Kólumbía efnahagslífið I,
Flag of Colombia

EFNAHAGSLÍFIÐ II

KÓLUMBÍA
EFNAHAGSLÍFIÐ I

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Á nýlendutímanum byggðist efnahagurinn næstum eingöngu á gullnámi og grafaráni (quacas).  Nútímaefnahagur landsins hvílir á mun breiðari grundvelli, olíuvinnslu og námugreftri, landbúnaði og framleiðslu til útflutnings og fyrir innanlandsmarkaðinn.  Efnahagurinn byggist aðallega á einkarekstri og bein þátttaka ríkisins í atvinnulífinu er aðallega á sviðum járnbrautasamgangna, olíuvinnslu og símamála.  Ríkið hefur beitt ýmsum aðferðum til að halda jafnvægi í efnahagsmálum og hvatt til uppbyggingar einkarekstrar með skattaívilnunum og aðgangi að lánsfé á hagstæðum vöxtum fyrir uppbyggingu nýs iðnaðar.  Þróunarstofnanir í héruðunum eins og Cauca-dalsfélagið, voru stofnuð til að stuðla að jafnari vexti og viðgangi iðnaðar með áherzlu á notkun vatnsorku og flóðavarnir.  Um miðja 20. öldina var hagvöxtur talsverður en síðan birtist verðbólgudraugurinn og atvinnuleysi jókst gífurlega.  Engu að síður er Kólumbía eitt fárra ríkja í Latnessku-Ameríku, sem sukku ekki í botnlaust skuldafen á níunda áratugnum, og efnahagurinn var beztur þar á þessum tíma.

Landbúnaður er enn þá veigamesti atvinnuvegur landsins, þótt iðnþróun hafi verið mikil og hröð síðan á fimmta áratugi 20. aldar.  Stór hluti lands í Kólumbíu er óræktaður vegna ófrjósams jarðvegs og óhagstæðs loftslags.  Austurslétturnar eru mjög strjálbýlar, Kyrrahafsströndin er enn þá skógi vaxin vegna mikillar úrkomu og stór svæði í Magdalenadalnum eru opin beitarsvæði eða ónotuð.

Náttúruauðæfi.  Kólumbía er auðug af óendurnýjanlegum efnum í jörðu, s.s. gulli, kolum og olíu.  Endurnýjanleg náttúruauðæfi eru m.a. land til landbúnaðar og Arnar, sem hafa víða verið virkjaðar til rafmagnsframleiðslu.  Gullæðar, einkum í miðvesturhlutanum, hafa verið mikilvægar síðan á nýlendutímanum.  Sums staðar finnst einnig silfur og platína í gullmöl og sandi.  Kolanámurnar í La Guajira eru hinar stærstu í norðurhluta Suður-Ameríku.  Járnnikkelbirgðir finnast meðfram San Jorge-ánni og miklar birgðir kopars eru í jörðu í vesturhluta Antioquia.  Í Cordillera oriental eru birgðir steinsalts, Marmara, kalksteins og hinna verðmætu smaragða.  Kólumbía er aðalframleiðandi smaragða í heiminum.

Hráolíubirgðirnar í árdölum Magdalena og Catatumbo hafa verið nýttar lengi og stór, ný olíusvæði fundust í Llanos og á Amasónsvæðinu síðla á 20. öldinni.  Möguleikar til nýtingar vatnsorku eru hvergi meiri á meginlandinu nema í Brasilíu og vatnsorkuver framleiða u.þ.b. 75% af rafmagnsþörf landsmanna.  Miklir þurrkar (1992-93) hafa stundum valdið vandræðum og hitaorkustöðvar hafa verið byggðar til öryggis víða um landið.

Landbúnaður.  Fjalllendi landsins og breytilegt loftslag eftir hæð yfir sjó gerir Kólumbíumönnum kleift að rækta óvenjumargar tegundir nytjaplantna, s.s. banana, sykurreyr, hveiti, bygg og kartöflur.  Nútímatækni í landbúnaði er aðallega nýtt þar sem henni verður við komið vegna landslagsins.  Notkun tilbúins áburðar er mikil og víða á flötum svæðum eru áveitur.  Fjöldi smábænda uppi í fjöllum og víðar beita gömlum og hefðbundnum aðferðum við búskapinn.

Kaffi hefur löngum verið burðarás efnahagslífsins og verið selt á háu verði á heimsmarkaði.  Það stendur undir u.þ.b. helmingi löglegs útflutnings frá landinu.  Kaffiviðskiptin hafa ætíð verið viðkvæm fyrir verðsveiflum.  Árið 1975 eyðilagði frost brasilísku kaffiuppskeruna og mjög hátt verð fékkst fyrir kólumbískt kaffi.  Afleiðingin var há verðbólga í Kólumbíu.  Lágt kaffiverð hefur stundum valdið miklum usla í efnahagsmálum landsins.  Hlutur kaffiútflutningsins var kominn niður í 12% um miðjan níunda áratuginn en samt var Kólumbía næststærsti útflytjandi kaffis á eftir Brasilíu.  Vinnuaflsfrek kaffiplantan er aðallega ræktuð í 1000-1900 m hæð yfir sjó uppi í fjallgörðum Andesfjallanna.  Nokkur kaffiræktarsvæði eru í hlíðum Santa Marta-fjallanna.  Skikar bændanna eru litlir og kaffiplantan hefur löngum verið ræktuð undir limi belgávaxtatrjáa, sem gefa frá sér köfnunarefni en síðan caturra-afbrigðið af kaffiplöntunni kom fram á sjónarsviðið hefur æ meira verið ræktað á opnum svæðum. 

Bananar og græðisúra eru mikilvægar nytjaplöntur.  Mesta bananaræktin og útflutningur eru frá Urabá-svæðinu við Karíbahaf.  Sykurreyr er aðaluppskeran á heitu tempruðu svæðunum en flestar stóru plantekrurnar og verksmiðjurnar eru í Cauca-dalnum í grennd við Cali.  Sykurinn er að mestu seldur á innanlandsmarkaði og lítill hluti hans fluttur úr landi.

Maís er aðaluppistaða fæðu fólksins í dreifbýlinu, sérstaklega í fjallahéruðunum.  Hann er ræktaður allstaðar nema á páramos-svæðunum.  Hann er m.a. notaður til bjórbruggunar og útkoman er bjór, sem er kallaður chichi.  Uppi í fjöllum, á svalari svæðum Narino-hásléttunnar og í Cordillera Oriental, eru aðallega ræktaðar kartöflur.  Á láglendinu hefur hrísgrjónaræktun aukizt hröðum skrefum með áveitum.  Kassavarunninn (rætur líkar kartöflum; ræktaður í tierra caliente) og hveiti (ræktað í jaðri páramos) eru meðal mikilvægra fæðutegunda landsmanna.  Víða eru ræktaðar nýrnabaunir og sorghum-gras (sakkarínsafi og fóður).

Baðmullin, sem er notuð í textíliðnaðnum, er líka ræktuð í landinu.  Meðal uppskerutegunda, sem eru ekki eins mikilvægar efnahag landsins, eru tóbak, sesamfræ, afrískir olíupálmar, kakó, jarðhnetur, vínber, sojabaunir og sítrusávextir.  Afskorin blóm eru flutt út með flugi í talsverðu magni frá stórum gróðurhúsum á Sabana de Bogotá.

Kvikfjárrækt er mikilvæg og arðvænleg, einkum á láglendissvæðum.  Mesta kjötframleiðslan er í Sinú- og San Jorge-dölunum, á steppunum á Atlantsláglendinu og í Llanos.  Mjólkurframleiðslan er þróuðust á hásléttunum í Cordillera oriental.  Kjúklingarækt hefur aukizt mjög vegna tækniframfara.

Náttúruauðæfi frumskóganna eru langt frá fullnýtt vegna ófullkomins vegakerfis.  Þar sem auðvelt er að komast að skóglendi, hefur skógarhögg náð sér vel á strik.  Bæði ríkið og pappírsframleiðendur hafa lagzt á eitt við skógrækt til að koma í veg fyrir ofnýtingu.  Timburiðnaðurinn er á þróunarstigi og í lok 20. aldar var fjöldinn allur af verksmiðjum farinn að framleiða borðvið fyrir innanlandsmarkað og útflutning.


Fiskveiðar eru lítt þróaðar í þessu landi, sem snýr að tveimur heimshöfum og fiskvinnslan er lítlvæg í efnahag landsins.  Ferskvatnsfiskur er meira veiddur, þótt stofnunum hafi hrakað vegna mengunar og árframburðar.

Iðnaður.  Áður en áætlanir um umbætur í iðnaði voru lagðar fram á tíunda áratugi 20. aldar, sá Iðnþróunarstofnun um fjármögnun fyrirtækja, sem voru of stór fyrir einkageirann.  Stórar fúlgur voru lagðar í málmiðnaðinn, samsetningarverksmiðjur fyrir bíla, framleiðslu járnbrautarvagna og fiskiskipa, pappírsvinnslu, framleiðslu jurtaolíu og olíuvöru.  Þrátt fyrir allan þennan stuðning við stóriðju, eru litlu einkaverskmiðjurnar, sem framleiða neyzluvörur, mikilvægari fyrir efnahagslífið.

Námuvinnsla.  Mikilvægustu jarðefnin eru kol, olía og gull.  Gullframleiðslan byggist aðallega á dælingu í héruðunum antioquia og Chocó.  Útflutningur járnnikkels hófst árið 1985 frá námum við efri hluta San Jorge-árinnar.  Kolanámur eru í Andesfjöllum og mestur hluti þeirra er notaður innanlands.  Aðalframleiðsla kola er nú í La Guajira, sem er í járnbrautarsambandi við nútímahöfn yzt á skaganum.

Nýting jarðolíu hófst í Magdalenadalnum snemma á 19. öld og á níunda áratugi 20. aldar var framleiðslan komin í 100 þúsund tunnur á dag.  Skömmu fyrir 1990 fannst olía í norðurhluta Llanos og á Amasónsvæðinu og framleiðslan jókst í 440 þúsund tunnur á dag árið 1990.  Tíu árum síðar var hún kominn upp í 800 þúsund tunnur.  Olíuleiðslur voru lagðar þvert yfir Andesfjöllin til að hægt væri að flytja olíuna út frá höfnum við Kyrrahafið.  Skæruliðar hafa ítrekað valdið skemmdum á þeim og gífurlegum umhverfisspjöllum vegna olíumengunar.  Eldri olíusvæðin í Magdalena- og Catatumbo-dölunum gefa enn þá mikið af olíu af sér.  Olíuiðnaðurinn er að öllu leyti í höndum ríkisins en erlend fyrirtæki sjá um olíuleit og þróunarhliðina.  Helztu hreinsistöðvarnar eru við Barrancabermeja við Magdalenaána og Cartagena á Karíbaströndinni.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM