Kólumbía sagan II,
Flag of Colombia

SAGAN III

KÓLUMBÍA
SAGAN II

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Lýðveldið til 1930.  Santander, varaforseti Bolívars og síðar leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sem barðist gegn einræðisherranum Bolívar 1828, var forseti landsins frá 1832-37 og réði öllu, sem hann vildi.  Á þessum áratug var nokkur velmegun en borgarastyrjöld brauzt út 1840 og kæfði iðnvæðinguna í fæðingu, truflaði viðskipti og kom í veg fyrir fjárfestingu í landinu.  Fræjum tortryggni og samkeppni milli frjálslyndra og íhaldsmanna hafði verið sáð og blóðug bylting hófst 1840 og stóð nokkuð óslitið til 1903.

Nútímasaga stjórnmála landsins hófst síðla á fimmta áratugi 19. aldar með skýrari línum milli frjálslyndra og íhaldsmanna.  Íhaldsmaðurinn Tomás Cipriano de Mosquera, hershöfðingi og forseti 1845-49, veitti einkarekstrinum einkaleyfi til sölu tóbaks og jók erlend viðskipti.  Þessar breytingar ollu aukinni framleiðslu og útflutingi tóbaks en dró úr skatttekjum ríkissjóðs.

Árið 1849 varð Jesé Hilario Lópes, hershöfðingi og meðlimur róttæka armsins í frjálslynda flokknum, forseti.  Það kom í hans hlut að framfylgja umbótum, sem voru samþykkt 1850 og ollu mikilli spennu í stjórnmálum og sundruðu samstöðu þjóðarinnar stjórnmála- og efnahagslega í hálfa öld.  Stefna hinna róttæku frjálslyndu undir forystu Lópes hershöfðingja var að auka frelsi almennings í Kólumbíu.  Ríkisstjórn hans batt enda á þrælahald og eignarhald samfélagsins á landi indíána, veitti fjármagni úr ríkissjóði til héraðs- og sveitastjórna til uppbyggingar og dró úr eða afnam marga skatta og gjöld til ríkisins.

Þessar umbætur, sem áttu að koma almenningi til góða snérust einhvern veginn upp í andstæðu sína og gerðu hinum auðugu enn auðveldara að arðræna hina fátæku.  Fjöldi þræla var aðeins 25 þúsund (árið 1851 u.þ.b. 2 milljónir), þannig að frelsun þeirra hafði lítil áhrif miðað við hrun samfélaga indíánanna, sem hafði áhrif á þriðjung íbúa landsins.  Indíánarnir voru ginntir til að láta af hendi litlu landskikana sína og þar með hið litla frelsi, sem þeir nutu.  Innan fárra ára var allt þetta land komið á fárra manna hendur.  Indíánarnir voru orðnir leiguliðar á eigin landi og það var notað til beitar.

Ágreiningur milli stéttanna kraumaði undir niðri og valdabarátta æðri stéttanna var grímulaus.  Innbyrðis barátta þeirra snérist aðallega um stjórnarhætti, miðstýringu eða sambandsríki, og hlutverk katólsku kirkjunnar í þjóðfélaginu.  Fylgjendur sambandsríkis höfðu yfirhöndina á árunum 1863-80, þegar landið var kallað Bandaríki Kólumbíu.  Síðari tilvísanir ríkisstjórna landsins til þessa tíma hétu:  „Tímabil borgarastríða”.  Kólumbíumenn eyddu 51 mánuði af áratugunum milli 1860 og 1880 í mismunandi blóðug átök.  Herinn var svo lítill, að hann gat ekki haldið uppi lögum og reglu.

Fylgjendur hinna andkirkjusinnuðu voru öflugastir snemma á sjöunda áratugi 19. aldar.  Byltingarstjórn Mosquera gerði lönd kirkjunnar upptæk árið 1861 og stjórnarskráin frá 1863 kvað á um trúfrelsi og þar með var bundinn endir á náið samband ríkis og kirkju í landinu.

Endurkoma íhaldsmanna 1881930.  Stjórn Rafael Núnez (1880-95) og íhaldsstjórnirnar, sem á eftir komu, snéru þessum ákvörðunum við.  Eftir átökin á níunda áratugi 19. aldar fékk stjórn Núnez nýja stjórnarskrá samþykkta 1886 til að endurvekja sambandið við Vatikanið og koma á ýmsum umbótum innanlands, s.s. í iðnaði.  Átökunum milli frjálslyndra og íhaldsmanna var langt frá því lokið og náði hámarki í Þúsund daga stríðinu (1899-1903).  Fjöldi fallinna í þessum átökum er áætlaður milli 60 og 130 þúsund.

Í kjölfar borgarastyrjaldarinnar missti Kólumbía Panama.  Þingið reitaði tilboði BNA um gröft skurðar í gegnum Panamaeiðið og það var nóg til þess, að Panamabúar gerðu uppreisn gegn stjórninni í Bogotá árið 1903.  Þeir komust að samkomulagi við Bandaríkjamenn um gröft skurðarins og yfirráð þeirra á 16 km breiðu svæði meðfram honum gegn árlegum greiðslum.  Samskipti BNA og Kólumbíu voru stirð árum saman vegna þessa máls, þrátt fyrir að BNA greiddu Kólumbíumönnum US$ 25 milljónir í skaðabætur.

Þróun innanríkismála tók fjörkipp eftir 1905 og útflutningur kaffis tífaldaðist á árunum 1909-28.  Í upphafi 20. aldar réðu Kólumbíumenn u.þ.b. 3% heimsmarkaðarins fyrir kaffi.  Árið 1923 var þetta hlutfall orðið 10% og síðla á þriðja áratugnum far kaffiútflutningurinn orðinn nærri 20% af vergri þjóðarframleiðslu.

Kólumbía eftir 1930.  Ýmsir örðugleikar fylgdu auknu mikilvægi útflutningsins.  Síðla á þriðja áratugunum var kaffi 69% útflutningsins, eldsneyti 17% og bananar 6%.  Þessar vörur hröpuðu í verði í kreppunni eftir 1930.  Þessa gætti strax í stjórnmálum landsins, því að íhaldsmenn töpuðu í forsetakosningunum 1930 og frambjóðandi frjálslyndra, Enrique Olava Herrera, varð forseti til árisins 1934.

Tímabil frjálslyndra 19346.  Frjálslyndir komust til valda vegna almennrar óánægju og andstöðu gegn íhaldmönnum, sem beittu hernum gegn verkamönnum á bananaekrunum vegna óeiningar í flokknum sjálfum.  Olava beitti völdum sínum á svipaðan hátt og fyrirrennarar hans en eftirmaður hans, Alfonso Lópes Pumarejo (1934-38) kom á ýmsum umbótum.  Hinar mikilvægustu voru kvaðir, sem voru lagðar á landeigendur til að nýta landareignir sínar á arðbæran hátt, ella mættu þeir ekki krefjast endurgjalds frá leiguliðunum (1936).  Þeir höfðu vannýtt gríðarmikið land með beit einni saman og sölsað það undir sig frá indíánum.  Á kaffiræktarsvæðinu í Cundinamarca, vestan Bogotá, fengu þúsundir fjölskyldna afsöl vegna búsetu.  Síðari ríkisstjórnir fóru varlegar ís sakirnar en árið 1961 var þunginn bak kröfunum orðinn slíkur, að þingið varð að samþykkja lög um umbætur í landbúnaði.  Um miðjan sjöunda áratuginn hafði landbúnaðarráðuneytið gefið út 135 þúsund afsöl til smábænda. 

Hröð iðnþróun hófst á fjórða áratugnum.  Medellín varð aðalframleiðandi textílvara og annars vefnaðar.  Skortur á innfluttum vörum í kreppunni var megindrifkrafturinn í aukinni iðnvæðingu.

Ógnaröldin, einræði og lýðræði á ný.  Lýðræðið hélt áfram út fjórða áratuginn og alla síðari heimsstyrjöldina.  Alfonso López Pumarejo var endurkjörinn árið 1942 en stríðsástandið í heiminum var óhagstætt félagslegum umbótum.  Í kosningunum 1946 börðust tveir frjálslyndir frambjóðendur (Gabriel Turbay og Jorge Eliécer Gaitán) um völdin og klufu frjálslynda flokkinn.  Íhaldsmaðurinn Mariano Ospina Pérez var kjörinn.  Íhaldsmenn höfðu orðið að láta sér Lynda að vera í stjórnarandstöðu síðan 1930 og orðið fyrir heiftarlegum árásum frjálslyndra á tímabilinu.  Eftir þennan sigur gripu þeir til grófra hefndaraðgerða gegn frjálslyndum.  Þetta tímabil hefur verið kallað „ógnaröldin”.  Hinn 9. apríl 1948 var Gaitán, leiðtogi vinstri arms frjálslyndra, myrtur um hábjartan dag í miðborg Bogotá.  Óeirðirnar (bogotazo), sem þessi atburður leiddi af sér, ollu gífurlegu tjóni (US$ 570 milljónir).

Ógnaröldin hófst sem mögnuð, pólitísk átök milli fjrálslyndra og íhaldsmanna og var aðeins að litlu leyti átök milli stétta, þannig að erlendrar hugmyndafræði eða annarra erlendra áhrifa gætti ekki.  Talið er að u.þ.b. 200 þúsund manns hafi týnt lífi í átökunum á þessu tímabili (1946-64).  Það, sem mest vekur athygli, er grimmileg meðferð fórnarlambanna, sem hefur verið ærið rannsóknarefni Kólumbíumanna síðan.  Ógnaröldin magnaðist í stjórnartíð Laureano Gómez (1950-53), sem reyndi að koma á fót fasistaríki.  Öfgar hans urðu honum að falli í hallarbyltingu hersins, hinni fyrstu á 20. öldinni.  Gustavo Rojas Pinilla, hershöfðingi, tók við forsetaembættinu 1953 og hóf aðgerðir með aðstoð dóttur sinnar, María Eugenia Rojas Pinilla, til að enda ógnaröldina og koma efnahagslífinu í gang á ný.  Rojas var leiðtogi fólksins og studdi kröfur almennings um siðbót meðal yfirstéttanna.  Stuðningur við Rojas minnkaði verulega, þegar hann virtist ekki geta staðið við loforð sín og var tregur til að afsala sér völdum í kjölfar verðhruns á kaffi árið 1957.  Herforingjaklíka stuggaði honum úr stóli sama ár.

Alberto Lleras Camargo, fulltrúi frjálslyndra, og Laureano Gómez, leiðtogi íhaldsmanna, komust að samkomulagi um þjóðstjórn beggja flokka og kynntu það í Sitges 1957.  Þetta einstæða samkomulag gerði ráð fyrir, að fulltrúar beggja flokka sinntu forsetaembættinu til skiptis, skiptu jafnt með sér ráðherraembættum og öðrum opinberum stöðum og jafnmörgum fulltrúum á öllum sviðum framkvæmda- og löggjafarvalds.  Samkomulagið var gert til 16 ára, sem samsvaraði fjórum kjörtímabilum forseta.  Samkomulagið kvað ekki á um, hvernig stjórnarhættir skyldu viðhafðir.

Fyrirhugað var, að íhaldamenn fengju fyrsta forsetann 1958.  Þegar íhaldsmenn gátu ekki komið sér saman um frambjóðandann, valdi þjóðstjórnin Lleras, sem hafði verið forseti í 12 mánuði á árunum 1945-46.  Á valdatíma hans var komið á verulegum umbótum í landbúnaði, þróun og skipulagning efnahagsmála hófst og Kólumbía varð skólabókardæmi í Framfarabandalaginu, sem var tilraun BNA til að styðja efnahagslegar umbætur og framfarir í Latnesku-Ameríku.  Lágt kaffiverð olli miklum efnahagsþrenginum, atvinnuleysi og bandalagsstyrkurinn mætti aðeins að litlu leyri innflutningsþörfinni.  Þessi styrkur gerði Kólumbíu æ háðari BNA og var þyrnir í augum margra landsmanna.  Árið 1962 stóðu efnahagsmálin í stað.

Hið alvarlega ástand efnahagsmála og ólga í þjóðfélaginu komu í ljós, þegar aðeins helmingur kjósenda nýtti atkvæðisrétt sinn í forsetakosningunum 1962, þegar íhaldsmaðurinn Guillermo León Valencia var kjörinn.  Á fyrsta ári hans í embætti lækkaði gengi gjaldmiðilsins (peso), laun verkamanna í verkalýðsfélögum hækkuðu um 40% og mesta verðbólgubál síðan 1905 kviknaði.  Gripið var til örþrifaráða næstu þrjú árin, þannig að atvinnuleysi fór yfir 10% í helztu borgum landsins og æ fleiri landsmenn gerðust andsnúnir þjóðstjórninni.  Færri en 40% atkvæðabærra manna neytti atkvæðisréttar sins í kosningunum 1964.

Skæruliðahópar marxista komu fyrst í dagsljósið í forsetatíð Valencia.  Hinn fyrsti þeirra var Þjóðfrelsisherinn (ELN), stofnaður 1964 af stúdentum, sem höfðu stundað nám á Kúbu.  Hann fylgdi herfræðikenningum Che Guevara.  Skæruliðasamtökin Byltingarher Kólumbíu (FARC), sem fæddust tveimur árum síðar, voru meira á línu Sovétkommúnismans.  Þessi samtök áttu sér rætur í andspyrnunefndunum, sem voru stofnaðar í ógnaröldinni. 

Carlos Lleras Restrepo var þriðji forseti þjóðstjórnarinnar (1966-70).  Hann kom efnahagnum á réttan kjöl, bætti úr skipulagi þeirra og kom á umbótum, sem gerðu kleift að enda samstarfið í þjóðstjórninni á eðlilegan hátt.  Stjórnarskráin frá 1968 kvað á um almennar kosningar árið 1974 en forsetinn átti engu að síður að sjá svo um, að næststærsti flokkurinn eftir þær fengi sæti í ríkisstjórninni og deila öðrum opinberum embættum.

Í forsetatíð Lleras færðu nokkrar hálfsjálfstæðar stofnanir út kvíarnar og blönduðu sér í samkeppni við einkageirann.  Höfuðstóll og sjóðir Iðnþróunarstofnunarinnar jukust frá 1967 (6,6 milljónir peso) til 1969 (77 milljónir peso).  Efnahagsbatinn náði hámarki í lok kjörtímabils Lleras, þegar verg þjóðarframleiðsla jókst um 7%.  Þessi árangur var að hluta háu kaffiverði að þakka en stefna stjórnvalda átt verulegan þátt í honum.

Árið 1970 náði Misael Pastrana Borrero, frambjóðandi íhaldsmanna, naumlega kjöri með stuðningi þjóðstjórnarinnar gegn fyrrum einræðisherra, Gustavo Rojas Pinilla, vegna þess, hve fáir borgarbúar greiddu Borrero atkvæði.  Þá bjó u.þ.b. helmingur þjóðarinnar í þéttbýli.  Sveitafólkið, sem varð sífellt fjölmennara í borgunum, bæði miðstéttar- og verkafólk, fann ekki samhljóm með hinum hefðbundnu flokkum.  Þeir lifðu þessa eldraun af og komust ekki aftur í svipaðar hremmingar.

Óánægja með þessar kosningar olli fæðingu enn einna skæruliðasamtaka, 19. apríl hreyfingarinnar (M-19).  Hún var nefnd eftir deginum, sem sigrinum var stolið frá Pinilla, og náði athygli þjóðarinnar, þegar hún stal sverði Simón Borívar.  Liðsmenn hennar urðu kunnir fyrir fífldjarfar aðgerðir, s.s. rán og morð verkalýðsleiðtoga 1976, jarðgangagerð að og rán úr vopnabúri í Bogotá 1979 og rán gesta úr hanastélsboði í sendiráði Dóminíska lýðveldisins í Bogotá 1980.

SAGAN III

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM