| 
           
        Helmingur 
        meginlandshluta landsins er vaxinn skógi.  Hin 18 km langa strönd nær 
        upp að hæðabelti, sem teygjast inn á innslétturnar (mesetas) og þær 
        hækka smám saman í átt að landamærum Gabon.  Í landinu eru nokkrir 
        hæðahryggir.  Miðhryggurinn myndar skilin á milli Benito-árdalsins í 
        norðri og dalsins, sem Utamboni-áin rennur um.  
        Niefang-Mikomeseng-hryggurinn norðan Benitoárinnar er nokkuð lægri.  
        Allir þessir hryggir eru hlutar Kristalfjalla í Gabon.  Benitoáin 
        skiptir landinu.  Aðalstefna hennar er frá austri til vesturs og hún er 
        aðeins skipgeng fyrstu 18 km frá sjó.  Norðar myndar Campo-áin hluta af 
        landamærunum að Kamerún. 
         
        Sunnantil í landinu er Muni, óshólmasvæði nokkurra vatnsfalla frá Gabon 
        og Miðbaugsgíneu.  Austan losaralegra landamæranna að Gabon bugðast Kjé 
        (Kye)-áin.  Núverandi landamæri fara eftir lengdarbaugnum 11°20’A.  
        Lítill hluti vatnsorkunnar er nýttur til rafmagnsframleiðslu og 
        einhverjum trjábolum er fleytt niður árnar.  Sendin Strandlengjan er 
        sums staðar skorin lágum klettum í áttina að Kogo í suðri.  Engar 
        náttúrulegar hafnir eru í landinu og Mbini og Kogo eru ekki nægilega 
        góðar hafnir fyrir stór hafskip og umferð er lítil um þær.  Batahöfn 
        hefur verið stækkuð og er ein aðalhöfn landsins. 
         
        Strandslétturnar eru þaktar árframburði.  Baklandið er aðallega 
        myndbreytt berg af völdum vatns og vinda og jarðvegur er þar fremur 
        ófrjósamur.  Fyrir ströndum hefur fundizt talsvert af olíu og gasi og 
        nýting er fyrirhuguð.  Gull, mangan, járngrýti og úran er líklega í 
        jörðu og fýsilegt að nýta þessar auðlindir. 
         
        Aðaleyja landsins, Bioko, er tæplega 75 km löng og 36 km breið.  
        Landslag hennar er andstaða meginlandsins, því að hún er þakin óvirkum 
        eldgígum, vötnum og jarðvegurinn er frjósamur.  Nyrzt rís Santa 
        Isabelfjall 3011 m yfir sjó.  Það er útkulnað eldfjall með 
        sjónvarpsmastri á toppi.  Á eyjunni miðri  eru Mocatindur og Mocahæðir, 
        sem ljá landslaginu Alpayfirbragð.  Suðurhlutinn er utan alfaraleiða og 
        lítt nýttur og þróaður.  Þar er hrjúfur og grófur Gran Caldera-fjallgarðurinn 
        með straumþungum ám og stöðuvötnum. Árnar eru að hluta beizlaðar til 
        rafmagnsframleiðslu og talsverður landbúnaður er stundaður á eyjunni.  
        Víðst eru u.þ.b. 20 m háir hamrar með ströndum fram og fáeinar litlar 
        víkur með sandströndum.  Suðurströndin er mjög brött og hættuleg 
        sæfarendum.  San Antonio de Ureka er afskekktasta byggð landsins.  
        Malabohöfn er fremur góð og byggð á brún hins sokkna eldfjalls. 
         
        Annobóneyja er afskekkt og einangruð, u.þ.b. 154 km suðvestan São 
        Tomé-eyjar og u.þ.b. 600 km suðvestan Biokoeyjar.  Hún er eldfjallaeyja 
        eins og Bioko en lægri og þakin gígum, sem Santa Minafjall (746m) gnæfir 
        yfir.  Eyjan er 6 km löng og 3 km breið og mjög ójöfn.  Þar er aðeins 
        ein alvörubyggð og íbúarnir lifa að mestu á fiskveiðum og tala 
        portúgalskt „patois”. 
         
        Bæði á eyjunum og á 
        meginlandinu ríkir hitabeltisloftslag með hita, mikilli úrkomu og 
        skýjuðum himni mestan hluta árs.  Smámismunar gætir milli staða, einkum 
        vegna mismunandi hæðar yfir sjó og nálægðar hafsins.  Regntíminn á 
        meginlandinu er frá febrúar til júní og sept. til desember.  Úrkoman er 
        meiri með ströndinni en inni í landi.  Í Bata er hún 2388 mm á ári, í 
        Calatrave (sunnar) stundum 5500 mm.  Inni í landi, s.s. í Mikomeseng er 
        hún tæplega 1500 mm.  Meðalárshitinn er í kringum 26°C og er fremur 
        stöðugur allt árið.  Hámarkshiti er nokkuð lægri en á Biokoeyju en þar 
        er loftraki meiri. 
         
        Loftslagið á Biokoeyju gerir búsetu erfiða.  Hinn svonefndi þurrkatími 
        er frá nóvember til marz og aðra hluta ársins rignir næstum stöðugt.  
        Meðalárshiti er í kringum 25°C og breytist lítið allt árið.  
        Síðdegishitinn getur farið í 30°C og á nóttunni fer hann niður í 21°C.  
        Yfirleitt er skýjað.  Mest rignir í suðurhlutanum vegna monsúnáhrifa, 
        allt að 11.475 mm í kringum San Antonio de Ureca. 
                      |