| 
           
          
          Fyrri
        heimsstyrjöldin: 
        Morð austurríska ríkisarfans
        í Sarajevo var gefin upp sem ástæðan til fyrri heimsstyrjaldarinnar. 
        Þýzkalandi verður ekki einu kennt um, þótt viss öfl hafi gælt
        við hungmyndir um innlimun ákveðinna landsvæða, unnið ljóst og
        leynt að því marki og því litið á stríðið sem leið til að
        gera þá draum að veruleika.  Þegar
        Þýzkalandi tókst ekki að sigra Frakka strax og eftir ósigurinn við
        Marne 1914, mátti þegar vera ljóst, að barátta á mörgum vígstöðvum
        við Frakka, Englendinga og Rússa auk Bandaríkjamanna 1917, mundi ekki
        leiða til sigurs.  Samt
        hafnaði Þýzkaland öllum tilboðum um friðarsamninga. 
        Keisarinn dró sig í hlé strax í stríðsbyrjun. 
        Kanslararnir voru veikgeðja og létu herinn ráða. 
        Herráðið með Poul von Hindenburg yfirhershöfðingja og Erich
        Ludendorff hershöfð-ingja í fararbroddi voru þeir, sem réðu. 
        Þótt Þjóðverjar væru að þrotum komnir, þrjózkaðist
        Ludendorff við til 1918 og þrástagaðist á möguleikum til sigurs. 
        Stuttu síðar varð honum ljóst, að stríðið var tapað, og
        krafðist vopnahlés.  Uppgjöf hersins olli pílitísku hruni.  Keisarinn og furstarnir lögðu andspyrnulaust niður völdin. 
        Enginn lyfti hönd til varnar einveldinu og Þýzkaland varð lýðveldi. 
           
          
        Weimarlýðveldið: 
        Jafnaðarmenn voru
        sterkasta stjórnmálaaflið. Þeir höfðu lengst af verið andsnúnir
        byltingarkenndum aðgerðum og boðuðu skipulegar þjóðfélagsbreytingar
        sem vænlegri til árangurs.  Iðn-jöfrar
        og landeigendur fengu að halda eignum sínum. 
        Embættismannakerfinu var bylt. 
        Yfirstjórn hersins var hin sama. 
        hernum var beitt til að bæla niður byltingartilraunir vinstri
        manna.  Á þinginu í
        Weimar 1919 höfðu þrír flokkar meirihluta, jafnaðarmenn, þýzki lýðveldisflokkurinn
        og miðju-flokkurinn.  Frá
        og með kosningunum 1920 ríktu flokkar á þingi, sem stóðu frammi
        fyrir hinu nýja lýðveldi með ýmsum fyrirvörum. 
        Weimarlýðveldið var lýðveldi án lýðveldissinna. 
        Þess vegna reyndist andstæðingum þess svo auðvelt að riðla
        því.  Það var varið með
        hálfum huga.  Þessi staða
        var framar öllu ástæðan fyrir óstöðugleika í innanríkismálum.  Staða atvinnuveganna var í rúst í stríðslok og þjóðin
        varð að ganga að afarkostum eftir uppgjöfina og greiða himinháar
        stríðsskaðabætur. 
           
          Árið 1923 náði
        ringulreið eftirstríðsáranna hámarki (verðbólga; herseta Ruhrhéraðanna;
        Hitlersæsingurinn; tilraunir kommúnista til byltinga o.fl.). 
        Því næst tók að hægjast um á stjórnmálasviðinu, er viðskiptabati
        tók að gera vart við sig.  Utanríkisstefna
        Gustavs Stresemanns færði Þýzkaland aftur jafnræði á stjórnmálasviðinu
        eftir Locarnosamninginn 1925 og inngönguna í Þjóðabandalagið 1926. 
        Listir og vísindi áttu stutt blómaskeið á þriðja áratugnum. 
        Að fyrsta forseta lýðveldisins Friedrichs Ebert látnum var
        frambjóðandi hægri manna, Hindenburg yfirhershöfðingi, valinn í
        hans stað.  Hann studdist að
        vísu eingöngu við stjórnarskrána en var samt alltaf tengslalaus við
        lýðveldið. 
           
          Sól Weimarlýðveldisins
        tók að hníga til viðar í heimskreppunni 1929. 
        Flokkar, sem voru lengst til hægri og vinstri nýttu sér
        atvinnuleysið og aðrar hörmungar til framdráttar. 
        Í þinginu var ekki lengur neinn starfhæfur meirihluti.  Ráðuneytin voru háð stuðningi forseta landsins, sem stjórnarskráin
        fól mikil völd í hendur.  Þjóðernisjafnaðarstefnu
        Hitlers, sem hafði fram að þessu lítið fylgi, óx fiskur um hrygg
        upp úr 1930.  Árið 1932
        var flokkur Hitlers orðinn hinn öflugasti í Þýzkalandi. 
        Hitler var kjörinn ríkiskanslari 30. janúar 1933. 
        Auk flokksmanna hans áttu íhaldsmenn sæti í ríkisstjórninni. 
        Þeir vonuðust til að geta dregið úr áhrifum þjóðernisjafnaðarmanna. 
           
          
        Stjórnarár
        Hitlers: 
        Hitler
        losaði sig snarlega við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn og treysti
        sig í sessi með heimildarlögum, sem allir borgaraflokkarnir samþykktu. 
        Á þennan hátt fékk Hitler nánast ótakmörkuð völd og
        bannaði alla stjórnmálastarfsemi aðra en flokk sinn. 
        Verkalýðsfélög voru bönnuð, almenn mannréttindi afnumin
        sem og frelsi dagblaða.  ríkisvaldið
        tók óæskilegt fólk óbíðum tökum. 
        Þúsundir hurfu án dóms og laga í fangabúðum, sem reistar
        voru í miklum flýti og með leynd. 
        Þingið var gert valdalaust og óstarfhæft. 
        Foringjadýrkunin fann alls staðar hljómgrunn. 
        Strax efir valdatökuna hóf stjórnin að framfylgja gyðingaofsóknum
        sínum.  Smám saman voru gyðingar
        sviptir öllum réttindum.  
           
          Þegar Hindenburg lézt
        1934, gerðist Hitler einnig forseti ríkisins. 
        Þannig varð hann æðsti yfirmaður hersins, sem hafði fram að
        því verið allsjálfráður.  Flestir
        Þjóðverjar létu þessa þróun afskiptalausa. 
        Weimarlýðveldið og réttarríkið höfðu ekki skitið djúpum
        rótum í hugum fólks.  Því
        fannst meira um vert, að Hitler tókst ða nokkrum árum að kveða niður
        atvinnuleysisdrauginn.  Samt
        sem áður voru margir úr öllum þjóðfélagsstéttum andsnúnir
        Hitlersstjórninni frá upphafi.  Staða
        Hitlers styrktist við sigra í utnaríkismálum, s.s. endurheimt Saar-héraðsins
        árið 1935, ólöglega endurreisn og uppbyggingu hersins og síðan
        innlimun Austurríkis og Súdetalands árið 1938. 
           
          
        Síðari
        heimsstyrjöldin og afleiðingar hennar: 
        Þrátt fyrir velgengnina,
        var Hitler ekki ánægður.  Frá
        upphafi ráðgerði hann stríð, sem mundi færa honum yfirráð yfir
        Evrópu allri.  Hann hóf
        styrjöldina 1. september 1939 með leiftur-sókn inn í Pólland, sem
        hann hernam.  Síðar lagði hann fleiri lönd undir sig:  Danmörku, Noreg, Holland, Belgíu, Frakkland, Júgóslavíu
        og Grikkland.  Þjóðverjar
        komust hartnær til Moskvu og í Norður-Afríku ógnuðu þeir Súezskurðinum. 
        Í hernumdu löndunum var komið á fót harðskeyttum hernámsstjórnum,
        sem andspyrnuhreyfingar börðust gegn. 
        Árið 1942 var hafin lokasókn gegn gyðingum. 
        Þeir voru fluttir frá öllum hernumdu löndunum til Póllands
        og myrtir í sérstökum útrýmingarbúðum. 
        Alls munu um  6 milljónir gyðinga hafa látið lífið á þennan hátt. 
        Sama ár og þessir ógnaratburðir áttu sér stað, snérist sókn
        Þjóðverja á vígstöðvunum í vörn.  Ósigrar urðu tíðari á öllum vígstöðvum möndulveldanna,
        Þýzkalands, Japans og Ítalíu.  Hinn
        20. júlí 1944 mistókst uppreisn foringja í þýzka hernum.  Hitler hélt styrjöldinni áfram með ógurlegum fórnum, aðr
        til allt ríkið var undirlagt óvinaherjum. 
        Hann framdi sjálfsmorð 30. apríl 1945. 
        Að ósk Hitlers tók Dönitz, æðsti aðmíráll, við völdum
        og gafst skilyrðislaust upp 8 dögum síðar og var tekinn höndum. 
           
          Þýzkaland hafði beðið
        sinn stærsta ósigur.  Flestar
        borgir landsins voru í rúst.  Fjórðungur
        íbúðarhúsnæðis var ónýtur. 
        Viðskipti og samgöngur lágu niðri, nauðþurftir skorti. 
        Fjórar milljónir hermanna og hálf milljón borgara lágu í
        valnum.  Milljónir voru í
        fangabúðum.  Milljónir
        voru hús-næðislausar eftir sprengjuregnið. 
        Milljónir, sem voru reknar frá heimilum sínum, voru á flótta. 
        Þýzkaland virtist ekki eiga sér neina framtíð.  |