Kólumbía sagan I,
Flag of Colombia

SAGAN II

KÓLUMBÍA,
SAGAN I

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fyrir landvinninga.  Áður en Spánverjar komu til skjalanna höfðu flestir íbúar landsins komið sér fyrir í vesturhlíðum fjalllendisins.  Hinar þróaðri menningarþjóðir indíána héldu sig á þessu svæði og hagstæðustu skilyrði til búsetu voru á hásléttu Cordillera Oriental í Andesfjöllum.  Núverandi höfuðborg, Bogotá, er nærri suðurjaðri þessarar hásléttu.  Hún teygist norður að fjöllunum, sem skilja hana frá vatnasviði Cesar-árinnar.  Þarna fundu Spánverjar stærstu byggðir indíána, sem töluðu Chibchan.  Á þeim tíma voru þessir indíánar í herför til að sameina ættbálkana.

Ættbálkar indíánanna í Kólumbíu voru svipaðir nema Karíbarnir, sem voru að koma sér fyrir í fjalladölunum.  Þeir stunduðu landbúnað á fremur þéttbýlum svæðum og bjuggu gjarnan í þorpum við skipulögð trúarbrögð, stéttarskiptingu og arfgengar veraldlegar og trúarlegar stöður í móðurætt.  Ættbálkarnir í Cordillera Central og þrengri hlutum Cauca-dalsins bjuggu síður í þorpum vegna landslagsins.  Hinir þróaðri Chibcha herjuðu á aðra ættbálka vopnaðir skotspjótum.

Landslag og loftslag takmarkaði þróun þessara menningarsamfélaga.  Líklega var þriðjungur indíánanna af stofni Chibcha, þegar Spánverjar komu til landsins.  Ekkert húsdýranna og villtra ættingja þeirra, sem lifðu í Mið-Andesfjöllum, fundust í Kólumbíu.  Chibcha-indíánarnir voru laghentir og einbeittu sér að notagildi hlutanna, sem þeir smíðuðu, eða túlkuðu hugmyndir sínar með þeim.

Landnámið.  Rodrigo de Bastidas kannaði strandlengju Kólumbíu.  Hann sigldi meðfram Karíbaströndinni 1500-01, milli höfðanna La Vela og Manzanilla (Panama).  Francisco Pizarro kannaði Kyrrahafsströndina 1525.  Raunverulegt landnám í Kólumbíu hófst ekki fyrr en 1525, þegar Bastidas stofnaði Santa Marta á norðurströndinni.  Árið 1533 stofnaði pedro de Heredia Cartagena, sem varð ein aðastöðva sjóhers og verzlunarflota Spánverja.  Gonzalo Jiménez de Quesada stofnaði Bogotá 1538.  Í lok 1539 var búið að stofna allar nýlenduborgirnar nema ein og lokið við að tengja þær með vegasambandi.  Um miðja öldina var landnáminu lokið.

Nýlendutíminn hófst 1549 með stofnun stjórnsýslu- og dómsvalds í Santa Fé de Bogotá.  Landvinningamenn höfðu komið á fót héraðsstjórnum í samræmi við samninga þeirra við spænsku krúnuna.  Spænska stjórnin tók síðan að sér yfirstjórn allra nýlendnanna.  Forseti þeirra (audiencia) stýrið ríkisstjórninni fyrir hönd varakonungsins í Perú.  Vegalengdir og erfiðar samgöngur komu í veg fyrir stöðugt samband milli ráðamanna og miðstýringu.  Innfæddir hrundu niður vegna sjúkdóma, sem Evrópumenn báru með sér og þrælkunar.  Á meðan þetta stjórnarfyrirkomulag var notað, ríkti pólitísk ró meðal íbúanna.  Rómverks-katólska kirkjan lék veigamikið hlutverk í félags- og velferðarmálum og rak flesta skóla landsins.  Kirkjan var öflugt verkfæri krúnunnar, sem réði henni að mestu.

Íbúum nýlendna Spánverja hætti að fækka í lok 17. aldar og í upphafi hinnar átjándu.  Aðlögun indíánanna að hinni nýju menningu og blönduð hjónabönd útrýmdu siðum og háttum þeirra.  Víða í afskekktum og einangruðum hlutum landsins þróaðist stjórnsýslan eftir aðstæðum og olli oft hrepparíg og hatrammri, innbyrðis samkeppni.  Efnahagurinn byggðist á námugreftri og landbúnaði en mikilvægur textíliðnaður byggðist smám saman upp í Socorra, norðan Bogotá, um miðja átjándu öldina.  Þrælahald var fylginautur landvinninganna og varð algengt á námusvæðunum í Chocó og Vestur-Antioquia og á landbúnaðarsvæðum Cauca-dalsins, í Neðri-Magdalenadalnum og á strandláglendinu.  Indíánarnir voru víðast meðhöndlaðir eins og þrælar.  Frá fyrri hluta 16. aldar voru þeir skyldaðir til að greiða skatta í gulli eða vinna af sér álögurnar.

Varakonungsdæmið Nýja-Granada, sem náði yfir núverandi Kólumbíu, Panama (eftir 1751), Venesúela og Ekvador, var stofnað á árunum 1717-23 og endurskipulagt 1740.  Næstu áratugina beindust aðgerðir stjórnvalda að aukinni miðstýringu, bættum stjórnarháttum og samgöngum og frjálslegri verzlun í heimsveldinu.  Íbúunum fjölgaði, verzlun jókst og velmegunin náði til þegnanna.  Menntaðir kreólar (innfæddir Spánverjar), sem voru margir embættismenn krúnunnar, gerðust virkari í stjórnmálum og stofnuðu hersveitir með leyfi Karls III, Spánarkonungs.  Fremur stór hópur auðugra landeigenda og kaupmanna voru burðarásar efnahagslífsins og studdu þessar aðgerðir.  Árið 1781 efndu bændur og iðnaðarmenn til Comunero-uppreisnarinnar í kjölfar skattahækkana.  Þótt nokkrir kreólar leiddu uppreisnarmenn til Bogotá, hikuðu flestir þeirra eða unnu gegn þeim.  Á árunum 1785-1810 snérust mið- og yfirstéttarkreólar frá andstöðu gegn pólitískum og efnahagslegum breytingum og hófu baráttu fyrir ýmsum breytingum í stefnu stjórnar konungs.  Árið 1809 snéru þeir sér að baráttu fyrir óheftum einkarekstri, afnámi þrælahalds, takmörkun valda stjórnarinnar og algerlega frjálsri verzlun innanlands og við útlönd.

Umbætur á sviði menntamála voru ofarlega á blaði kreólanna í Granada.  Caballero y Góngora, erkibiskup og varakonungur 1782-88, lagði mikla áherzlu á menntamálin.  Hann kom fram nútímalegum áætlunum um nám í skólum, opnaði námuskóla og studdi leiðangur grasafræðinga undir forystu náttúrufræðingsins José Celestino Mutis.  Margir helztu sjálfstæðissinnar landsins voru menntaðir í nýja skólakerfinu.  Fyrsta dagblaðið og leikhúsið litu dagsins ljós eftir 1790.  Áhugi fyrir ritstörfum vaknaði og samkomur menntamanna urðu algengar.  Árið 1808 var hollusta íbúa Granada við krúnuna óvéfengjanleg nema meðal nokkurra einstaklinga.  Mið- og yfirstétt kreóla, sem hafði stutt spænsku stjórnina dyggilega, var farin að linast í trúnni vegna efnahagsmála, hneykslismála í konungsfjölskyldunni og aukinnar spennu milli þeirra og evrópskra Spánverja.


Byltingin og sjálfstæði.  Innrás Frakka í Spán 1808 vakti upp föðurlandstilfinningu og stuðning við konung og olli kirkjunnar mönnum miklum áhyggjum.  Granadamenn höfðu áhyggjur af örlögum heimsveldisins og mismunandi áherzlur ráðamanna í nýlendunum og heima fyrir á stjórnarhætti á meðan Ferdinand VII var í haldi Frakka leiddu til deilna í Nýja-Granada og nokkurra sjálfstæðisyfirlýsinga.  Árið 1810 var spænskum embættismönnum alls staðar steypt af stóli nema í Santa Marta, Ríohacha, Panama og Ekvador.  Þjóðhátíðardagurinn er miðaður við uppreisnina í Bogotá 20. júlí 1810, þótt nýjar ríkisstjórnir hétu Ferdinand VII hollustu og lýstu ekki yfir sjálfstæði landanna fyrr en árið 1811.  Hugsjónamenn og metnaðarfullir héraðsleiðtogar sáu fyrir sér sambandsríki.  Leiðtogar kreóla vildu miðstýringu nýju ríkisstjórnanna og afleiðingin var nokkrar borgarastyrjaldir, sem gerðu Spánverjum kleift að ná héruðunum undir sig á ný 1816-18.  Leifar lyðveldishersins flúði til Ilanos í Casanare, þar sem Francisco de Paula Santander endurskipulagði herinn.  Hann var áberandi í kólumbískum stjórnmálum til dauðadags 1840.

Gagnkvæmar refsiaðgerðir evrópskra herja og skæruliða gerðu konungshollustu að engu og héldu næstum óslitið áfram frá 1810 til aldamótanna 1900.  Skæruliðar í Casanare sameinuðust Simón Bolívar í Orinocodalnum í Venesúela.  Árið 1819 var ríkisstjórn þeirra komin á laggirnar og haldin var ráðstefna um stjórnarskrá í Angostura (nú Ciudad Bolívar í Venesúela) með fulltrúm frá Casanare og nokkrum venesúelskum héruðum.  Sama ár réðist Simón Bolívar inn í Kólumbíu og sigraði Spánverja með yfirburðum 7. ágúst við Bovacá.  Orrusturnar við Carabobo í Venesúela árið 1821 og Pichincha í Ekvador 1822 réðu úrslitum.  Hreinsunaraðgerðum var lokið 1823 og Simón Bolívar leiddi menn sína til Perú.

Þingið í Angostura lagði grundvöll að lýðveldisstofnun í Kólumbíu (1819-30), sem þá var kölluð Stóra-Kólumbía vegna þess að hún náði yfir núverandi landsvæði Kólumbíu, Panama, Venesúela og Ekvadors.  Árið 1821 var skipulagningu lýðveldisins lokið á þinginu í Cúcuta en allt fram að þeim tíma hafði herinn og kirkjan völdin.  Simón Bolívar var forseti landsins en hann mátti ekki verað að því að stjórna landinu og fól forsætisráðherranum það hlutverk.  Nýja ríkisstjórnin kaus Bolívar forseta og Santander varaforseta en hann hélt í rauninni um valdataumana.

Á meðan á styrjöldinni stóð lifði Stóra-Kólumbía kröftugu lífi.  Herinn og borgararnir kepptu um pólitískar stöður og hrepparígur leiddi til uppreisnar undir forystu José Antonio Páes, hershöfðingja, í Venesúela.  Simón Bolívar snéri aftur frá Perú til að efla einingu en fékk einungis staðfestingu á eigin völdum.  Óánægjan magnaðist og í ljós kom, að engin samtök studdu lýðveldið nægilega til að vilja berjast fyrir það.  Árið 1829 hafði Simón Bolívar skipt landinu í fernt og sett venesúelska hershöfðingja yfir landshlutana.  Á ráðstefnunni í Ocana hafði ekki tekizt að skipuleggja lýðveldið og Bolívar tókst það ekki á stuttum einvaldsferli 1828-30.  Hann kallaði saman til ráðstefnu 1830 og útkoman var stjórnarskrá fyrir Nýja-Granada, sem náði yfir núverandi Kólumbíu og Panama.  Á þessari ráðstefnu sagði Bolívar af sér og hélt til norðurstrandarinnar, þar sem hann dó 17. desember 1830 í Santa Marta.  Skömmu fyrir þessa atburði höfðu Venesúela og Ekvador sagt sig úr sambandinu við Stóra-Granada.  Árið 1835 bjuggu u.þ.b. 1,5 milljónir manna í Nýja-Granada.

SAGAN II

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM