuan (Garður hinna samhljóma gleði).  Hann er sagður hafa verið gerður með landslagið í Wuxi (Jiangsu-hérað) að fyrirmynd.

Ferja siglir um Kunming-vatnið milli bryggjanna við marmarabátinn og eyjarinnar Nanhu Dao í sunnanverðu vatninu.  Hún er tengd austurbakkanum með 'Sautjánbogabrúnni' Shiqikong Qiao.  Önnur athyglisverð brú, Jaðe-gjarðarbrúin (Yu Dai Qiao) er við vestanvert vatnið.

Gamla sumarhöllin Yanming Yuan, sem Yongzheng keisari lét reisa, var skammt norðaustan núverandi Sumarhöll.  Þar eru nú aðeins rústir eftir af höllinni, sem jesúítar létu reisa í evrópskum stíl fyrir Qinglong keisara á árunum 1740-1747.  Ensk-frönsku hersveitirnar lögðu hallirnar í rústir í her-ferð sinni árið 1860 og innfæddir notuðu síðan hleðslugrjótið til að byggja sín eigin hús.

Nokkrum km vestan Sumarhallarinnar eru Xiang Shan (Vesturhólar eða Ilmhólar).  Hrífandi landslagið laðar Beijingbúa til sín á haustin, þegar mösurnar (ahorntré) skarta haustlitunum og líka á veturna, þegar þunnt snjólag þekur hólana.  Vesturhólar eru nú stór lystigarður með ám, hofum og lauf-skálum og útsýnið þaðan til Beijing er frábært.  Norðan Vesturhóla eru athyglisverð hof, Woto Si (Hof hins sofandi Búdda) og Biyun Si (Hof hinna himinbláu skýja).

Fimmtán km suðvestan miðborgar Beijing liggur *Marco-Polo-brúin (Lugou Qiao) yfir ána Yungding.  Hún var fyrst byggð á 12. öld.  Síðast var hún styrkt og breikkuð árið 1969.  Hún er 235 m löng og er úr ljósum marmara.  Í handriðunum sín hvorum megin eru 140 súlur.  Hver einstök þeirra er skreytt ljóni og hvolpum þess og engin myndanna er eins.  Við brúar-endana eru steinfílar og önnur dýr.  *Útsýnið til Beijing frá brúnni er gjarnan nefnt 'Morgunmáninn'.  Hinn 7. júlí árið 1937 olli atburður við Marco-Polo-brúna upphafi kínversk-japanska stríðisins.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM