| 
           
          Höfuðborg 
          Mexíkó er Mexíkóborg (Ciudad de México í Valle de México eða  Anáhuac) í u.þ.b. 2240 m.y.s.  Borgin er umkringd eldfjöllum, 
          s.s. Popocatépetl og Iztaccihuatl (4000-5500 m.y.s.).  
          Sambandsstjórnin stjórnar borginni.  Vegna hæðarinnar yfir sjó 
          hentar loftslagið Evrópubúum en loftmengunin er gífurleg. 
           
           Norður-suðuröxull 
          sambandssvæðisins er rúmlega 40 km langur og vestur-austuröxullinn 
          rúmlega 25 km, en borgin vex æ meira út fyrir 
          þetta svæði.  Hlutar útvaxtarins  
          ná inn í sambandsríkin Mexíkó og Hidalgo.  Árið 2009 var hún 
          talin fjórða stærsta borg heims á eftir Tókíó, New York og e.t.v. 
          Seoul. 
           
          Aztekar hófu byggingu borgarinnar Tenochtitlán á eyju í Texcocovatni árið 
          1325 og hún varð fljótlega stjórnsetur þeirra.  Borgin stóð á 
          eyju í ísöltu stöðuvatni og þörf myndaðist fyrir fleiri eyjar, þegar 
          hún var fullbyggð.  Fleiri voru byggðar með kerfum 
          ferksvatnsáveitna í skurðum milli þeirra. 
           
           Spánverjinn 
          Hernán Cortés sat um borgina í 79 daga og vann hana 13. ágúst 1521.  
          Þá var hún að mestu eydd eftir stöðugar árásir.  Nýlendustjórar 
          Spánar sátu í borginni frá árinu 1525.  Þaðan var Filipseyjum, 
          Kúbu, Flórída og Gvatemala stjórnað.  Árið 1928 fékk spænska 
          borgin nafnið Mexíkóborg. 
           
          Fjöldi minja frá tímum azteka í söfnum borgarinnar er gríðarlegur.  
          Spánverjar reistu nýju borgina á rústum Tenochtitlan.  Á síðari 
          hluta 20. aldar var mikið grafið upp af fornminjum og margt var 
          endurreist, s.s. aðalhof aztekaborgarinnar.  Fjöldi kirkna og 
          annarra bygginga, aðallega í barokstíl, frá nýlendutímanum er mikill.  
          Margar áhugaverðar byggingar í mexíkóskum stíl frá sjötta og sjöunda 
          áratugi 20. aldar er víða að finna. 
           
          Fram undir lok 20. aldar skipaði forseti landsins borgarstjóra 
          Mexíkóborgar, en þá hófst kjör hans í almennum kosningum.  
          Fjölgun íbúa borgarinnar byggist ekki sízt á flótta frá sífellt 
          ófrjósamari landbúnaðarsvæðum vegna óhagstæðs loftslags.  
          Áreiðanlegar tölur um fjölda íbúa eru ófáanlegar, en talið er að milli 
          20 og 30 milljónir búi á stórborgarsvæðinu.  Vaxandi iðnaður í 
          borginni hefur ekki haldið uppi nægu vinnuframboði og margir búa í 
          örbirgð og án heilsuþjónustu.  Híbýli aðfluttra eru 
          undantekningarlítið skjól úr bárujárni, pappa eða plasti.  Þeir 
          búa flestir í útjaðri austurhluta borgarinnar. 
           
           Umferðin.  
          Jarðlestir og mislæg gatnamót aðalleiða um borgina koma í veg fyrir 
          öngþveiti utan álagstíma, þegar umferðin þokast áfram á 10 km hraða.  
          Líkt og á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi er gatnakerfið sprungið vegna 
          offjölgunar farartækja.  Ferskt loft gæti streymt til borgarinnar 
          um dalsmynni Anáhuac og hreinsað brott mengun frá farartækjum, en 
          einmitt þar er aðaliðnaðarsvæði borgarinnar og ómældri mengun er dælt 
          þaðan yfir borgarsvæðið.  Mengunin er hættuleg börnum og 
          gamalmennum.  Fólk á bezta aldri á jafnvel erfitt um andardrátt 
          og súrnar í augun.  Fjallaramminn umhverfis borgina sést 
          afarsjaldan núorðið vegna mengunarinnar. 
           
           Borgin 
          er byggð á ótryggum grunni í mýrlendi, þannig að hún sekkur um 20 sm á 
          ári.  Margar byggingar (Palacio de Bellas Artes) eru orðnar 
          rammskakkar.  Spánverjar hófu fljótlega framræslu stöðuvatnsins 
          og mýrlendisins, þannig að nú er deigt þurrlendi eftir.  
          Vatnsveitan innan borgarmarkanna annar ekki þörfinni, þannig að 
          orkufrekar dælur eru notaðar til að tryggja nægilegt neyzluvatn.  
          Nokkur hverfi borgarinnar liggja undir grunnvatnsborði og þaðan verður 
          að dæla vatni.  Bili dælur, er hætt við flóðum úr skolpkerfum. 
           
          Allir gallar borgarinnar eiga til að gleymast, þegar gestir hennar 
          njóta alls hins bezta, sem hún hefur að bjóða.  Þar ber hæst 
          skrautgötuna „Paseo de la Reforma”, söfnin, skrautgarða og fagrar 
          byggingar.  Höfuðborgin er einnig tilvalinn upphafsstaður 
          ferðalaga til annarra landshluta.  |